22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3757)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Jón Pálmason:

Ég vildi nú þegar, áður en þetta mál fer til n., taka fram nokkur atriði til viðbótar því, sem sagt hefir verið. Er það þá í fyrsta lagi, að ég tel það til spillis, en ekki endurbóta, að hafa kosningatímabilið 4 en ekki 6 ár í hreppsnefndum, og jafnframt að láta kjósa alla nefndarmenn í einu. Liggja til þess tvær orsakir, að ég tel þetta til spillis. Í fyrsta lagi getur það, að kjósa á alla nefndarmenn í einu, leitt til þess, að tómir nýir menn taki við, í stað þess að áður gekk aðeins helmingur hreppsnefndarmanna úr á 3 ára fresti, og þar með tryggt, að alltaf sé eitthvað af vönum mönnum í nefndinni. Er þetta þó sérstaklega athugavert vegna þess, að samkv. þessum l. er enginn skyldugur að vera í hreppsn. lengur en eitt kjörtímabil, fyrr en hann hefir verið laus sama tíma. Þessi störf eru almennt orðin mjög óvinsæl, bæði vegna hins erfiða fjárhagsástands og svo hins, að fyrir þetta er ekkert greitt, og orðin hálfgerð plága á hæfileikamestu mönnum hverrar sveitar að vera í hreppsnefnd og fjölmörgum öðrum opinberum störfum, sem taka tíma, en ekkert er greitt fyrir. Þetta verkar því þannig, að telja má víst, að algerð skipti verði í hreppsnefnd á 4 ára fresti.

Ég vil ennfremur taka undir það, sem hér hefir verið sagt áður, að mér finnst varhugavert að knýja með lögum öll hreppsfélög til pólitískra hreppsnefndakosninga, í stað þess að gefa beztu kröftunum tækifæri til að njóta sín án tillits til pólitískra skoðana.

Þá finnst mér eðlilegt að láta almenning, en ekki hreppsnefndir, kjósa sýslunefndarmenn og skólanefndir o. s. frv.

Að öðru leyti skal ég ekki fara nánar út í þetta mál en þeir tveir flokksbræður mínir, sem þegar hafa talað. En ég vil vona, að n., sem fær mál þetta til meðferðar, athugi vel öll atriði í sambandi við það, og sérstaklega hvað snertir kosningatímabilið, og hvort ekki er heppilegra að halda því fyrirkomulagi, sem nú er. Hinar hliðar málsins hafa frekar verið ræddar, og er ég sammála þeim aths., sem um þær hafa komið fram.