18.03.1935
Neðri deild: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (3759)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson) [óyfirl.]:

Við 1. umr. þessa máls var þess getið, að þetta frv. er fram komið í samræmi við þál., sem afgr. var frá aukaþinginu 1933, þar sem hæstv. ríkisstj. var falið að undirbúa breyt. á löggjöfinni um sveitarstjórnarkosningar. Þær breyt. áttu að ganga í þá átt að samræma löggjöfina um þetta efni lögum um kosningar til Alþingis.

Allshn. hefir haft frv. þetta með höndum undanfarið, og hefir verið farið nokkuð rækilega í gegnum það í n. Það hefir komið fram innan n. ágreiningur um einstök atriði frv. Aðallega er sá ágreiningur um það, hvort viðhafa eigi hlutfallskosningar í hreppum, og einnig um það. hvort hreppsnefnd eða bæjarstjórn á hverjum stað eigi að kjósa sýslunefndarmenn og í skólanefndir og sáttanefndir, eins og lagt er til í 30. gr. frv., að gert verði. Allshn. hefir orðið ásátt um að láta umr. um ágreiningsatriði þessi bíða til 3. umr. En n. hefir komið sér saman um að gera nokkrar smábreyt. á frv., og að þeim samþ. vísa málinu til 3. umr. En við 3. umr. mun allshn. koma með brtt. um atriði þau, sem ágreiningur var um í n. Brtt. allshn. vil ég fara nokkrum orðum um, en ekki fara út í að ræða frv. í heild, allra sízt þau atriði, sem ágreiningur var um innan n.

N. leggur til, að gerð verði sú breyt. á 1. gr. frv., að í staðinn fyrir, að frv. gerir ráð fyrir, að bæjarstjórnir skuli skipaðar 6-15 fulltrúum, verði bæjarstj. í kaupstöðum utan Reykjavíkur skipaðar 7-15 bæjarfulltrúum, en í Reykjavík 15-21 bæjarfulltrúum. N. virðist eðlilegt, við nokkuð sérstök ákvæði gildi um Reykjavík í þessu efni, þar sem Reykjavík er mörgum sinnum stærri en allir aðrir kaupstaðir landsins, og eðlilegt, að bæjarstjórn þar sé fjölskipaðri en í öðrum kaupstöðum. Að undanförnu, og í samræmi við gildandi l., hefir bæjarstjórn Rvíkur verið skipuð 15 mönnum. En það hefir komið í ljós, eftir að bæjarráðsskipulagið var upp tekið, að 10 af þessum 13 fulltrúum hafa verið annaðhvort aðalmenn eða varamenn í bæjarráði. Þá eru aðeins 5 bæjarfulltrúar eftir, sem eiga að taka að sér nefndastörf, svo sem byggingarstjórn og hafnarstjórn. Það sýnist þess vegna eðlilegra, að heimild væri til þess að hafa bæjarfulltrúana í Rvík nokkuð fleiri en bæjarfulltrúana í öðrum kaupstöðum landsins, og fleiri en að undanförnu.

Við 3. gr. frv. gerum við þá brtt., að orðið „jafnmarga“ falli niður. Við vildum sem sé hafa í l. opna leið til þess, að varamenn bæjarfulltrúa og hreppsnefndarmanna gætu verið fleiri en aðalmennirnir, því að ef litlir flokkar eiga í hlut, sem eiga t. d. einn fulltrúa annaðhvort í hreppsnefnd eða bæjarstjórn, þá gæti svo farið á 4 ára kjörtímabili, að annaðhvort féllu þá fulltrúi og varafulltrúi hans frá eða flyttu í burtu, þannig að þá yrði autt sæti þess flokks. Þá yrði annaðhvort autt sæti flokksins það sem eftir er af kjörtímabilinu eða þá að nýr fulltrúi yrði kosinn úr öðrum flokki, og við það röskuðust hlutföllin í bæjarstj. eða hreppsn. með tilliti til flokkaskiptingar kjósenda. Flokkur, sem sterkari væri. fengi þá kosinn fulltrúa í stað þess, sem úr gekk.

