20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3705)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi mikla tilhneigingu til þess að hallast að stefnu hv. 6. landsk. um breyt. á þessu frv. Ekki þó á þann hátt, sem hér er farið fram á, heldur þá höfuðstefnu, sem þar kemur fram, að gera allsherjarlagasetningu um þessa hluti.

Hv. 7. landsk. benti á, að ekki væri hægt að koma við þeim öryggisráðstöfunum um þessa álagningu, sem fælist í þeirra frv., ef ætti að gera þessa heimild almenna. En það er einmitt stærsti ókosturinn við þetta frv., að það eru sett sérákvæði fyrir þetta kauptún, sem önnur kauptún geta ekki komið undir. Það er leitað að ákvæðum, sem kannske örfá sveitarfélög geta notað sér, en önnur alls ekki, og það án tillits til þess, hvort þetta sveitarfélag eða kauptún sé meira þurfandi fyrir þessa hluti heldur en hin kauptúnin, sem ekki geta notað sér þessi sérstöku tryggingarákvæði.

Það, sem verður að gera, er að skapa öllum sem svipaða þörf hafa fyrir auknar tekjur, einhverja möguleika til þess að afla sér þeirra, og með brtt. hv. 6. landsk. er gengið inn á þá braut.

Mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. fjmrh. hefir fallizt á öll þau rök, sem ég hefi fært fram í þessum málum, þegar þau hafa verið á ferðinni á þingi, því að það er ekki svo að skilja, að þetta sé fyrsta málið um þetta efni, sem hér hefir verið afgr., heldur hafa ýmsir kaupstaðir farið fram á svipaða lagasetningu, sem þeir hafa fengið í gegn á þingi. Þessi lög verka og hafa verkað þannig, að með þeim er verið að leggja gjöld á aðra heldur en þá, sem eiga undir gjöldunum að standa. En ef á að ganga inn á þessa braut á annað borð fyrir einstök kauptún, þá er sjálfsagt, að önnur kauptún fái þennan sama rétt. Það verður því að finna einhver sameiginleg skilyrði, sem allir geta verið undir, til þess að enginn þurfi að vera útundan, þegar að því kemur að njóta þessara laga.

Ég gæti fallizt á það, og teldi það æskilega leið, að fresta þessari lagasetningu nú að sinni, en hallast aftur á móti að þeirri þáltill., sem er á þskj. 545 um endurskoðun á þessum hlutum, og mætti þá væntanlega bera fram á næsta þingi frv. um aukna tekjustofna fyrir hreppsfélögin.

Þó að þetta mál verði afgr. nú, er ekki með því náð út yfir önnur sveitarfélög en þau, sem eru kauptún, en hinum sveitarfélögunum er eftir að fullnægja, og það þarf að gerast innan langs tíma, ef bjarga á við fjárhagsafkomu þeirra, því að eins og bent hefir verið á í grg. fyrir þáltill. á þskj. 545, þá bera hin ýmsu mál, sem borin hafa verið fram hér á þingi og farið hafa í þessa átt, þess ljósast vitni, hve mikil þörf er á endurbótum á þessu sviði.

Verði þessar till. hv. 6. landsk. samþ., tel ég það yfirlýsingu þingsins um það, að hér verði að fara að hefjast handa, og þó að frv. svo breytt næði ekki samþ. hv. Ed., þá er það a. m. k. áherzla til viðbótar við það, ef þáltill. yrði samþ., að hér verði að hefjast handa til þess að fá viðunandi lausn þessara mála. Og það þykir mér mest um vert, að sú lausn kæmi sem fyrst, þó að það verði ekki á þessu þingi.

Annars vil ég benda á, að þann rétt, sem Sauðárkrókur fengi með því að þetta frv. yrði samþ., fengi hann fullkomlega, ef frv. það yrði samþ., sem ég bar fram í fyrra og nú aftur, og þá myndu öll önnur kauptún og sveitarfélög njóta þess líka. Það er því fyrsta sporið, sem skynsamlegt er að stiga í þessu máli, því að það kæmi öllum til nokkurs stuðnings.

En það er að vísu ekki nema bráðabirgðaléttir eða fyrsta sporið í þessa átt, og því jafnmikil nauðsyn á að fá fullkomna endurskoðun á þessari löggjöf.