25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3709)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ég flyt hér eina brtt. á þskj. 610, við brtt. á þskj. 580. Ég vil taka það fram strax, að ég mun þó ekki greiða þeim brtt. atkv., sem eru á þskj. 580. En ef þær ná fram að ganga, þá þykir mér betra, að þær verði samþ. með þeim breyt., sem mín brtt. á þskj. 610 gerir ráð fyrir.

Brtt. mín er í þá átt, að 1. gr. brtt. á þskj. 580 orðist um. Brtt. hv. 6. landsk. á þskj. 580 gerir ráð fyrir, að heimild sé veitt hreppsnefndum í kauptúnum, sem eru sérstök hreppsfélög, að leggja vörugjald á allar innfluttar og útfluttar vörur í kauptúninu, til tekjuöflunar fyrir viðkomandi sveitarfélög. Með brtt. minni á þskj. 610 legg ég til, að ekki aðeins kauptún, sem eru sérstök hreppsfélög, heldur einnig sveitarfélög, þar sem meiri hluti hreppsbúa býr í kauptúni, fái þessa heimild, ef brtt. á þskj. 580 verður á annað borð samþ. að öðru leyti.

Það er enginn vafi á því, að ef gengið verður inn á þá braut að veita kaupstöðum og kauptúnum heimild til að leggja á vörugjald hjá sér, þá á það ekki síður að ná til þeirra kauptúna, sem ekki eru sérstakt hreppsfélag, eins og hinna, ef meiri hl. íbúa sveitarfélagsins þar er í kauptúninu. Skal ég nefna dæmi, sem mér er kunnugt um, því að það er um kauptún í mínu kjördæmi. Þar eru 3 kauptún. Eitt af þeim, Patreksfjörður, er sérstakur hreppur. Hin tvö kauptúnin. Bíldudalur og Flatey, eru hvort fyrir sig hluti úr hreppsfélagi. Nú er svo ástatt, að fjárhagur þessara tveggja kauptúna, sem ekki eru sérstakur hreppur hvort fyrir sig, er miklu verri en fjárhagur Patreksfjarðar, enda þótt ég beri ekki brigður á, að því kauptúni veiti ekki af að fá auknar tekjur líka. Af þessum þremur kauptúnum hefir Bíldudalur langverstar fjárhagsástæður. Þar eru kringum 300 íbúar, og er kauptúnið hluti úr Suðurfjarðahreppi. En 150 manns eru í hreppnum utan kauptúnsins. Eftir 1. brtt. á þskj. 580 ætti Patreksfjörður að fá heimild til að leggja vörugjald á vörur, sem þaðan og þangað eru fluttar, en Bíldudalur mætti ekki leggja á vörugjald hjá sér. Ef á annað borð er gengið inn á þá braut að veita kauptúnum þessa heimild, þá held ég því fram að það ætti alls ekki að einskorða hana við þau kauptún, sem eru sérstakt hreppsfélag, heldur ætti slík heimild þá að ná til þeirra kauptúna einnig, sem eru það ekki, eða til allra kauptúna.

Þessa dagana er (svo ég nefni annað dæmi) verið að ræða um að gera kauptún, sem hefir verið klofið á milli tveggja hreppsfélaga, að einu hreppsfélagi. Og sú tilviljun, að löggjafinn gengur inn á að sameina það kauptún í eitt hreppsfélag, mun þá verða til þess, að leggja má á vörugjald, til hagsbóta fyrir nyrðri hluta kauptúnsins, sem er í Engihlíðarhreppi. En á meðan kauptúnið er klofið á milli tveggja hreppsfélaga, þannig að norðurhlutinn er í Engihlíðarhreppi, en suðurhlutinn í Blönduóshreppi, þá hafa þeir fyrir norðan ána enga heimild til að leggja á vörugjald. Það hlýtur hver maður af þessu að sjá, að um rétta hugsun er að ræða í minni brtt. En ég vil endurtaka það, að ég ber brtt. fram aðeins til vonar og vara, ef svo skyldi fara, að brtt. á þskj. 580 yrði samþ., því að í raun og veru vil ég ekki, að sú brtt. nái samþ. að svo komnu, og ekki heldur frv. á þskj. 573.

Nú liggur fyrir Alþ. þáltill. frá allmörgum hv. þm., þar sem skorað er á stj. að rannsaka, hvaða tekjustofnar muni vera tiltækilegastir til þess að afla aukinna tekna fyrir kaupstaði og kauptún, umfram útsvarsálagningarleiðina, sem nú er farin. Mér virðist það dálítið undarlegt, að flm. þessarar brtt. á þskj. 580 er aðalflm. þessarar þáltill. Nú er í þessari þáltill. það ekki bundið við neinar sérstakar leiðir, hvernig vandamál kaupstaða og kauptúna í þessu efni skuli leyst. M. ö. o., það er engin vissa fyrir því, þó að þessi þáltill. gengi í gegn, að þingið mundi velja þá leið að veita þessum aðilum heimild til þess að ná nauðsynlegum tekjum með vörugjaldi. Nú er það kunnugt, hvað sem að öðru leyti má segja um vörugjaldsálagningarleiðina, þá er það viðvíkjandi innheimtu léttasta leiðin til þess að ná peningum, þó að sú leið sé oft og tíðum mjög ranglát. Og ég er ekki í vafa um það, þótt þessi heimild, sem hér er farið fram á í frv., sé bundin við eitt ár, þá muni hún verða tekin upp í allflestum kaupstöðum og kauptúnum, sem svona heimild fá fyrir eitt ár, einnig á næstu árum. Mun þá og verða erfitt fyrir þingið að breyta til og vísa kaupstöðum og kauptúnum á aðra tekjustofna, sem erfiðara er að nota. Þess vegna álít ég það ekki rétt, að gengið sé á þessu þingi inn á þá braut að veita örfáum stöðum, svo sem Siglufirði og Sauðárkróki og (svo ég vísi til þess, sem áður hefir komið fram) Akureyri, leyfi til að auka tekjur sínar á annan hátt en með útsvarsálagningu, en láta um önnur kauptún og kaupstaði sitja eingöngu við þessa tekjuöflunarleið. Ég álít ekki heldur rétt að velja þessa leið rannsóknarlaust, sem um getur í frv., heldur eigi hæstv. Alþ. að halda sér við þáltill., sem er um það, að athugað verði fyrir næsta þing, hvaða tekjustofnar eru tiltækilegastir til þess að veita bæjar- og sveitarfélögum auknar tekjur til hjálpar út úr því fjárhagslega öngþveiti, sem mörg af þeim eru nú í.