23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (3803)

13. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Mér skilst, að það, sem fyrir hv. flm. vakir með þessu frv., sé annarsvegar það, að gæta þess, að þeir, sem innlánsfé eiga í sparisjóðum og bönkum, fái ekki of háa vexti af því, og hinsvegar með því móti að veita bönkunum möguleika til þess að lána út með lægri vöxtum og láta aðra, sem skuldabréf eiga úti á einn eða annan hátt, ekki þurfa að greiða nema svo eða svo háa vexti. En ég held, að eins og frv. er nú byggt upp sé það algerlega óframkvæmanlegt. Það er þegar af þeirri ástæðu, að ég get ekki séð, að Alþingi geti sett ákvæði um það, að vextir verðbréfa, sem nú bera 5-6%, skuli allt í einu lækka um allt að 2%. En í grg. frv. er gert ráð fyrir, að innlánsvextir skuli „lækkaðir verulega“ og verðbréfavextir að sama skapi. Innlánsvextirnir eru nú 4-41/4%, og um „verulega“ lækkun er ekki að ræða nema þeir lækki ofan í 2-21/2%. M. ö. o., þeir, sem gefið hafa skuldabréfin út, verða áfram að greiða sömu vexti og áður, en þeir, sem vaxtanna eiga að njóta, fá einungis 1/2% fram yfir það, sem innlánsvextir eru ákveðnir. Þessi hugsun, sem fram kemur í frv., er að því leyti óframkvæmanleg, að ég veit ekki til, að það hafi nokkurntíma komið fyrir, að vextir bréfa, eins og t. d. kreppulánasjóðsbréfin og veðdeildarbréfin, sem gefin eru út með ákveðnum vöxtum og vaxtamiðum, hafi allt í einu verið færðir niður að allverulegu leyti, nema með því eina móti, að eigendunum sé gefinn kostur á að fá þau innleyst fullu verði, en þeir kaupi hinsvegar ný bréf með lægri vöxtum. Þegar verðbréf eru þannig „converteruð“, er þetta reglan, að eigendunum er með auglýsingu gefinn kostur á að fá þau greidd nafnverði eða skipta á þeim og nýjum bréfum, sem gefa lægri vexti. Ég fæ ekki séð, að Alþingi geti svipt þá einstaklinga og stofnanir, sem nú eiga veðdeildarbréf, kreppulánasjóðsbréf og önnur slík verðbréf með ákveðnum vöxtum, réttinum til þess að fá þá vexti, sem bréfin hljóða upp á. Enda er það ekki það út af fyrir sig, sem orðalag frv. segir, heldur að þeir, sem bréfin eiga, verði að greiða sem skatt í ríkissjóð það, sem vextirnir fara fram yfir hið tiltekna hámark.

Þetta er því raunverulega nýtt skattafrumvarp, sem kemur alls ekki þeim mönnum til góða, sem verða að borga hina háu vexti. Mér finnst þó eðlilegra, að þeir, sem gefið hafa út skuldabréfin og skuldbundið sig til þess að greiða af þeim ákveðna vexti, nytu þess, ef þessir vextir ættu allt í einu að lækka.

Ég tel, að það verði álitið útilokað, að það sé hægt að þvinga þannig niður vexti bréfanna, án þess að gefa eigendunum kost á að fá þau greidd upp að fullu, ef þeir vilja það heldur. Afleiðingin yrði vitanlega sú, að þetta leiddi til verðhruns á þeim bréfum, sem nú ganga kaupum og sölum. Ég hygg, að menn séu sammála um það, að verðið, sem nú fæst fyrir t. d. veðdeildarbréfin, sé svo lágt, að það hleypir öllum byggingum hér í Rvík og víðar upp úr öllu valdi. Og það er víst, að þeir, sem nú kaupa veðdeildarbréfin, sem gefa 5% vexti, fyrir 75 kr. hundraðið, munu ekki kaupa sömu bréf sama verði, heldur miklu lægra, ef þeir eiga að greiða þennan vaxtaskatt. Ef þetta á ekki að leiða til verðhruns á þessum bréfum, þá verður Alþingi jafnframt að sjá um, að peningastofnanir landsins kaupi þau fyrir sæmilegt verð. Ég vil benda á, að fram til þessa hafa vextir af skuldum söfnunarsjóðs verið 6%. Síðasta Alþingi lækkaði þá um 1/2 %. Afleiðingin er sú, að söfnunarsjóður hefir sagt upp hverju einasta láni. Hann hefir sagt þeim upp þannig, að hann hefir gefið kost á, annaðhvort að greiða skuldabréfin að fullu, t. d. með veðdeildarbréfum fyrir ákveðið gengi, eða greiða þessar skuldir með afborgunum á 36 árum, sem annars standa afborgunarlausar.

