18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

137. mál, fjáraukalög 1933

Frsm. (Sigurður Einarsson) [óyfirl.]:

Fjvn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. með einni breyt. Það er við 5. gr. 14. II, að í staðinn fyrir „34858,24“ komi „43858,24“. Þetta er gert til samræmis við landsreikninginn. Er það auðsjáanlega prentvilla í frv., að þessi tala er svona, og er því í raun og veru ekki nema um leiðréttingu að ræða.

Án þess að vilja stuðla að því, að efna til langra umr. um þetta frv., þá get ég samt ekki látið hjá liða að segja um það nokkur orð, auk þess að gera grein fyrir þessari brtt. fjvn.

Á þessum fjáraukal. er upphæð, sem er ekki svo allskostar lítil, eða samtals 2017211.76 kr. Nú er það út af fyrir sig enginn prófsteinn á réttmæti stjórnarráðstafana eða þá, sem stjórna yfir höfuð, hvort verður að fara fram úr fjárveitingunum. Til þess liggja ýmsar ástæður, að svo verður oft að gera, en ástæðurnar eru misjafnlegs réttmætar.

Það er einn gjaldliður í þessu frv., sem í sjálfu sér er ekki hægt að bindast orða um, vegna þess að það er álit fjölmikils meiri hl. alþýðu manna í landinu, að þar hafi á mjög óviðurkvæmilegan og óréttmætan hátt verið gripið til þess að eyða stórfé úr ríkissjóði. Í 4. gr. þessa frv., 13, er sakamálakostnaður og lögreglumála m. m. 420334 kr. Þetta er eins og menn sjá einhver allra stærsta gjaldaupphæðin, sem þetta frv. hefir inni að halda á einum lið. Og orsökin til þess er sá, að á því fjárhagsári, sem hér ræðir um, var tiltekin stjórn að borga fé til þess að koma sér upp að ástæðulausu miklum hér manna. Árið 1925 kom í fyrsta sinn hér á þingi viðleitni til þess að koma upp vopnuðu og vel búnu liði til þess að beita gegn samtökum verkamanna og alþýðu, ef á þyrfti að halda að dómi valdhafanna. Sú till. fékk þá útreið hér á þingi, að margir mundu hafa ætlað, að ekki yrði aftur reynt að fara þá braut. Sú viðleitni var sem sé algerlega felld. En sá munur er þó á þeim valdhöfum, sem þá vildu stofna til þessarar fjáreyðslu, að sú stj., sem hér á hlut að máli, hikaði ekki við að grípa til þessarar fjáreyðslu og koma upp þessum hér í algerðu lagaleysi.

Við fjvnm. Alþýðuflokksins höfum ekki gert aths. við frv. í heild. og það er vegna þess, að við erum þess fulltrúa, að þjóðin sjálf, almenningur í landinu, óski þess ekki að gera ráðstafanir til að koma fram refsingu á þeim ógæfumönnum, sem stóðu að þessu fyrirtæki. Þjóðin hefir sjálf skorið úr þessu, og gert það á þann hátt, sem réttast og drengilegast var, með því að taka aðstöðuna til að fara þannig með ríkisfé af þeim mönnum, sem treysta ekki stjórnarráðstöfunum sínum betur en svo, að þeir þurfa að hafa hér manna til þess að verja sig. M. ö. o., þetta mál er að vissu leyti úr sögunni, því að þjóðin hefir tekið í taumana og óskar ekki eftir neinni refsingu á hendur þeim mönnum, sem gerðu sig seka um þetta gáleysi.

En þetta tiltæki allt kemur til með að standa í endurminningu alþýðu manna hér á landi sem eftirminnilegur, stórkostlegur og ískyggilegur minnisvarði yfir þá hættu, sem er því samfara að trúa þeim fyrir almennum málum, er grípa til slíkra ráða. Þetta er miklu meiri kostnaður en þjóðfélagið á venjulegum tímum ver til þess að halda uppi lögboðnum fangelsum og varúðarráðstöfunum, sem þjóðfélagið telur sig þurfa að gera til þess að tryggja líf og limu borgaranna fyrir misendismönnum.

Ég heyri, að margir menn eru búnir að biðja um orðið, og geri ég ráð fyrir, að þessi fáu orð mín, þetta bergmál af tilfinningum þjóðarinnar fyrir þessu, hafi komið við tilfinningar þeirra manna, sem hér eru sekir beint og óbeint. En það vil ég segja þeim hv. þm., sem hér ætla að tala og verja þetta tiltæki, að þeirra hlutur verður því verri og þeirra framkoma því varhugaverðari sem meira er um þetta talað. Það er því engin ástæða til þess fyrir þá að fagna því, að sorfið verði til stáls um þetta mál.