25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (3710)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það eru reyndar einhverjir fleiri, sem eiga brtt. við þetta frv., en hafa ekki talað fyrir sínum till. En ég á ekki neina brtt. við frv., heldur vildi ég aðeins í sambandi við þetta frv. um Sauðárkrók fara nokkrum almennum orðum um þá miklu þörf, sem kemur fram í öllum þessum brtt., á því að auka eða endurbæta möguleikana fyrir bæjar- og sveitarfélög til þess að afla sér tekna. Því að í þessum till. felst vitanlega fullkomin viðurkenning fyrir því, að sveitarfélög séu alveg komin að þrotum um það, að geta aflað nauðsynlegra tekna til sinna þarfa. Það má segja, eins og mál þetta liggur hér fyrir, að sú kenning, sem haldið hefir verið fram, að að því ætti að stefna að gera beina skatta að aðaltekjum, bæði fyrir ríki, bæjarfélög og sveitarfélög, hafi beðið algert skipbrot hér á þessu landi. Það er alkunnugt, að bæir og sveitarfélög hafa verið byggð upp á þessari stefnu, þ. e. að afla fjár til sameiginlegra þarfa með beinum sköttum, nefnilega með niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum. Nú hefir það sýnt sig, að ekki er lengur hægt að afla tekna handa sveitarfélögum á þennan hátt. Viðurkenning á þessu hefir þá fyrst og fremst fengizt frá hv. 6. landsk., sem ber nú hér fram till. í þessu máli á þskj. 580. Og það er dálítið eftirtektarvert, að hún kemur fram frá manni úr þeim flokki, sem hefir haldið því fram sem aðalstefnu þess flokks, að afla beri tekna með beinum sköttum, ekki aðeins fyrir bæjar- og sveitarfélög, heldur einnig fyrir ríkið. Þessi brtt. felur því í sér fullkomna uppgjöf í þessu atriði af hálfu þessara manna á þeirri stefnu, að aflað sé umgetinna tekna með beinum sköttum að mestöllu leyti. Þeim, sem haldið hafa því fram, að þessi leið væri ófær, kemur þessi stefnubreyt. ekkert á óvart. Þessi stefnubreyt. sýnir, að þessir góðu menn, samflokksmenn hv. 6. landsk., eru nú búnir að sjá, að þessi tekjuöflunarleið, þó að hún sé að mörgu leyti sanngjörn, er ómöguleg í framkvæmdinni. En allar till. hér, sem ganga í þá átt að bæta úr þörf sveitar- og bæjarfélaga, ganga út á nýja skatta, þ. e. a. s. að finna nýjar leiðir til þess að leggja nýja skatta á þessa sömu menn. Áður hafa komið fram till. um það, að létta erfiðleikunum af sveitar- og bæjarfélögum með því að láta nokkurn hluta af tekjum ríkisins, t. d. nokkurn hluta af tekju- og eignarskatti og fasteignaskattinn, ganga til sveitarfélaganna og létta gjöldum af sveitar- og sýslusjóðum, t. d. berklavarnagjaldinu. En allar þær till., sem nú koma fram um hjálp til bæjar- og sveitarfélaga, ganga í þá átt að leggja enn á nýja skatta í nýrri mynd.

En úrlausn málsins liggur ekki í því, að yfirfæra nýja skatta á sömu mennina og eru að kikna undir gömlu sköttunum. Það, sem verður að viðurkenna í orði, en þó fyrst og fremst í verki, er það, að ríkið hefir gengið svo hart að mönnum með álögum, að þeim er af þeim ástæðum ekki lengur unnt að standa undir gjöldum til bæjar-, sveitar- eða sýslusjóða. Eina úrlausnin er sú, að slaka eitthvað á skattheimtunni til ríkisins og létta þannig á einstaklingunum.

En það, sem þó er ef til vill allra varhugaverðast við þá till., sem hér liggur fyrir, og aðrar svipaðar, er það, að með þeim hætti á að fara að ganga í þá átt að leggja á gjöld í kaupstöðum og kauptúnum, sem þeir sjálfir verða ekki einir að greiða, heldur einnig önnur hreppsfélög og kaupstaðir, sem einskis njóta af gjaldinu, og eru þannig skylduð til að kosta málefni allt annara sveitarfélaga og taka við byrðum af þeim, án þess að hafa aðstöðu til að létta hag sinn neitt með sama hætti.

Þetta kemur einna ljósast fram í frv. um hafnargjöld á Siglufirði. Það gengur í þá átt að hækka vörugjaldið um allt að 100% til bæjarþarfa og gera á þann hátt skattskylda alla þá, sem atvinnu stunda á Siglufirði yfir sumartímann. Og þetta er farið fram á á þeim stað, sem ríkið hefir reist og keypt hverja verksmiðjuna eftir aðra og þannig neytt menn óbeinlínis til þess að leggja þar upp allar sínar afurðir, enda þótt þeim hefði verið það miklu hagkvæmara annarsstaðar, og þannig á allan hátt eflt og skapað atvinnulíf bæjarins. Nú á samkv. frv. að gera Siglufirði kleift að varpa byrðum sínum yfir á þá menn, sem vegna verksmiðjanna beint og óbeint stunda þar atvinnu sína um sumartímann. Ég nefni Siglufjarðarfrv. sem dæmi, en annars ganga hinar almennu till. hv. 6. landsk. alveg í sömu átt og hafa sömu verkanir, ef þær verða samþ. Ég vil benda á það, að þegar gerðar voru breyt. á útsvarslögunum 1926, var það fyrst og fremst vegna þess, að í óefni þótti vera komið um álöguheimildir kaupstaða, þar sem menn stunda vinnu stuttan tíma ársins, vegna þess að svo mikið var oft lagt á þá á þessum stöðum, að lítið eða ekkert var hægt að leggja á þá heima fyrir. Allra lengst var þó gengið í þessu efni á Siglufirði. Þar var ranglætið svo hróplegt, að ég man, að menn hér á þingi setti hljóða, þegar upplýsingar voru gefnar um það. Í þeim till., sem hér liggja fyrir um hækkuð vörugjöld til bæjarþarfa, er því beinlínis horfið frá stefnu þeirri, er útsvarslögin 1926 spruttu af.

Það hefir verið talað um, og komið fram brtt. um það, að draga mætti úr ranglætinu, sem í þessum till. felst, með því að veita sýslunefndum íhlutunarrétt um álagningu slíks gjalds. Þetta getur verið til nokkurra bóta, en það kemur ekki að gagni þar, sem sýslubúar verzla við kaupstað, sem er sjálfstætt lögsagnarumdæmi, né heldur verndar það fjarlæg sveitarfélög fyrir því, að gjald þetta geti verið lagt á einstaklinga þeirra, sem leita sér atvinnu í kaupstöðum, eins og t. d. Siglufirði. Þessi brtt. hv. þm. Ísaf. dregur því aðeins úr ranglætinu að sáralitlu leyti.

Ef hv. þm. er nokkur alvara með það, að draga úr örðugleikum sveitar- og bæjarfélaga, þá er eina ráðið að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, svo eitthvað af núv. skattstofnum hans geti runnið til sveitar- og bæjarfélaga. Þetta er heppilegasta, réttasta og raunhæfasta leiðin. Því að það hefir þegar sýnt sig, og mun sýna sig betur, að takmörk eru fyrir því, hversu langt er hægt að ganga í því að hrúga niður nýjum sköttum.