Ég held, að hv. flm. hafi skotið yfir markið, ef hann álítur, að þeir menn, sem svo eru staddir, eins og hann komst að orði, að þeir eiga fé inni á sparisjóðum, verði að þola að fá lægri vexti. Ég held, að hann hafi skotið yfir markið, ef hann álítur, að það séu þeir menn, sem almennt eru kallaðir ríkir, sem eiga fé sitt í sparisjóðum. Sparisjóðsféð er yfirleitt þannig til komið, að allur almenningur leggur í sparisjóð það fé, sem hann sparar saman. Þeir, sem hafa einhvern rekstur til sjávar eða sveita, munu ekki oft hafa fé í sparisjóði. Það eru hinir raunverulega fátæku menn þjóðfélagsins, millistéttirnar sem engan sérstakan atvinnuveg reka, sem eiga sparisjóðsféð. Og því er mjög varhugavert að leggja stein í götu þeirra manna, fæla þá frá því að eiga áfram fé á sparisjóði og bæta við það. Í fyrra benti ég á leið, sem mundi koma betur við, nefnilega að láta þetta sparifé vera skattfrjálst, til þess að hæna menn að því að leggja fé í sparisjóð. Því vitanlega er bönkunum spariféð nauðsynlegt.

Ég hygg satt að segja, að það muni vera mörgum erfitt að halda áfram við byggingar. ef þeir geta þó ekki selt veðdeildarbréfin fyrir 75-80 kr. hvert 100 kr. bréf, eins og hefir verið undanfarið. Það verður þá að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að peningastofnanirnar kaupi þessi bréf ákveðnu verði. Það þýðir ekkert, þó Landsbankinn láti eina litla auglýsingu hanga uppi í sparisjóðsdeildinni, þar sem skráð er, að kaupverð veðdeildarbréfanna sé 89 af hundraði, eða hvað það nú er, ef bankinn fæst ekki til þess að kaupa eitt einasta bréf.

Hv. flm. segir líka í lok grg., að vegna framtíðarverðbréfasölu hafi sér þótt rétt að láta þá vexti, er erlendir menn eiga að fá hér af skuldum sínum, vera undanþegna verðbréfaskatti. Hann fellst þannig alveg á, að það mundi ekki verða hægt að selja bréfin, ef þetta ákvæði kæmist inn í lögin. Útlendingar mundu skilja það og ekki kaupa bréfin, en hann ætlar Íslendingum og íslenzkum stofnunum ekki að skilja það. Hann sér, að ekki yrði hægt að selja þessi bréf nema fyrir sáralítið verð, ef slíkur vaxtaskattur er lagður á.

Það er annað atriði í frv., án þess ég ætli að fara inn á einstakar greinar þess, sem ég skil ekki. Þar stendur: „Undanþegnir vaxtaskatti eru vextir af þeim skuldabréfum, sem eru eign erlendra manna, enda sé það sannanlegt og skuldabréfin þinglesin eign þeirra áður en ár er liðið frá staðf. laga þessara“. Ég hefi aldrei vitað, að þau bréf, sem hér er um að ræða, t. d. veðdeildarbréf og ríkisskuldabréf, sem eru í eign erlendra manna, væru þinglesin. Hvar ætti að þinglesa þau? Það yrði þá að setja eitthvert ákvæði um, að þau skuli þinglesin þar, sem útgefandi er búsettur. Hv. flm. getur ekki farið austur í Múlasýslu og heimtað þessi bréf þinglesin þar. Það verður að setja eitthvert ákv. um, hvernig þetta skuli gert.

Ég hygg, að það hafi ekki vakað fyrir hv. flm., að þetta ætti að vera skattafrv. En eins og frv. er orðað, er það í raun og veru ekkert annað en nýtt skattafrv., þar sem ríkissjóði er heimilað að innheimta e. t. v. allt að 25% af vöxtum allra skuldabréfa, sem gefin eru út af einstaklingum, stofnunum eða ríkissjóði. Sem sagt, mér finnst að þetta ráð, sem hér á að taka upp, geti ekki lækkað innlánsvexti, en getur aftur haft þær afleiðingar, að þau bréf, sem ganga kaupum og sölum - því er ekki hægt að varna, og fyrir þau verður að vera einhver markaður - hrynji í verði, og þá erum við engu nær.