10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3738)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Sem kunnugt er, hafa orðið allmiklar deilur um þetta mál í hv. Nd., ekki aðeins um efni þessa einstaka frv., sem hér liggur fyrir. heldur einnig um samskonar mál og þetta fyrir aðra kaupstaði. Borin var fram brtt. um að heimila kaupstöðum og kauptúnum almennt að leggja á vörugjald, en hún var felld. Í stað þess hefir verið samþ. þáltill. í Sþ., þar sem skorað er á ríkisstj. að rannsaka möguleikana fyrir því, að bæjar- og sveitarfélög geti fengið nýja tekjustofna til öflunar nauðsynlegra tekna, og að undirbúa löggjöf um það mál og leggja fyrir næsta þing. Þetta mál er svo aðkallandi, að telja má víst, að stj. geri sitt til að undirbúa slíka löggjöf. Af þessum ástæðum álítur meiri hl. fjhn. óeðlilegt að ákveða þessa tekjustofnu fyrir einstakt sveitarfélag, þegar svo skammt er þess að bíða, er vænta má, að þetta mál verði tekið fyrir í heild sinni. Það getur vitanlega orðið svo, að mismunandi löggjöf þurfi að setja um þetta mál að einhverju leyti fyrir hin einstöku bæjar- og sveitarfélög, eftir mismunandi ástæðum á hverjum stað. En um þetta ætti þó að setja heildarlöggjöf, sem í aðalatriðum væri byggð á sama grundvelli fyrir öll sveitar- og bæjarfélög yfirleitt. Það er því till. meiri hl. fjhn., að þessu máli, sem hér liggur fyrir, verði vísað til hæstv. ríkisstj., með hliðsjón af því, sem ég hefi nú greint, að farið hefir fram í þessu máli.

Rétt er að geta þess, að meðnm. minn einn, hv. 1. þm. Eyf., hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, sem hann mun sennilega gera grein fyrir.