07.11.1935
Neðri deild: 67. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3686)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl]:

Það kemur hér fram, sem áður hefir verið bent á, þegar svipuð mál hafa verið á ferðinni, að það stefnir út í hinn mesta voða, ef svona er haldið áfram. Það er ekkert annað en það, að þessir kaupstaðir og kauptún fara að hafa ótakmarkað vald svo að segja til þess að leggja gjald á viðskipti manna víðsvegar úti um héruð. Þetta er umsetningarskattur, sem ekki aðeins leggst á íbúa kaupstaðanna sjálfa, heldur umsetningu allra, sem í kaupstaðnum verzla. Ég býst við, að hv. flm. haldi fram, að hér sé um svo lítið gjald að ræða, að það muni ekkert um það. En það er ekki aðalatriðið til þess að byrja með, hvort gjaldið er hátt eða lágt. Hitt er aðalatriðið, að það er tekið af óréttmætum stofni. Úr því að byrjað er að leggja á slík gjöld, er ekki séð, hvar það endar. Það getur þá orðið haldið áfram þangað til þetta er orðinn tilfinnanlegur skattur á þeim, sem ekki ber skylda til þess á neinn hátt að standa undir sveitarþyngslum þeirra sveitar- eða bæjarfélaga, sem skattinn fá, mönnum úr öðrum sveitarfélögum.

Ég vildi vekja athygli á þessu strax, að ef því kauptúni, sem hér er um að ræða, Sauðárkróki, er veitt þessi heimild, þá koma hin kauptúnin á eftir, hvert einasta þorp, sem orðið er hreppsfélag út af fyrir sig. Og ef kauptúnin fengju yfirleitt slíkan tekjustofn, mundu hinir smærri verzlunarstaðir fljótlega reyna að verða sem fyrst sjálfstæð hreppsfélög, þar sem þau þá ættu þarna vísan tekjustofn, sem lendir á sýslubúum í heild, eða þeim hluta þeirra, sem verzlun hafa á viðkomandi stað. Mér finnst, að með þessu sé svo freklega gengið á rétt þeirra, sem heima eiga utan verzlunarstaðanna, en hafa þar öll viðskipti sín, að það nái ekki nokkurri átt, þó tekizt hafa á einum eða tveimur stöðum að fá slíkt í gegn. Ég reikna þar ekki með Vestmannaeyjakaupstað, því hann hefir þá sérstöðu, að þar er ekki umsetningarskattur tekinn af öðrum en kaupstaðarbúum sjálfum.

Ég sé ekki, að kaupstaðirnir og kauptúnin hafi neitt meiri þörf á auknum tekjustofnum heldur en sveitarfélög uppi um sýslur, sem hafa við nákvæmlega sömu erfiðleika að stríða við öflun nauðsynlegs fjár til sinna útgjalda. Kaupstaðirnir og kauptúnin standa þó það betur að vígi, að gegnum þau fer öll verzlun, og á verzlanirnar eru venjulega lögð rífleg útsvör.

Ég verð því að segja, að mér finnst þegar búið að seilast nægilega langt niður í vasa sveitarfélaganna, þó ekki sé enn farið að auka á þær byrðar með því að láta kauptúnin leggja sérstakan neyzluskatt á öll viðskipti síns héraðs.