22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3783)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að hér væri lítið frv. á ferðinni, sem færi ekki fram á annað en að stöðva sölu þjóð- og kirkjujarða, en gat þess þó, að ekki væri alveg laust við, að samband væri á milli þessa frv. og svo hins, sem vitanlega mun eiga að leiða af þessu, að ríkið fari að kaupa upp jarðirnar í landinu. Ef í stj. landsins og meiri hl. á Alþ. eru menn, sem vilja knýja þetta fram, þá hefir ríkisstj. eða ríkisvaldið vitanlega ákaflega sterk tök á að geta náð jörðunum frá bændum og undir ríkið, án þess beinlínis að ganga í berhögg við ákvæði stjskr. um friðhelgi eignarréttarins. Og það er enginn vafi á, að hv. 2. þm. Reykv. stefnir að þessu. Og hann hefir góðan liðsmann með sér, þar sem er hv. 2. þm. N.-M., sem hlýða mun fyrirskipunum formanns síns í öllum greinum.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um það, að oft hafi orðið mikil óánægja út af sölu á þjóðjörðum. En ég vil svara því þar til, að það eru hverfandi fá þau tilfelli, þegar sala þjóðjarða hefir valdið óánægju, í samanburði við þau tilfelli, þegar sú sala hefir orðið til ánægju fyrir þá menn, sem unna framförum í sveitabúskap á landi voru, við það, að þeir sjá, hve jarðirnar taka miklum stakkaskiptum við að komast úr leiguábúð og í sjálfseignarábúð. Hitt getur verið, að til séu þau dæmi, þar sem eigendaskipti hafa orðið mjög fljótlega á jörðum eftir að þær hafa verið seldar úr ríkiseign, og mikill verðmunur komið fram við þá sölu í stöku tilfellum án beinna aðgerða þeirra, sem keyptu jarðirnar. Í flestum slíkum tilfellum hefir verðhækkunin stafað af því, að lagt hefir verið í kostnað til að bæta húsakynni jarðanna og rækta þær. Víða þar, sem búið er að byggja upp á slíkum jörðum, er það svo, að hús hafa verið gerð þar svo dýr, að landverðið er orðið hverfandi lítið, samanborið við það, sem kostað hefir verið til umbótanna. Í þessu liggur að miklu leyti verðhækkun sú, sem orðið hefir á þessum jörðum, þó að hinsvegar megi auðvitað benda á einstök dæmi, þar sem þetta liggur ekki til grundvallar. Auk þessa hafa vitanlega ýmsar verðlagsbreytingar áhrif á verð jarða, því að vitanlega er það svo um jarðir eins og allt annað í landinu, að verðbreyt. verða miklar á þeim frá ári til árs, bæði vegna verðfalls peninga á pappírnum og af fleiri ástæðum. Krónan er nú ekki nema í hálfu gildi, miðað við það, sem áður var, og þessi mismunur á gildi krónunnar hefir verið rækilega notaður af þeim mönnum, sem ríða fantareið í þá átt að reyna að koma öllum jörðum í ríkiseign.

Hv. 2. þm. Reykv. drap lítillega á frv. um óðalsrétt og sagði, að það fyrirkomulag tilheyrði frekar miðöldunum en nútíðinni. En ég vil þá aftur á móti benda hv. þm. á það, að Norðmenn, sem frá ómunatíð hafa búið við það skipulag, þeir álíta óðalsréttinn svo mikils virði fyrir sinn landbúnað, að þeir hafa lagt mjög mikla rækt við að sníða löggjöf sína eftir breyttum tímum, þannig að þetta fyrirkomulag ætti alltaf stoð í veruleikanum, svo að það gæfi þrifizt sem bezt. Svo mikils virði telja þeir óðalsréttinn fyrir landbúnað Noregs. Og af því að hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að þetta frv. - og þá væntanlega líka á sínum tíma frv. um, að ríkið skuli kaupa upp allar jarðeignir á landinu - væri samningsatriði á milli sósíalista og framsóknarmanna, þá vil ég benda þessum hv. þm. á það, að einn fyrrv. þm., sem mikils er metinn í Framsfl., var t. d. álitinn þess verður að vera settur í skipulagsn. atvinnumála - Steingrímur Steinþórsson, skólastjóri á Hólum -, sem ég ætla að sitji nú við hlið hv. 2. þm. Reykv. á rauðu merinni - hann fór nokkrum orðum um þetta mál, óðalsréttinn, hér á þingi árið 1933, þegar til umr. var ábúðarlöggjöfin. (HV: Það kemur bráðum frv. frá Rauðku). Það er vel viðeigandi að bera saman við þetta frv. og þá stefnu, sem það markar, það, sem þessi hv. fyrrv. þm. sagði á þingi 1933. Hann segir, út frá hugleiðingum um þá ágalla, sem hann telur vera á sjálfsábúðarfyrirkomulaginu, að hann telji það tvennt, sem um sé að ræða til umbóta í því efni, annað að bæta kjör ábúenda á þeim jörðum, sem ríkið á og hefir með höndum, en hitt sé, að komið yrði hér á óðalsábúð með óðalsrétti. Um þetta farast honum orð á þessa leið: „Við þessari meinsemd er ekki nema um tvær leiðir að velja, að því er mér sýnist. Annað er það, að taka hér upp óðalsrétt og fyrirskipa, að t. d. elzti sonur hafi rétt til jarðarinnar og þurfi ekki að svara út arfahlutum úr jörðinni, og ekki hvíli aðrar kvaðir á eigninni en veðskuldir. Óðalsréttur hefir frá ómunatíð tíðkazt í Noregi. Er gaman að athuga það, að hin nýja stjórn í Þýzkalandi hefir einmitt horfið að þessu ráði, að taka upp óðalsréttinn, og samtímis fyrirskipa, að enginn megi búa nema á einni jörð. Segi ég þetta ekki til þess að hæla þessari nýju stjórn, sem mér virðist margt misjafnt um, en hitt er það, að hún virðist hafa hitt naglann á höfuðið um þetta atriði.“

