10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3739)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég hefi ekki getað fallizt á rök hv. meiri hl. fjhn. fyrir því, að fella þetta frv. Eins og hv. þdm. sjá, er hér um löggjöf að ræða, sem aðeins á að gilda fyrir eitt ár. Þessu var þannig breytt í hv. Nd., að ákvæði frv., ef að l. yrði, giltu aðeins fyrir árið 1936. Þessi breyt. hv. Nd. á frv. er alveg eðlileg afleiðing af því, að hæstv. ríkisstj. hefir verið falið að undirbúa þá löggjöf fyrir næsta þing, um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, sem hv. 4. landsk. gat um, en ekki tilraun til að svæfa nú málið á þessum grundvelli. Og að frv. þetta er borið fram nú, það er af þeirri ástæðu, sem öllum hv. þdm. er kunn, að svo er ástatt nú í þessu hreppsfélagi, sem hér er um að ræða, að vegna þeirra atburða, sem urðu þar á síðasta sumri, er það alveg bráðnauðsynlegt að gera eitthvað, bara til bráðabirgða, fyrir þetta hreppsfélag. Og ég býst við, að varla verði fundin öllu eðlilegri aðferð til þess að hlaupa undir bagga með því heldur en einmitt sú, sem stungið er upp á í þessu frv., hvernig svo sem hæstv. ríkisstj. greiðir úr þessum málum til frambúðar. Í þessari hv. d. er einn hv. þm., sem þessu máli er mjög kunnugur, nefnilega hinni brýnu nauðsyn þessa hreppsfélags á tekjum, hv. I. þm. Skagf., sem mun geta gefið sínar upplýsingar, ef á þarf að halda. Annars býst ég við, að flestum hv. þdm. muni vera um það kunnugt í höfuðatriðum, að þetta hreppsfélag, sem var mjög erfiðlega statt áður vegna mikilla sveitarþyngsla, það varð nú í sumar fyrir því feiknaáfalli, að atvinnutekjur manna brugðust svo hörmulega í sambandi við síldarútveginn. Ég varð þess greinilega var, þegar ég var þar nyrðra í sumar, að menn litu vonaraugum til þess tíma, er síldin færi að koma á plássið, og mér virtist þetta vera hér um bil sú einasta atvinnuvon fólksins þarna, síldveiðin. Svo er mér sagt, að þar hafi verið söltuð síld í aðeins 44 eða 45 tunnur, eða sama sem ekkert. Má af þessu ráða, hvernig afkoman er hjá þessu hreppsfélagi. Ég er því alveg sannfærður um, að eitthvað verður að gera til þess að bjarga kauptúninu. Hvort það verður gert með því móti, sem frv. gerir ráð fyrir, eða á annan hátt, er ekkert aðalatriði. Annars býst ég ekki við, að Alþingi geti gert annað, eins og nú standa sakir, en að leyfa þetta vörugjald.

Í 1. gr. frv. er það sett sem skilyrði fyrir þessu gjaldi, að meiri hl. hreppsbúa í Sauðárkrókshreppi samþ. það, og ennfremur, að meiri hl. sýslunefndar Skagafjarðarsýslu samþ. það líka. Gangi sýslunefndin inn á að leyfa álagningu þessa gjalds, þá virðist mér, að það bendi ótvírætt til þess, að hér sé um mikla þörf að ræða, því að öðrum kosti myndi hún ekki leyfa það. Ég vildi því leyfa mér að mæla með því við hv. d., að frv. verði samþ. eins og það er, tímabundið til eins árs. En með því að vísa því til stj. næst ekki annað en að eyðileggja þessa tilraun til hjálpar Sauðárkróksbúum. Vil ég því leggja það til, að till. hv. meiri hl. verði felld, en frv. samþ.