22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3755)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Út af ummælum hv. þm. Borgf. um að ríkisstj. hafi ekki falið fulltrúum stærstu stjórnmálafl. samningu þessa frv., skal ég játa, að það er rétt. Það var falið einum manni, Vilmundi Jónssyni landlækni. Ég skal taka það fram, að ég taldi, að ekki væri um svo flókið mál að ræða, að ástæða væri til, að fleiri menn ynnu að samningu þessa frv.

Að því er snertir það atriði, sem aðallega hefir verið gert að umtalsefni hér, hlutfallskosningarnar, þá er það rétt, að í þáltill. mun hafa verið gert ráð fyrir, að heimilað væri að hafa það frjálslegra. Mín skoðun á þessu atriði kemur fram í frv. Ég sé enga minnstu ástæðu til þess að hafa aðra reglu um þetta í sveitum en í kaupstöðum. Að fámennið sé svo mikið víða, að ekki sé unnt að skipa tvo lista nægilega mörgum mönnum, held ég að ekki komi til mála. Ég sé enga ástæðu til andmæla, sem hægt er að reisa á þeim grundvelli, og hinni ástæðunni, að kosningin verði frekar pólitísk, séu hlutfallskosningar viðhafðar, legg ég ekki mikið upp úr.

Ég er mjög andvígur því, að kosningar í opinberum málum fari fram í heyranda hljóði, en ég segi það ekki til hv. þm. Snæf., því að hann tók það fram, að n. hefði gert ráð fyrir, að kosningarnar væru leynilegar, en ég vil skjóta því til hv. þm. Borgf., því að hann tók svo til orða, að það mætti „annaðhvort láta kosningu fara fram í heyranda hljóði eða leynilega“, eins og hann orðaði það.

Ég get ekki séð, að neitt hræðilegt sé við það, að hreppsnefndarkosningar séu pólitískar, og í flestum tilfellum munu þær vera það. En sé svo ástatt, að enginn ágreiningur sé um hreppsmál, er vel hugsanlegt, að menn komi sér saman um einn lista og kosning þar með óþörf.

Hv. þm. Borgf. tók það réttilega fram, að megintilgangurinn með því að samræma sveitarstjórnarkosningalögin lögum um kosningar til Alþingis er sá, að færa kosningafyrirkomulagið til lýðræðisáttar. En hann vildi halda því fram, að í einu ákvæði væri gengið í bága við þessa stefnu, sem sé því, að í stað þess, að sýslunefndarmenn séu kosnir beinum kosningum, er nú gert ráð fyrir, að þeir séu kosnir af hreppsnefndum. Ég er ekki sammála hv. þm. um þetta. Ég álít fjarstæðu að telja kosningar vera meir í samræmi við lýðræðisreglur, þótt þær fari fram á almennum hreppsfundi, þar sem er meiri eða minni fundarsókn og tilviljun ræður, hve margir hreppsbúar mæta, og engin trygging er fyrir því, að kosningin fari í samræmi við vilja meiri hl. kjósenda. Er ólíkt meiri trygging fyrir því, að með því kosningafyrirkomulagi, sem í þessu frv. er lagt til, verði hreppsnefndir, og þá sýslunefndarmenn, kosnar í samræmi við meirihlutavilja hreppsbúa.

Ég skal annars ekki fara fleiri orðum um þetta nú. Málið fer væntanlega til n., og koma þá fram brtt., eftir því sem athugun málsins þar gefur tilefni til.