18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (3691)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og frsm. meiri hl. fjhn. hefir skýrt frá, gat ég ekki orðið samnm. mínum sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég hefi því leyft mér að bera fram rökst. dagskrá því til frávísunar á þskj. 558. Ástæður mínar fyrir þeirri rökst. dagskrá eru þær, að eins og hv. frsm. gat um, er komin fram í Sþ. till. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, þar sem skorað er á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til l. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. Ég tel ekki rétt að grípa fram fyrir hendurnar á þeim aðilum, sem þetta mál fá til meðferðar og koma væntanlega með heildarlöggjöf um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga fyrir næsta þing. Mér er ljóst, að það er mikil nauðsyn að gera ráðstafanir til tekjuöflunar fyrir bæjar- og sveitarfélög yfirleitt. En mér finnst ekki rétt, þar sem skammt er til næsta þings, að taka eitt sveitarfélag út úr og veita því úrlausn, sem óvíst er, hvort verður framtíðarlausn þessa vandamáls. Ég veit vitanlega ekki, hverjar verða till. hæstv. stj. í þessu máli né hver verður afgreiðsla þingsins á þeim á sínum tíma. En ef eitt sveitarfélag er tekið þannig út úr rétt áður en búast má við, að sett verði heildarlöggjöf, getur það einungis orðið til þess að valda óánægju og skapa glundroða. Þó ég viðurkenni fúslega, að Sauðárkrókur muni hafa mikla þörf fyrir nýja tekjustofna, þá eru mörg önnur sveitarfélög, sem e. t. v. þarfnast þeirra ekki síður, og því ástæðulaust að taka þannig eitt út úr. Auk þess álít ég þá tekjuöflunarleið, sem hér er farið fram á, vægast sagt neyðarúrræði. Það á að leggja skatt á neyzluvörur almennings, og það jafnvel neyzluvörur annara sveitarfélaga, þó þetta frv. hafi það fram yfir önnur frv. í líka átt, sem lögð hafa verið fyrir þingið, að hér er gert ráð fyrir samþykki sýslunefndar og meiri hluta hreppsbúa áður en gjaldið er lagt á. Ég vænti, að hv. d. geti fallizt á, að ekki sé knýjandi nauðsyn til að taka þetta eina sveitarfélag út úr og veita því nýjan tekjustofn, heldur geti það beðið þangað til almennar ráðstafanir verða gerðar í þessu efni, og því sé rétt að samþ. þá rökst. dagskrá, sem ég hefi leyft mér að bera fram á þskj. 558.