Þá höfum við lagt til, að orðin „sjálfum sér ráðandi“ í 8. gr. falli burt, þar sem rætt er um, hvaða menn skuli vera skyldir til að taka við kjöri í bæjarstjórn eða hreppsnefnd. Þetta orðalag mun eiga rót sína að rekja til þess tíma, þegar vinnuhjú voru á bæjum til sveita. En nú er mjög lítið orðið um, að slíkt eigi sér stað. Við töldum því óþarft að gera greinarmun á fólki sjálfu sér ráðandi og öðru, í þessu tilliti, því að með þessu orðalagi hefir ekki verið átt við, að fólk sé sjálfu sér ráðandi eftir lögráðaákvæðum laga.

Þá leggjum við til, að 9. gr. orðist upp. Með því verða ákvæði hennar skýrt sett þannig, að ekki skuli skylt að skipta hreppum í kjördeildir á sama hátt og við alþingiskosningar, heldur skuli sú leið opin um kosningar í hreppsnefndir, óháð þeirri skiptingu, sem kann að hafa átt sér stað vegna alþingiskosninga í þeim eða þeim hreppi.

Við leggjum einnig til, að breyt. verði á niðurlagi 11. gr., til þess að fyrirbyggja misskilning.

Þá leggjum við til, að breytt verði 23. gr., þannig að bætt sé inn í orðunum „eða á skrifstofu eða heimili hreppstjóra“, þar sem ákveðið er um, hvar kjósendur megi kjósa utan kjörfundar, til samræmis við hliðstæð ákvæði um kosningar til Alþingis. Væntum við þess, að þessi brtt. okkar verði samþ., því að hún miðar til þess, sem á að vera aðaltilgangur frv., sem er að færa löggjöfina um sveitarstjórnarkosningar til samræmis við l. um kosningar til Alþingis.

Þá leggjum við til, að fellt sé niður úr 33. gr. bæði hluti úr 1. mgr. og öll 3. mgr. En í 1. mgr. frv. er gert ráð fyrir, að hægt sé að víkja manni úr bæjarstjórn eða hreppsnefnd, og það atriði er endurtekið í 3. mgr. Okkur í allshn. fannst óeðlilegt, að meiri hl. bæjarstjórnar eða hreppsnefndar væri heimilað að svipta einhvern innan sinna vébanda réttindum til þess að eiga sæti í samkomunni. Hugsanlegt væri, að meiri hl. innan einhverrar bæjarstjórnar eða hreppsnefndar væri svo óvandaður, að hann svipti óvæginn andstæðing sinn þessum rétti, án þess að til þess lægju nokkur eðlileg rök. Þeir einu aðilar, sem okkur fannst, að ættu að hafa rétt til að svipta bæjarfulltrúa eða hreppsnefndarmann þessum rétti, eru dómstólar. Ég ætla, að þessi breyt. sé til bóta á frv., eins og allar breyt. okkar yfirleitt, og að þeim verði vel tekið af hv. d.

Þá hefi ég rakið þessar brtt., sem allshn. hefir lagt til, að gerðar verði á frv. Brtt. eru allar fremur smávægilegar, enda er n. sammála um, að aðalefni frv. sé til bóta, enda var enginn ágreiningur um það á aukaþinginu 1933, að æskilegt væri, að samræmd yrðu ákvæði l. um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða við ákvæði l. um kosningar til Alþingis. Það er í alla staði sanngjarnt, að um þessar tvennskonar kosningar gildi sem svipaðastar reglur, því að raunverulega eru þær mjög svipaðs eðlis, val á fulltrúum þjóðarinnar til að þjóna lýðræðinu og réttlætinu í landinu.

Ég vona, að allir séu sammála um það, að með hinum nýju l. um kosningar til Alþ. sé bót ráðin á því kosningafyrirkomulagi frá því, sem áður var, en að þá hafi orðið aftur úr ákvæðin um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Þetta frv. á að bæta úr þessu. En deila stendur aðallega um þrjú atriði frv. innan allshn., sem eru principatriði. En ég fer ekki út í að ræða þau við þessa umr., og er það í samræmi við það, að samkomulag var um það innan n. að láta þann ágreining bíða til 3. umr. Vildi ég vænta þess, að hv. d. taki brtt. þessum vel og afgr. frv. til 3. umr. með þeim breyt., sem ég hefi lýst með nokkrum orðum.