Þetta, að taka upp óðalsrétt sem aðra lausn þessa vandamáls, segir framsóknarflokksmaðurinn Steingrímur Steinþórsson, sem þá var 2. þm. Skagf. og nú hefir verið settur til þess að skipuleggja ýms mál, sem framsóknarmenn og sósíalistar telja sig þurfa að skipa eftir sínu höfði.

Annars er þetta, að menn vilja yfirleitt eiga land það, er þeir búa á, sjálfir, sprottið af þeirri hvöt, sem gerir vart við sig hjá hverjum einstökum manni, að vilja vera sjálfum sér nógur. Það er yfirleitt það takmark, sem menn keppa að í lífinu, að eiga sjálfir þau gæði, sem þeir þurfa að nota til þess að byggja upp það þjóðfélag, sem þeir búa i. Vilji stjórnarvöldin fara að reyna að koma í veg fyrir það, að þegnunum auðnist að ná þessu takmarki, er beinlínis verið að hefta eðlilega framþróun þeirra, sem þó er öfugt við það, sem öll siðuð stjórnarvöld telja sér skylt.

Hjá hv. 2. þm. Reykv. og fleiri bæjarbúum kemur hvötin „að vilja vera sjálfum sér nógur“ m. a. fram í því, að þeir vilja eiga hús þau, sem þeir búa í, sjálfir. Þess vegna hefir hv. 2. þm. Reykv. t. d. byggt sér dýra og skrautlega „villu“ til þess að búa í, og finnst það víst ekki nema sjálfsagt. Það er þeim mun undarlegra, þegar þessir góðu menn ætla svo af göflunum að ganga, þegar talað er um, að eðlilegast sé, að sveitamennirnir eigi ábýli sín og íbúðarhús sjálfir. Annars þýðir ekki að vera að þrátta um þetta. Það hefir hvor sína skoðun í þessu sem mörgu öðru, en hitt er ekki undarlegt, þó að forsvarsmenn þessa frv. og fylgifiskar þeirra verði áhrifalitlir, þegar hægt er með rökum að benda á, að allt, sem þeir halda fram, stangast í þeirra daglega lífi eins og mannýg naut.

Hv. 2. þm. N.-M. vildi gera lítið úr dæmi því, sem hv. 6. þm. Reykv. tók, sagði, að það væri lítið á því að græða. Slík rökvísi var tæplega samboðin öðrum en honum, að það sé ekkert á því að græða fyrir íslenzkan landbúnað, þó að keypt sé niðurnídd jörð, byggt upp á henni og hún ræktuð, svo hún geti framfleytt stóru búi. Það er harla undarlegt, að búnaðarráðunauturinn skuli ekki koma auga á gagnsemi slíks fyrir íslenzkan landbúnað. Þegar skarpskyggni hans er þannig varið, er sízt að undra, þó að starfsemi hans verði og garnslítil fyrir íslenzka bændur og íslenzkan landbúnað yfirleitt. Hann vildi halda því fram, hv. þm., að peningarnir, sem notaðir hefðu verið til umbóta á jörðinni, hefðu verið teknir út úr Útvegsbankanum, og því væri ekki hægt að telja dæmi þetta til inntekta fyrir landbúnaðinn. En það er eins og annað út í loftið hjá þessum hv. þm. Er það kannske ekki sláandi dæmi, að peningar, sem teknir eru til ávöxtunar í íslenzkri mold, skuli bera slíkan ávöxt sem hér ber raun vitni um?