25.11.1935
Neðri deild: 82. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3721)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Þetta mál hefir nú verið rætt svo lengi, að kalla má, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar við. Ég fer ekki út í þessar mörgu brtt., sem fram eru komnar, en vil aðeins minnast á eina brtt., sem hv. 1. flm. og frsm. n. hefir ekki haft tök á að geta. Það er brtt. hv. 2. þm. N.-M, þar sem hann leggur til, að í stað orðanna „og meiri hl. sýslun. Skagafjarðarsýslu“ í 1. gr. komi: og meiri hluti þeirra sýslunefndarmanna í sýslun. Skagafjarðarsýslu, sem kosnir eru í þeim hreppum sýslunnar, sem reka aðalverzlun sína á Sauðárkróki.

Út af fyrir sig hefi ég ekkert við þetta að athuga, og ég lít ekki á þetta sem fótakefli málinu. En almennt hefi ég á móti slíkum ákvörðunum, því að hér kemur fram vantraust á þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli. Í sýslun. Skagafjarðarsýslu sem öðrum er þessum mönnum falið að dæma um mörg mál, sem ekki koma þeim sjálfum við, en geta skipt aðra menn miklu. Ég veit ekki til, að það tíðkist í neinni sýslun., að þegar greiða á atkv. um eitt eða annað, þá séu allir reknir út, sem málið kemur ekki beinlínis við. Við getum í þessu efni litið til Alþingis. Vill hv. 2. þm. N.-M. sættast á, að honum beri að víkja af fundi, ef um mál er að ræða, sem ekkert snertir hans kjördæmi eða hans buddu, af því hann sé þá ekki bær að dæma um það? Mér finnst slíkar till. sem þessar með öllu ósæmilegar. En mér er e. t. v. sárara um þetta en öðrum, því að ég þekki þá menn, sem hér eiga hlut að máli, en þeir eru allir mestu heiðursmenn. Ég kynni því bezt, að hv. flm. tæki till. aftur. (BÁ: Hvaða menn eru þetta?). Bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. En þetta eru sæmdarmenn allt saman. Læt ég svo útrætt um þetta atriði.

Þá hefir verið vikið nokkuð að brtt. hæstv. fjmrh., og hefir hv. þm. V.-Húnv. komið með skrifl. brtt. við hana, til þess, eins og hann segir, að hún nái betur tilgangi þeim, sem fyrir hæstv. fjmrh. vakti, sem sé þeim, að þetta kæmi fleiri aðiljum til góða en bæjarfélögum þessum. En í þessu sambandi verð ég að taka undir það, sem hv. flm. og frsm. meiri hl. sagði, að hér er um allt annað að ræða en í frv. sjálfu. Frv. leggur það á vald hlutaðeigandi manna, hvort þeir vilja taka á sig þessar kvaðir. Og það hlýtur að vera mikið atriði, hvort þeir vilja taka þær á sig eða ekki. En þegar gera á þetta eftir úrskurði ráðh. eða bæjarstj. og sýslun., er það allt annað mál og ekki sambærilegt við það, sem farið er fram á í frv.

Ég álít ekki, að á þessu þingi sé hægt að finna leið til heildarskipunar þessum málum. Þetta mál verður áður að athuga vel milli þinga í þeirri n., sem um það á að fjalla. Eftir því er ekki hægt að bíða. En ef önnur sveitarfélög þurfa á svipaðri hjálp að halda, þá verða væntanlega lögð fram frv. um það, miðuð við þeirra staðhætti.

Vænti ég þess svo, að þeir hv. þm., sem studdu þetta mál við 2. umr., slái ekki af því hendinni héðan af.