23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (3796)

12. mál, sala þjóðjarða og lög um sölu kirkjujarða

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. sló því fram, að ríkið hefði tapað miklu fé við þjóðjarða- og kirkjujarðasöluna, þannig, að ef jarðirnar væru nú óseldar, ætti ríkið miklu meiri eignir heldur en komið hefðu inn við sölu jarðanna. Ég vil mótmæla þessu sem órökstuddu og algerlega ósönnu. Það er að vísu erfitt, eins og hv. þm. Borgf. minntist á, að draga glöggar línur á milli, vegna þess, að það er yfirleitt leitun á þeim jörðum, sem seldar hafa verið, sem ekki hafa verið bættar að meira og minna leyti. Þær jarðir eru margar, sem bættar hafa verið það mikið, að miðað við núv. fasteignamat er það lægra heldur en það fé, sem til þeirra hefir verið varið, þannig að upphaflega jarðarverðið er alveg horfið. En svo eru til jarðir, sem seldar hafa verið á þennan hátt, sem litlar umbætur hafa verið gerðar á. Ég þekki nokkrar af þessum jörðum og get fullyrt, að fasteignamat þeirra nú, eða hugsanlegt söluverð, liggur lítið fyrir ofan það söluverð, sem var þegar þær voru seldar af ríkinu, og ef tekið er tillit til þeirrar verðlækkunar, sem orðið hefir á peningunum á þessu tímabili, þá er það fyrir neðan upprunalegt verðlag. Þess vegna er þetta fullyrðing hjá hv. 2. þm. Reykv., staðlausir stafir.

Í annan stað vil ég leyfa mér að benda á atriði, sem full ástæða er til að benda á í sambandi við þetta frv., en ekki hefir verið gert ennþá, en það er sú breyt. á ábúðarlöggjöfinni, sem gerð var fyrir nokkru síðan. Þar er lögð rík skylda á herðar jarðeigenda um húsabætur. Ég vil benda á sem dæmi, að eftir að það frv. kom fram á þinginu, og það áður en það var samþ., að einn hygginn maður á Norðurlandi, sem átti góða jörð en húsalitla í annari sveit, vildi selja jörðina fyrir 6000 kr., en eftir að frv. kom fram þótti honum svo nærri höggið jarðareigendum, að í stað þess að halda áfram að bjóða jörðina fyrir 6000 kr., þá afhenti hann hana fyrir 2 þús. kr. skuld, sem á henni hvíldi, til þess að komast hjá að leggja fé í húsabætur á jörðinni. Þannig er nú komið, að einstaklingarnir vilja ekki yfirleitt eiga jarðirnar, sem þeir nota ekki sjálfir. Þeir vilja ekki hafa þá svipu yfir sér, að verða að leggja fram stórfé til endurbóta á jörðunum án þess að fá það aftur í hækkuðu jarðarverði og leigu eftir jörðina. Þetta virðist vera mjög í samræmi við fjármálaspeki þessara herra, sem bera þetta frv. fram, að nú þegar svo er komið, að enginn einstaklingur vill eiga jörð, sem hann býr ekki á sjálfur, þá eigi ríkið að hlaupa til og kaupa jarðirnar. Það, sem ekki er lengur gróðavegur fyrir einstaklingana, á nú að vera hagur fyrir ríkið að þeirra dómi.