22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (3787)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal verða stuttorður og leiða hjá mér alla hnífla, sem varpað hefir verið til mín persónulega. En mér þótti það dálítið hart, þegar hv. 6. þm. Reykv. sagði, að í Þingeyjarsýslu væru það nú orðið ekki aðrir en þeir fákænustu og lítilsigldustu, sem fylgdu þeirri stefnu að afnema þjóðjarðasölulögin. Hv. þm. leyfir sér að dæma fjarstadda menn, sem ekki geta svarað fyrir sig á sama vettvangi, og bletta með sínum svarta stimpli helztu bændafrömuði í þessu héraði, eins og t. d. Bjarna Arason á Grýtubakka, Benedikt Jónsson á Auðnum og fleiri þjóðkunna Þingeyinga, með því að kalla þá fákæna aumingja. Þetta er ekkert annað en ósvífinn sleggjudómur, sem ég mótmæli afdráttarlaust og tel hv. þm. til megnustu vansæmdar. Ég sagði, að þetta dæmi, sem hv. 6. þm. Reykv. tók af bónda í N-Ísafj.sýslu, væri alveg einstakt í sinni röð og sannaði ekkert um það mál, sem hér er deilt um. Hv. þm. Borgf. vildi eitthvað mótmæla því, sem ég sagði um þetta. En hvernig var ástatt um þennan mann áður en hann keypti jörðina? Hann hafði verið fyrirvinna hjá föður sínum í mörg ár, og sjálfur bóndi í raun og veru, og var búinn að umturna þeirri jörð. Hann átti, þegar hann keypti kotið, mörg þús. kr. í sparisjóði á Ísaf., margfaldan bústofn á jörðina og svo miklar heyfyrningar, að hann þurfti í raun og veru ekkert að heyja handa búpeningi sínum í 2 ár. Hann átti nægilegt kapital til þess að byggja steinhús á jörðinni, peningshús og framkvæma stórfellda ræktun. Ef þetta dæmi á að gilda almennt um þá menn, sem kaupa sér jarðir til ábúðar, þannig að af því verði dregnar almennar ályktanir um ástæður þeirra yfirleitt, þá verð ég að segja það, að meiri fjarstæðu er ekki hægt að nefna. Þetta dæmi er svo einhliða, að það sannar bókstaflega ekki neitt.

Hitt dæmið, sem hv. þm. Ak. tók, er miklu nær því að sýna, hvernig gengið hefir fyrir þessum mönnum almennt. Hann veit vel, hvernig það hefir leiðzt út, og mér er það einnig kunnugt. Ég er viss um, að við hefðum báðir óskað, að það hefði farið öðruvísi fyrir þeim manni.

En það er eitt atriði í þessu máli, sem ekki hefir enn komið nægilega ljóst fram í þessum umr., en væri þó mest ástæða til að gefa gaum, af því að það þjakar sveitarfélögunum hvað mest, og það er, hvernig fjármagnið sogast úr sveitunum í kaupstaðina með fólkinu, sem þangað flyzt. Þetta skeður venjulega á þann hátt, að bændur, sem eru nokkuð við aldur, hafa ekki ástæður til að halda áfram búskapnum í sveitunum, og selja þá jarðir sínar, sem þeir í mörgum tilfellum höfðu áður keypt af því opinbera, og flytjast svo með jarðaverðið í kaupstaðina. En við jörðunum taka, í þeirra stað, eignalitlir menn með sáralítið gjaldþol og þjakaðir af erfiðum kringumstæðum. Gjaldþol sveitarfélaganna þverr að sama skapi og fjárstraumurinn rennur eftir þessum farvegum til kaupstaðanna. - Ég geri ráð fyrir því, að við síðari umr. um þetta mál muni gefast tækifæri til þess að sýna fram á það með dæmum, hversu mikið fé er flutt úr sveitunum á þennan hátt, og hvernig þær eru orðnar útarmaðar vegna þeirrar blóðtöku. Ég hygg, að hv. 7. landsk. og ég getum bent á margt í því sambandi.

En þrátt fyrir þetta vilja sumir menn, og þá ekki sízt þeir, sem búa í kaupstöðunum, láta halda áfram við að. kasta jarðeignum ríkisins út í braskið, með því að ýta undir það, að þær séu seldar einstökum mönnum, sem að lokum lenda með gróðann af jarðabraskinu til kaupstaðanna, eins og ég hefi bent á.

Hin aðferðin, sem við flm. þessa frv. viljum beita, er sú, að taka jarðirnar tafarlaust út úr braskinu, stöðva sölu á þeim til einstakra manna, hafa jarðaverðið hóflegt og gera bændum jafnauðvelt að búa á þeim eins og þeir ættu þær sjálfir, og gefa þeim með erfðafestuábúð sömu hvöt til þess að bæta jarðirnar, enda er á þann hátt bezt tryggt, að þeir sjálfir og niðjar þeirra fái að njóta umbótanna. Erfðaábúðin veitir bændunum betri kjör en sjálfseignarfyrirkomulagið, af því að með þeirri aðferð er auðveldast að halda jarðaverðinu í hófi og fyrirbyggja jarðabraskið, en það gerir þeim, sem í sveitunum búa, erfiðara undir fæti með hverju ári, sem liður.