20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (3699)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Við afgreiðslu þessa frv. til 3. umr. fyrir 2 dögum voru haldnar hér í d. margar og merkilegar ræður. Inn í þær umr. blönduðust almennar umr. um þessi mál í heild, og komu þá fram raddir um það, að ósanngjarnt væri að taka út úr eitt einstakt sveitarfélag og leyfa því álagningu þessa gjalds, en láta önnur sveitarfélög sitja hjá, sem jafnvel hefðu miklu meiri þörf fyrir það. Til þess nú að ráða bót á þessu ósamræmi hefi ég ráðizt í að bera fram brtt. við frv. þetta, sem breyta því á þann veg, að það verði lög um tekjustofn fyrir alla kaupstaði utan Reykjavíkur, og þau kauptún, sem eru sérstök hreppsfélög. Brtt. mínar miða því að því að gera gagngerðar breyt. á frv. Í 1. brtt. minni legg ég til, að bæjarstjórnum í kaupstöðum utan Rvíkur og hreppsnefndum í kauptúnum, sem eru sérstök hreppsfélög, verði heimilað að leggja vörugjald á innfluttar og útfluttar vörur í kaupstaðnum eða kauptúninu, og renni gjaldið í bæjar- eða sveitarsjóð.

Þá legg ég til, að í 2. gr. verði svo ákveðið, að vörurnar skuli allar flokkaðar til vörugjalds af atvmrn., sem svo setji gjaldskrá um, hve hátt vörugjaldið megi vera í hverjum flokki. Þetta tel ég heppilegri aðferð en að vera að tína vörutegundirnar upp í löggjöfinni, eins og sumstaðar er gert. Það má vel vera, að sumum finnist, að með þessu sé lagt nokkuð mikið vald í hendur stj., en þá er því til að svara, að með þessu er stj. sízt gefið meira vald en hún hefir t. d. í þessu efni hér í Rvík, þar sem hún á að staðfesta ýmsar reglugerðir um vörugjald o. fl. Gjaldskrá þessari er svo ætlað að gilda fyrir alla kaupstaði utan Reykjavíkur og kauptún, sem lögin ná til. Þó er gert ráð fyrir, að þar sem sérstaklega standi á, að dómi ráðherra, þá megi lækka gjöldin í heild um allt að 50% frá því, sem gjaldskráin ákveður.

Þá er 3. brtt., þar sem lagt er til, að bætt verði við tveimur nýjum greinum, sem verði 3. og 4. gr. Þar er fyrst ákveðið, hvernig því skuli hagað til, þegar bæjar- eða sveitarfélag hefir samþykkt að leggja gjald þetta á, og ennfremur hvernig það skuli innheimt.

Fjórða brtt. er við 3. gr. frv., sem nú verður 5. gr., þar sem eru ákvæði um það, að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1936 og gilda aðeins það ár.

Fimmta brtt. er um, að fyrirsögn frv. skuli vera: Frv. til laga um vörugjald.

Ég þykist vita, að ýmsir hv. þm. telji sig þurfa meiri umhugsunartíma til þess að átta sig á þessari breyt. en þeir geta fengið á þessum fundi; má því mín vegna fresta umr. þessari til morguns.

Ég vil svo að síðustu taka það fram, að vilji Alþingi á annað borð hjálpa bæjar- og sveitarfélögunum í þessu efni, þá á sú hjálp að ganga yfir þau öll, sem þörf hafa fyrir hana, en það á ekki að vera að draga eitt og eitt út úr. - Þá er eitt enn. Verði brtt. mínar samþ. og frv. verði þannig að lögum, þá verður það miklu víðtækara en það er nú. Nú er aðeins gert ráð fyrir að heimila hreppsnefnd Sauðárkróks að innkalla gjald, sem nemi 50% af vörutollinum eins og hann verður þar á hverjum tíma. Nær það gjald því ekki til vara, sem t. d. eru fluttar til Sauðárkróks héðan frá Rvík og vörutollur hefir verið greiddur af hér. M. ö. o., það yrði allmikið af vörum undanþegið því gjaldi.

Að þetta er flutt sem brtt. við frv. um heimild fyrir hreppsnefnd Sauðárkróks til álagningar vörugjalds, er sökum þess, hve áliðið er orðið þings. Þó að brtt. verði samþ. hér, eiga þær eftir að fara til Ed. og fá sína eldskírn þar. Þá vil ég að endingu biðja hv. þdm. að gæta þess, að hér er ekki um að ræða skyldu fyrir bæjar- og sveitarfélögin, heldur aðeins heimild.