12.11.1935
Efri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3681)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Þetta skal aðeins vera örstutt aths. - Hv. 1. þm. Eyf. sagðist ekki hafa orðið var við svo mikla kauphækkun í sveitum á síðustu árum. Ég skil ekki, að til sé sá maður í landinu, sem ekki hefir orðið var við vor- og haustkauphækkun í sveitum.

Hv. þm. sagði ennfremur, að 50 þús. kr. væri ekki stór upphæð, en þó vill hann með engu móti, að þeirri upphæð sé varið til þess að auka ræktun á þann hátt, sem lagt er til í frv. Hann vildi halda því fram, að þeirri upphæð mætti verja betur á annan hátt, en hann benti bara ekki á neina aðra leið, sem hann ætlaði að fara, svo ég verð að álíta, að hann sjái ekki heldur aðra leið landbúnaðinum til hagsbóta. Og ég vil enn benda honum á, að eins og Alþ. fannst það sjálfsögð leið 1923, þegar jarðræktarlögin voru sett, að vinna með þeim að því, að framleiðslukostnaður á landbúnaðarafurðum gæti lækkað, eins verður það nú að vera a. m. k. eitt höfuðskilyrði til þess, að landbúnaðurinn geti borið sig, að framleiðslukostnaðurinn geti lækkað, og það að mun.

Hv. þm. vildi þá gera aths. við þau orð, sem ég hefi skrifað upp eftir honum og ég vona, að komi heim við handrit skrifaranna. Orðin voru þessi: „Til hvers væri að auka ræktun og fjölga kúm, ef ómögulegt væri að selja mjólkina?“ Ég hefi í þessu sambandi bent á, að hægt væri að auka mjólkurneyzluna í landinu, ekki aðeins í bæjum, heldur og í sveitum. En náttúrlega er nauðsynlegt til þess að geta aukið mjólkurneyzluna sem mest, að framleiðslukostnaðurinn á henni geti einnig lækkað, og mér er ekki ljóst, hvernig hann getur lækkað nema með aukinni ræktun og kauplækkun. En ég býst ekki við, að stjórnarflokkarnir telji það neitt heillaráð. Svo vildi ég benda hv. þm. á, að það er fleira ræktun heldur en túnaukning. Það er ræktun að breyta túnkarganum, sem enn er til allt of víða hér á landi, í sléttan töðuvöll. Sú framkvæmd getur lækkað framleiðslukostnaðinn. Þó hún auki ekki svo mjög töðufallið.

Mér kemur það undarlega fyrir, ef hv. þm. kannast ekki við það, að hann hafi mælzt til þess við mann utan þings, að ég flytti ekki frv. um breyt. á kreppulánasjóðslögunum. Og get ég leitt þriðja mann til samtals við hv. þm. áður en langt um liður, og skal þá koma í ljós, hvað hæft er í þessu.

Þá talaði hv. þm. um það, að of sterkt hefði verið að orði komizt hjá mér, er ég talaði um „kolfelli“. Ég man ekki betur en að búnaðarmálastjóri sjálfur viðhefði það orð, þó að hv. þm. vilji halda því fram, að það þýði, að hver einasti kollur á kind falli. Það er oft talað um kolfelli í sögu landsins og annálum, þó öllum sé vitanlegt, að ekki hafi hvert einasta kýr- og sauðarhöfuð í landinu legið dautt. Og eftir málvenju hygg ég, að kolfellir þýði mikill fellir.

Hv. þm. vildi þá halda því fram, að í hans kjördæmi, Eyjafjarðarsýslu, hefði það engu breytt, þó styrkur til votheystófta hefði verið hækkaður, því venjulega væri þar svo góð veðrátta, að slík sumur sem 1934 væru mjög sjaldgæf. Það skal ég vitanlega játa, og ég man, að í þau 8 ár, sem ég var í Eyjafjarðarsýslu, kom fyrir sumar, sem aldrei þurfti að snúa flekk til ónýtis. En Eyjafjarðarsýsla er ein bezta sveit landsins, og þó hún sé ágæt, fögur og lofsverð í alla staði, þá er hún ekki sama sem allt Ísland. (BSt: Ég talaði um Norðurland yfirleitt). Ég vil mótmæla þessu hvað snertir allt Norðurland. Ég er uppalinn í einni sveit Norðurlands, og þar er mikill skilningur á þörf votheystófta.

Hv. þm. sagði það vera ranghermi hjá mér, að hann hefði vikið að því í sinni ræðu, að eins og stæði nú um markaðshorfur, væri vafasamt, hvort verkefni væri fyrir fleira fólk í sveitunum. Ég skrifaði þessi orð upp um leið og hann hélt ræðu sína á laugardaginn. Náttúrlega getur verið, að á þessum dögum, sem síðan eru liðnir, hafi eitthvað ruglazt hjá mér um samhengið, en orðin sjálf skrifaði ég upp, og ettir því sem hann vildi sjálfur túlka þessi orð nú, fannst mér, að meiningin hefði ekki breytzt svo mjög hjá mér, því hann vildi halda því fram, að skilyrðin til þess, að hægt væri af afla markaða, væru svo þröng og lokuð, að það væri eins og stæði ekki til neins að auka ræktun, en ég skal endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það er fleira ræktun heldur en túnaukning.

Um kartöflufrv. skal ég ekki tala nú; það gefst tækifæri til þess síðar.

Hv. þm. lýsti því yfir, að hann hefði ekki trú á efndum Bændafl. í þessu máli, og færði því til sönnunar, að Bændafl. myndi leita samvinnu við Sjálfstfl., ef svo bæri undir, og vitnaði þar í einhverja grein, sem birzt hefði í Morgunblaðinu. En ég vil minna á það, að blað Bændafl. hefir þegar svarað þeirri grein (JBald: Það var nú heldur loðið.) og borið hana svo til baka, að Morgunblaðið reiddist mjög yfir því svari og hafði í hótunum við Bændafl., sem vitanlega tekur slíkt ekki nærri sér. Um það, að Bændafl. muni leita samvinnu við Sjálfstfl., vísa ég til þeirrar yfirlýsingar, sem kom í blaði flokksins, og þar sem mér er skammtaður tími, skal ég láta það duga.

Hv. þm. sagði, að þegar ég var í stj., hefði ég stungið fótum við útgjöldum. En ég vil bara spyrja hann, hvort ég hafi stungið fótum við þegar um útgjöld til landbúnaðarins var að ræða. Ég ætla, að ekkert þing hafi samþ. meira af útgjöldum til landbúnaðarins heldur en einmitt það þing, er ég var í meirihlutaaðstöðu Í stjórninni.