22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í C-deild Alþingistíðinda. (3784)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Um þetta mál, sem hér er til umr. nú, hefir oft verið deilt á Alþingi, því að um það hafa löngum verið skiptar skoðanir. Framsfl. hefir jafnan staðið nær óskiptur með því að selja ekki þjóðjarðir. Fleiri hafa og verið á þeirri skoðun, að ekki væri rétt, að ríkið seldi jarðir sínar, enda þótt sjálfstæðismenn haldi því fram nú, að það hafi verið og séu ennþá aðeins framsóknarmenn og sósíalistar, sem vilji ekki, að þjóðjarðirnar séu seldar. Ég þekki nfl. fjölda sjálfstæðismanna úti um land, sem eru fylgjandi afnámi þjóðjarðasölulaganna. Þannig veit ég t. d. um bændur norður í Skagafirði, sem eru eindregnir sjálfstæðismenn, en fylgja þó afnámi þessara laga. Hér er því ekki aðeins um að ræða mál framsóknarmanna og sósíalista, heldur og fjölda annara.

því hefir verið haldið fram undir þessum umr., að það væri fjandsamlegt gagnvart íslenzkri bændastétt að afnema með lögum rétt bænda til þess að fá keyptar ábýlisjarðir sínar, sem eru eign ríkissjóðs eða kirkjujarðasjóðs. Það er því ekki úr vegi að athuga lítilsháttar, hvernig ýmsir merkir menn litu á þessi mál, þegar þjóðjarðasölulögin voru sett. Hinir stórmerku menn Pétur Jónsson frá Gautlöndum, Jón Jónsson frá Múla og Hermann Jónasson skólastjóri frá Hólum sýndu allir með sterkum rökum fram á þá ágalla á þjóðjarðasölulögunum, sem síðar hafa komið fram og staðfestir hafa verið með reynslunni. Fyrst og fremst það, að óeðlileg verðhækkun myndi verða á þeim jörðum, sem seldar yrðu manna á milli. Þetta hefir fullkomlega rætzt, því að mörg dæmi þess mun mega finna, að jarðir, sem t. d. ríkissjóður hefir selt fyrir 2000 kr., hafa eftir stuttan tíma verið seldar fyrir 20 þús. kr. Í nágrenni við mig norður í Skagafirði vissi ég m. a. dæmi þess, að jörð, sem keypt var af ríkissjóði fyrir 4 þús. kr., var eftir 11/2 ár seld fyrir 30-40) þús., og þannig mætti lengi telja. Jafnframt benda þeir á, að af sölu jarðanna geti stafað afturför í ræktun þeirra, sem liggi í því, að þeir, sem jarðirnar kaupi, festi fé sitt í kaupverði þeirra og geti því ekki lagt eins mikið í ræktun. Jón frá Múla bendir á þá leið út úr þessu, að koma á rétti til erfðaábúðar inn í ábúðarlögin. Hann telur, að það myndi verða nægileg hvöt fyrir bændurna til þess að vinna að því að skila jörðunum betri í hendur afkomendanna en þær væru, er þeir tóku við þeim.

Ég held nú, að þeir, sem stöðugt eru að deila um þetta mál og halda því fram, að það sé fjandskapur gegn íslenzkri bændastétt að afnema þjóðjarðasölulögin, hefðu gott af því að lesa umr. í Alþt. frá þeim tíma, er lögin voru sett, og þá sérstaklega að kynna sér skoðun hinna merku bændafrömuða, sem ég nefndi.

Eins og ég tók fram, þá er fjöldi sjálfstæðisbænda úti um land, sem eru fylgjandi afnámi þjóðjarðasölulaganna. Þeir hafa eins og fleiri m. a. rekið sig á þann ágalla, sem allmjög hefir komið við menn, að þegar bóndi, sem býr í sjálfsábúð og gert hefir jörð sinni vel til góða, ræktað hana og húsað, vill hætta búskap, eða hann fellur frá og börnin eiga að taka við, þá hefir það sýnt sig, að eitt þeirra eða tvö rísa ekki undir því að kaupa eignina og standa hinum systkinum sínum skil á þeirra hlut. Þess vegna hefir raunin orðið sú, að þau, sem orðið hafa til þess að kaupa jörðina, hafa orðið að strita og strita til þess aðeins að geta haldið öllu gangandi, án þess að geta borgað eyri af kaupverði eignarinnar. Og það eru jafnvel dæmi þess, að þau hafa ekki risið undir vaxtabyrðunum einu sinni, og hlaðizt þá dýpra og dýpra í skuldir. Má því finna dæmi þess, að lánsstofnanirnar hafa að lokum orðið að taka jarðirnar, leigt þær svo til eins árs í senn, en eins og kunnugt er, þá er sjaldan mikill áhugi þeirra manna fyrir umbótum á jörðunum, sem slíka ábúð hafa. Hefir því reynslan orðið sú, að jarðirnar hafa stórkostlega gengið úr sér, og jafnvel fallið í niðurníðslu.

Með frv. þessu er því verið að vinna að hagsmunum bændastéttarinnar í heild, jafnt framsóknarmanna, sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna. Læt ég svo þessi fáu orð nægja um málið á þessu stigi.