18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (3694)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. gat þess, að þetta mál væri svo vaxið, að því væri aðeins ætlað að ná til eins hreppsfélags, sem er rétt. Hann vildi því ekki styðja málið. En hann veit þó, að fleiri kaupstaðir hafa farið fram á slíka aðstoð sem þessa, svo sem Siglufjörður, Vestmannaeyjar og Akureyri. Mér þykir undarleg afstaða sósíalista hér, þar sem vitað er, að flokksbræður þeirra í bæjarstj. Siglufjarðar eru þessu máli fylgjandi. Mætti ætla, að þeir létu reynsluna meiru ráða um afstöðu sína til málanna en það „princip“ að vilja ekki óbeina skatta. Auk þess er komin fram till. frá hv. 1. þm. Árn. þess efnis, að þessi heimild nái aðeins til ársins 1936. Ég ber fram samskonar till. við frv. til l. um hafnarl. fyrir Siglufjörð, þar sem farið er fram á, að heimildin takmarkist við árið 1936. Till. hv. 1. þm. Árn. ætti a. m. k. að vera hægt að samþ. En þegar heimildartíminn væri útrunninn, mætti gera ráð fyrir, að stj. hefði gert ráðstafanir til að afla bæjar- og sveitarfélögum nýrra tekna.

Það er ekki rétt að segja, að hér sé verið að taka eitt sveitarfélag út úr, þar sem fyrir liggja samskonar beiðnir frá öðrum.