22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3786)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að Framsfl. væri þessu frv. fylgjandi vegna nauðungarsamninga við jafnaðarmenn. Ég hygg, að þetta sé sagt á móti betri vitund. Hv. þm. veit, að þeirri stefnu, sem í frv. felst, hefir verið haldið fram í aðalmálgagni Framsfl. í mörg ár, og að flokkurinn hefir á engan hátt farið á bak við kjósendur í þeim efnum. Í mínu kjördæmi var þetta eitt af þeim málum, sem mest var um rætt fyrir síðustu kosningar, og ég var beinlínis kosinn upp á það að fylgja fram þeirri stefnu, sem í frv. felst. Um þetta mál var rætt á öllum fundunum, og eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefir þetta verið yfirlýst stefnuskráratriði Framsfl. í mörg ár.

Þegar verið er með stórum orðum að tala um nauðsyn þess, að flestar eða allar jarðir séu í sjálfsábúð, þá er varla minnzt á jarðeignir einstakra manna, sem þeir leigja öðrum til afnota. Í því sambandi vil ég benda á það, að þegar þjóðjarðasölulögin voru til meðferðar á Alþingi 1905, þá voru hér á landi 450 þjóðjarðir, 700 kirkjujarðir og 2600 jarðir, sem einstakir menn áttu og leigðu öðrum til ábúðar. Og kjör þau, sem leiguliðar á jörðum einstakra manna áttu við að búa, hafa aldrei verið sambærileg við þau kjör, sem ríkið hefir veitt leiguliðum á opinberum jarðeignum, heldur hafa þau jafnan verið til muna lakari. Andmælendur þjóðjarðasölulaganna bentu á þann meðalveg til úrlausnar, að jarðirnar yrðu blátt áfram leigðar einstaklingum með þeim kjörum, að þeir fengju með erfðaábúð að njóta þeirra kosta, sem fylgja sjálfseignarumráðum, án þess að festa kapítal í jörðunum. Ég er ekki að gera þeim upp þessar skoðanir. Rök þeirra gegn þjóðjarðasölunni koma greinilega fram í umr. á Alþingi 1905, og þau rök þeirra hefir reynslan staðfest svo áþreifanlega, að ekki verður um villzt.

Þá var á það minnzt, að enginn bóndi úr hópi sjálfstæðismanna væri fylgjandi þeirri stefnu að stöðva sölu þjóðjarða, nema þeir, sem hefðu hagað sér eins og glópar í búskapnum og væru komnir svo í þrot, að þeir vildu láta ríkissjóð kaupa af sér jarðirnar. Þessa staðhæfingu hv. 6. þm. Reykv. vil ég leiðrétta, því að þetta er alveg gripið úr lausu lofti. Ég benti á það í minni fyrri ræðu, að þessi skoðun ýmsra sjálfstæðismanna í sveitunum væri byggð á þeirra eigin reynslu og þekkingu á þessum efnum í byggðarlögum þeirra, alveg án tillits til eigin hagsmuna. Ég vil ekki nefna einstök nöfn þessu til sönnunar, en í einkasamtali gæti ég bent hv. 6. þm. Reykv. á marga sjálfstæðismenn í Skagafirði, og þá ekki úr hópi hinna lakari bænda, sem hafa verið og eru beinlínis mótfallnir þjóðjarðasölunni.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þau rök, sem hefðu verið flutt á móti þjóðjarðasölunni 1905, og máske talin frambærileg þá eða jafnvel góð, væru vitanlega einskis virði nú, eftir að reynslan væri búin að leiða í ljós sannleikann í þessu máli. En ég vil aðeins benda hv. þm. á það, að allar hrakspár þeirra þm., sem töluðu á móti þjóðjarðasölulögunum 1905 og bentu á galla þeirra, hafa margfaldlega rætzt, og meira en það. Afleiðingarnar af framkvæmd þeirra laga, sem þeir bentu á þá, hafa komið fram og margskonar ógæfa önnur.

Hv. þm. sagði, að því hefði verið haldið fram, að það myndi valda afturför um ræktun jarðanna, ef þær yrðu seldar einstaklingum, en reynslan hefði nú sannað hið gagnstæða. Þetta er ranghermi. Andstæðingar þjóðjarðasölunnar létu það aldrei í ljós, að sala þjóðjarðanna myndi leiða til þess, að ræktun og umbætur á jörðunum færu minnkandi frá því, sem áður var. En þeir bentu á annað. Þeir sögðu, að með róttækum umbótum á ábúðarlöggjöfinni og löggildingu erfðafestuábúðar á opinberum jarðeignum mætti gera meira að því að knýja ábúendur til ræktunar og umbóta á jörðunum. Og ég er ekki í neinum efa um, að útkoman hefði orðið sú. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá höfum við mikla reynslu fyrir þessu hér í nágrenni Rvíkur og víðar, að erfðafestuábúðin veitir bændum og búaliði yfirleitt alla hinn sömu kosti og sjálfsábúðin.

Þá minntist hv. 6. þm. Reykv. á það, hvernig á því stæði, að lífstíðarábúðin hefði ekki reynzt bændum nægileg hvöt til þess að bæta jarðirnar. Og beindi hann þeirri spurningu til mín. Það er um lífstíðarábúðina að segja, að hún hefir vitanlega ekki veitt bændum nægilega hvöt til umbóta á jörðunum, vegna þess að ábúðarlöggjöfin veitti þeim ekki öruggar tryggingar fyrir því, að umbæturnar yrðu af þeim keyptar við hæfilegu verði af viðkomandi jarðeiganda. Ennfremur má benda á það, að lífstíðarábúðin veitir ekki sömu hvöt sem erfðafestuábúðin gefur, þá hvöt, sem fólgin er í því, að afkomendur ábúandans fái að njóta athafna hans og umbóta á jörðinni. Af þessum ástæðum er lífstíðarábúðin ekkert sambærileg við erfðafestuábúðina. En því ábúðarfyrirkomulagi fylgja sömu kostir og sjálfsábúð. Og munurinn er sá, að bændur, sem fá jarðir byggðar á erfðafestu, þurfa ekki að festa fé í kaupverði þeirra, enda skiptir það geysimiklu máli fyrir bændur, sem flestir eru kapítallitlir eða kapítallausir.