25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3714)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Þá er að síðustu að minnast á brtt. hæstv. fjmrh., sem leggja til, að gjaldið renni í sýslusjóð, en ekki hreppssjóð. Ég verð að segja, að við þá till. hefi ég talsvert mikið að athuga:

Ef gert er ráð fyrir, að á þessu þingi verði samþ. frv. til framfærslulaga, sem nú liggur fyrir þinginu, en er ennþá í n., þá þýðir það, að meginhlutinn af fátækraframfærslunni er lagður yfir á kaupstaðina, þannig að þeir missa allan rétt til þess að krefjast endurgreiðslu frá öðrum stöðum. Þessar till. mínar eru fyrst og fremst miðaðar við það, að þegar á að leggja á kaupstaðina þessa nýju fátækraframfærslu án þess að þeir eigi von í neinni endurgreiðslu, þá þarf að tryggja fjárhag þeirra. Það er fyrsta röksemdin frá minni hálfu fyrir þessu vörugjaldsfrv.

Verði þetta gjald látið renna í sýslusjóð í staðinn fyrir hreppssjóð þeirra kauptúna, sem aðallega taka við fátækraframfærslunni, þá veit ég ekki, hvernig það mundi yfirleitt verka, hvort hægt væri að létta af svo miklu af sýslusjóðsgjaldinu, að þeim kæmi að verulegu gagni. Ég vil ekki segja neitt ákveðið um það. Það hafa sjálfsagt aðrir þm. meira um það að segja heldur en ég. Hinsvegar finnst mér engin frágangssök að samþ. frv. með þeirri breyt. - Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Mun ég ekki taka til máls aftur nema sérstaklega verði að mér veitzt og ég fái þá að fljóta á náð hæstv. forseta.