10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3743)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi skrifað undir nál. meiri hl. fjhn. með fyrirvara. Í raun og veru þykist ég hafa gert grein fyrir þessum fyrirvara mínum undir umr. um annað mál, frv. um aukaútsvör ríkisstofnana, og er því ekki bein ástæða til þess að gera það frekar.

Ég lít svo á, að það eigi illa við að afgr. á sama þinginu samskonar mál, sem sömu rök liggja til, með mismunandi móti. Slíkt getur varla talizt samboðið heiðri þingsins. En eins og ég mun hafa bent á í gær, þá var samskonar mál og þetta fellt í hv. Nd., enda þótt það undarlega skeði, að þetta frv. væri samþ. þar. Að ég því hefi skrifað undir með fyrirvara, er frekar samræmisins vegna heldur en hitt, að ég geti ekki hugsað mér þessa leið, sem frv. gerir ráð fyrir, til tekjuöflunar. Er ég í því efni á ólíkri skoðun og hv. meðnm. minn í meiri hl. En hitt er það, að ég tel ekki rétt, að um þetta ráði eintómt handahóf, að eitt kauptúnið fái þessa heimild til tekjuöflunar, en annað ekki. Heldur tel ég, að setja þurfi sem fyrst, og helzt á mesta þingi, heildarlöggjöf um þessi efni, sem tryggi landsmönnum jafnrétti um þetta.

Það hefir verið bent á af hv. frsm. minni hl., að lítil atvinna hafi verið á Sauðárkróki síðastl. sumar, og tekjur því brugðizt að stórum mun, aðallega sökum þess, að síldveiði brást svo mjög fyrir Norðurlandi síðastl. sumar. Mér er nú alls ekki kunnugt um, að síldarútvegur hafi verið neinn aðalatvinnuvegur á Sauðárkróki. Aftur er mér kunnugt um, að um tugi ára hefir síldarútvegur verið aðalatvinnuvegur á Siglufirði, en samt felldi hv. Nd. að veita Siglufirði sama rétt og hér er farið fram á til handa Sauðárkróki. Ég verð því að segja, að ég kann ekki við slíka afgreiðslu mála hér á Alþingi.

Ég heyrði aðeins ávæning af ræðu hv. 1. þm. Skagf., en mér heyrðist hann segja, að það gæti ekki verið annað en meinfýsi hjá mér, ef ég vildi ekki samþ. þetta frv., sem beinlínis stafaði af því, að frv. mitt var fellt í Nd. En þetta er mesti misskilningur. Ég get vel unnað Sauðárkrókshreppi að fá þetta gjald, en ég tel, að sómi þingsins liggi við, að þessi mál séu afgr. í samræmi, og að því sé, úr því sem komið er, bezt að láta þetta mál bíða nú, en setja heldur á næsta þingi heildarlöggjöf um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, eins og þingið líka ætlast til, samkv. þeirri þingsál., sem um það hefir verið samþ. (MG: Það er þegar búið að samþ. samskonar frv. Sómi þingsins er því farinn). Það er rétt, að það er búið að samþ. samskonar frv. fyrir Vestmannaeyjar, en það var gert áður en Nd. felldi frv. um álagning vörutolls á Siglufirði, og áður en þáltill. um almenna endurskoðun þessara mála var samþ.

Það má vel vera, að frv. þetta hafi komizt í gegnum Nd. vegna þess, að flm. þess voru tveir, sinn úr hvorum flokki, en að frv. vegna Siglufjarðar hafi verið fellt sakir þess, að flm. þess var aðeins einn.

Hvað það snertir, sem hv. frsm. minni hl. hélt fram, að þar sem aðeins væri farið fram á þessa heimild til handa Sauðárkróki fyrir eitt ár, þá væri sanngjarnt að veita hana, vil ég taka það fram, að það var líka farið fram á heimildina handa Siglufirði til eins árs, en gekk ekki samt. Annars virðist mér, að það geti ekki ráðið úrslitum fyrir Sauðárkrókshrepp, hvort hann fær aukna tekjustofna nú eða nokkrum vikum seinna, því nú virðist almennur áhugi vera orðinn fyrir því, að sett verði lög um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, og hefir verið samþ. þingsál. um að skora á stj. að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni og leggja fyrir næsta þing. Virðist mér það langeðlilegasta lausn þessa máls, úr því sem komið er, og aðeins til glundroða að fara nú að setja lög um tekjustofn fyrir eitt hreppsfélag.