07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3685)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Fim. (Sigfús Jónsson):

Við flm. þessa frv. komum fram með það eftir ítrekuðum óskum hreppsnefndar Sauðárkrókshrepps um að gera tilraun til að afla aukinna tekna til að mæta útgjöldum hreppsins. Þessi útgjöld fara sívaxandi, og þrátt fyrir hækkuð útsvör hrökkva þau ekki lengur til að standa straum af þeim. Bæði eru útsvörin orðin það há, að ekki er hægt að hækka þau meira, og svo gjaldast þau verr og verr með hverju ári, sem líður. Á þessu ári var líka sérstök ástæða til, að þau greiðast verr en nokkru sinni áður. Á Sauðárkróki var svo óvenjumikið atvinnuleysi síðastl. sumar, að fjöldi verkamanna var ekki nema matvinnungur yfir bezta tíma ársins, og útlit er fyrir, að sveitarþyngsli vaxi mikið til næsta vors.

Það hafa komið hér fram áður frv. í svipaða átt og þetta, um tekjuauka handa einstökum bæjar- eða sveitarfélögum. Þeim hefir verið misjafnlega tekið og átt fremur erfitt uppdráttar. Við flm. þessa frv. höfum farið nokkuð aðra leið, og hún er sú, að tekið verði gjald af aðfluttri vöru, hliðstætt vörutolli, en þó því aðeins, að samþ. verði af lögmætum fundi atkvæðisbærra manna á Sauðárkróki og síðan af sýslunefnd Skagafjarðarsýslu. Þarna er það lagt á vald þeirra, sem gjaldið eiga að greiða, hvort þeir vilja taka það á sig eða ekki.

Grg. frv. skýrir frá, hver er tilgangur frv. og hvernig þetta gjald skuli lagt á, og þarf ég ekki að fara um það fleiri orðum. Óska ég, að frv. verði látið ganga til 2. umr. og vísað til fjhn.