22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (3780)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það var út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði síðast, að ég kvaddi mér hljóðs, þar sem hann sagði, að samkomulag væri á milli stuðningsmanna stj. hér á Alþ. um að gera þetta frv. að l. Ég vil ekki halda því fram, að hv. þm. hafi farið þar með ósannindi, en ég held, að þetta sé misskilningur. Ég hefi sem sé ekki trú á því, að þeir, sem kosnir hafa verið hér á þing nú fyrir sveitirnar, gangi svo herfilega í berhögg við vilja sveitanna, að þeir geri samning um það við sósíalista að samþ. þetta frv., því að manni getur skilizt, að þetta frv. eigi að vera byrjunarspor á þeirri braut, að allar jarðir verði ríkiseign, svo að sjálfseignarbúskapur hverfi úr sögunni, en leiguliðabúskapur komi í staðinn.

Ég vildi gjarnan fá að heyra það frá fleirum en hv. 2. þm. Reykv., hvort það sé rétt í rann og veru, að samkomulag sé um það á milli stjórnarflokkanna, að gera frv. þetta að l.

Ég þarf ekki að fara út í þau atriði, sem þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ak. hafa sérstaklega minnzt á, sem sé að andmæla þeirri firru, að l. þau, sem hér er farið fram á, að afnumin verði, hafi ekki náð þeim tilgangi, sem þeim var ætlað, að neinu verulegu leyti. Í því sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á eitt dæmi því til stuðnings, að sjálfseignarbúskaparfyrirkomulagið er lyftistöng landbúnaðarins yfir höfuð, og þá líka til réttlætingar þeim kröfum, sem ég hygg, að enginn hv. þm. hafi komizt hjá að heyra. kröfum fólksins í sveitunum um það, að stefnt sé að því, að hver bóndi eigi ábýlisjörð sína. Þetta dæmi er úr Norður-Ísafjarðarsýslu og er eitt af mörgum um þetta efni.

Bóndi keypti kirkjujörð til eigin ábúðar fyrir 5 árum. Þessi jörð þótti lítilfjörleg, og hafði verið flest búfé á henni um 80 fjár og 4 gripir. Furðaði menn dálítið á þessum kaupum, þar sem bóndi þessi átti stórt bú. Nú, eftir þessi 5 ár, hefir þessi bóndi á jörðinni yfir 300 fjár og 14 gripi og þarf ekki að sækja heyskap út fyrir landamerki jarðarinnar. Hann hefir húsað jörðina vel, bæði um íbúðarhús og peningshús. Ég hygg nú, að ekki sé vafi á því, að ef þessi jörð hefði verið áfram kirkjujörð, en ekki komizt í sjálfsábúð, þá hefði hún verið sama niðurnídda kotið sem hún var fyrir 5 árum.

Ég nefni þetta dæmi ekki af því, að það sé einstakt, heldur mun það vera eitt af mörgum svipuðum, því að ég held, að rekja megi á slóðum sjálfsábúðarinnar raðir af slíkum dæmum um allt Ísland. Þær jarðir yfirleitt á landinu, sem eru í sjálfsábúð. munu vera miklu betur setnar en hinar, sem eru í leiguábúð. Vera má, að það stafi að einhverju leyti af því, að til sjálfseignarbúskapar veljist yfirleitt atorkumenn. Bændur eru, sem eðlilegt er, miklu áhugasamari um að rækta og endurbæta ábýlisjarðir sínar, ef þeir eiga þær sjálfir, hvort sem þeir hafa miklu eða litlu úr að spila. Það eykur orku og bjartsýni bóndans að hafa það á tilfinningunni, að hann sitji á sinni eignarjörð.

Sú yfirlýsing, sem hv. 2. þm. Reykv. gaf, kom mér ekki á óvart, að hann væri ekkert á móti því, þó að fram kæmi frv. þess efnis, að stefnt væri að því, að allar jarðir hér á landi yrðu ríkiseign. Ég var ekki í vafa um, að svo væri, þegar ég sá, að þessi hv. þm. var orðinn stangarhestur fyrir þessum ríkiseignarvagni, að það mundi eiga að draga hann víðar en þetta frv. beinlínis hermir. Ég þóttist vita, að hann væri þarna að tengja fyrir þennan vagn með sér nokkra dráttarhesta, sem ættu að hjálpa honum til þess að koma þessari hugsun í framkvæmd, að gera alla íslenzka bændur að leiguliðum, m. ö. o. að losa grundvöllinn undan þeirra búrekstri, svo að þeir verði líklegri til að aðhyllast kommúnismann, því að slík er stefna stjórnarflokkanna, þó að þeir að nafninu telji sig sósíalista og framsóknarmenn. - Þessi er nú tilætlunin með frv. þessu, á því er enginn vafi, og ég álít því, að frv. gangi algerlega í öfuga átt. En hinsvegar væri þörf á því, að hér á þingi kæmi fram till. um að gera ráðstafanir til þess, að allir bændur gætu orðið sjálfseignarbændur. Það þarf að gera bændum auðveldara en það nú er að eignast jarðir sínar, til þess að allir íslenzkir bændur verði sjálfseignarbændur. Og ég er viss um, að það gæti orðið stórgróði fyrir íslenzka ríkið, ef það gæfi dugandi ábúendum allar þær jarðir, sem það á nú sem þjóð- og kirkjujarðir. Tekjur ríkisins af þessum jörðum eru mjög lítilfjörlegar, ég ætla ekki nema um 40 þús. kr. Það er ekki vafi á því, að ef þessar jarðir yrðu allar óðalseign, þá mundi búskapur á þeim blómgast svo, að auknar tekjur fyrir sveitarfélög og ríkissjóð yrðu miklu meiri, beinlínis þess vegna, heldur en þær tekjur, sem ríkissjóður hefir af þeim nú.