10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (3744)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi sjaldan heyrt eins aumingjalega vörn eins og hjá hv. 1. þm. Eyf. Aðalkjarninn í hans ræðu var, ef flett er utan af umbúðunum, að úr því að fellt var frv. sama efnis viðvíkjandi Siglufirði, væri bezt að fella þetta líka, þó að hann viðurkenndi þörfina í báðum stöðunum fyrir því, að málið næði fram að ganga. Hv. þm. var að tala um sóma þingsins og benti á í því sambandi, að hv. Nd. hefði afgr. mál, sem hann telur, að hafi verið samkynja, sitt á hvað, þ. e. annað fellt en hitt samþ. Ég hélt, að við gætum lítið gert að því, hvað samþ. er eða fellt í hv. Nd. En ég vil benda honum á, að hið eina samkynja mál, sem komst hingað í þessa d., þ. e. um vörugjald í Vestmannaeyjum, var samþ. hér. (BSt: Þá var ekki búið að fella hitt). Nei, en við hér í Ed. ráðum ekki gerðum Nd. Svo talar hv. þm. um að halda uppi sóma þingsins hér í þessari hv. d. með því að samþ. annað frv. og drepa hitt.

Annars er hv. þm. kominn í þá kattarpínu út af þessari afstöðu sinni, að hann veit ekkert, hvað hann á að gera. Hann er að fimbulfamba um sóma þingsins og segir, að hv. Nd. hafi gert sér til skammar, en vill þó, að við förum eins að. Ég held, að það væri þá eins gott fyrir hv. þm. að halda sér og sinni d. hreinni af slíku. (BSt: Það er ekki hægt). Jú, það er hægt, því að það mál hliðstætt þessu, sem var hér í hv. d., var afgr. sem lög, og ef hv. þm. vill samþ. þetta frv., er hann sjálfum sér samkvæmur, en annars snýst hann í kringum sjálfan sig á sama hátt og hann segir, að hv. Nd. hafi gert.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er ekki beðið um neina utanaðkomandi hjálp; héraðið ætlar sjálft að bjarga kauptúninu út úr þessu öngþveiti, og þá er aðeins um það að ræða, hvort þingið vill meina þessa sjálfshjálp eða ekki. Ef hv. 1. þm. Eyf. vill fara út í það, þá get ég bent honum á, að það er allt önnur aðstaða á Siglufirði heldur en á Sauðárkróki. Sauðárkrókur verzlar ekki við önnur héruð, en Siglufjörður verzlar við fleiri héruð og tekur því til fleiri landsmanna. (BSt: Þetta er öfugt). Ég sé, að hv. 1. þm. Eyf. lítur að öllu leyti öfugt á þetta mál. og ætla ég ekki frekar að reyna að rétta hans sjónarmið á því. En ef hv. þm. er hugarhægð að því, þá get ég sagt honum það, að mér hefði ekki dottið í hug annað en að greiða atkv. með þessu Siglufjarðarmáli, ef það hefði komizt hingað, og ég mundi vera svo mikill maður, þó að það væri nú að koma, eftir að búið væri að drepa þetta frv., mundi ég ekki láta það hafa áhrif á mína sannfæringu. (JBald: Hv. þm. veit, að það er ekki hægt að bera það fram aftur á þessu þingi). Það getur komið fram á næsta þingi. Það er ekki víst, að liði nema fáar vikur þangað til það kemur saman.

Það er alveg rétt, að það er handahófsafgreiðsla hjá þinginu á þessum málum, þegar sum frv. um sama efni eru samþ., en önnur felld. En það er ómögulegt að ráða bót á þessu. Þetta handahóf er þegar komið á. Það er þegar búið að samþ. eitt slíkt frv. og drepa annað. Þess vegna er ekki hægt að láta eitt og hið sama ganga yfir þessi mál.

Svo eru það ein aðalrök andstæðinga þessa máls, að Sauðárkrókur geti beðið eins og önnur hreppsfélög. Um það þýðir ekki að karpa meira. En þetta hreppsfélag getur ekki beðið, og þó að það sé rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að síldveiðin væri ekki enn sem komið er aðalatvinnuvegur á Sauðárkróki, þá var það þó svo, að í sumar var búið að gera samninga um svo mikla síldarsöltun, að nægt hefði til þess að halda uppi atvinnulífinu, hefði sú söltun orðið. - Skal ég svo ekki tefja umr. meira.