23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3795)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Árn. vildi álíta, að því er helzt var að skilja, að menn byggðu sér hús af því, að þeir fengju ekki að vera í friði í húsum annara manna. Þetta sagði hann sem svar við spurningu hv. þm. Borgf. í gær um það, hvers vegna flokksmenn hv. 2. þm. Árn. ættu þau hús, er þeir búa í.

Nú skildist mér á þessum hv. þm., að flokksmenn hans byggðu sér hús út úr neyð, af því þeir gætu ekki fengið að vera í húsum annara. Mér þykir það ótrúlegt, að þeir hagi sér svo illa þar, sem þeir leigja, að þeir geti ekki fengið þar að vera; þó skal ég ekkert um það fullyrða. (BB: Er þetta málfærsla?). En ég mótmæli því, að þetta séu almenn rök fyrir því, að menn byggja sér hús. Sannleikurinn er sá, að það er eðli Íslendinga að vilja eiga sjálfir jarðir þær og hús, sem þeir búa á og í.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri sambærilegt að byggja sér hús á leigulóð í kaupstað og að vera leiguliði í sveit. Þetta er ekki rétt. Það ber að athuga, að svo getur staðið á í kaupstöðum, að ekki sé hægt að fá til eignar lóð til að byggja á. En ég er ekki í neinum vafa um, að flestir eru svo gerðir, að þeir munu heldur kjósa að eiga lóðina undir húsi sínu, ekki aðeins af því, að það er tryggara, heldur af því, að það liggur í tilfinningu manna, að þeir þykjast meiri húsbændur á sínu heimili, ef þeir eiga reitinn, sem þeir standa á. Að sönnu sagði hv. þm., að undanteknir væru nokkrir íhaldsuppskafningar, sem hefðu byggt sér dýr hús. Ég skal ekki fara langt út í það. Hv. þm. geta farið út og litið yfir þau hús, sem byggð hafa verið í seinni tíð, og séð, hvar uppskafningshátturinn er mestur. Ég veit ekki betur en að það sé hjá þeim nýríku, sem virðast hafa haft góða aðstöðu til þess að græða, þó að þeir hafi ekki verið nema nokkur ár í einhverri ríkisstofnuninni, svo að ég tali ekki um þá, sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð í braski. Á ég þar sérstaklega við stórfiskinn í Alþfl.

Ég má ekki misnota þennan tíma minn, og skal ég því aðeins bæta því við, að það liggur alveg það sama til grundvallar fyrir því, að menn vilja sjálfir eiga hús, eins og að menn vilja sýna mesta rækt þeirri jörð, sem þeir eiga sjálfir. Þessi tilfinning manna er fullkomlega réttmæt og jafnrétthá hjá hvorumtveggja, bæði þeim, sem byggja sér hús í kaupstað, og eins þeim, sem rækta landið uppi í sveit.