23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (3804)

13. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég verð að viðurkenna það, að ég skildi ekki, hvað þessi hv. þm. var að fara. Öðru veifinu var hann að tala um, að ekki mundi leyfilegt að taka þennan vaxtaskatt, en hinu veifinu sagði hann, að þetta væri skattafrv., og gekk út frá því, að hægt væri að skattleggja þannig eignir manna og tekjur, og þá sjálfsagt misjafnlega hátt, eftir því hvernig þær væru til orðnar. Ég held, að það sé líka hægt að skoða þetta sem skattstofn, en það er ekki ætlazt til annars en að þessi skattur geri það að verkum, að hæfilegt samræmi verði á hverjum tíma á milli innlánsvaxta og vaxta af verðbréfum.

Þegar hv. 8. landsk. athugar þetta, sér hann líka, að sala á bréfunum verður alveg jöfn, hvort sem þetta er gert eða ekki, þegar samræmið helzt milli vaxta af bréfum og innlánsvaxta á hverjum tíma.

Annarsvegar hafa menn að velja milli þess, að setja féð í atvinnureksturinn og fá enga vexti, eða að láta það í peningastofnanirnar og fá venjulega innlánsvexti, eða í þriðja lagi að kaupa verðbréf og fá þá vexti, sem þar eru ákveðnir. Þegar menn vilja heldur kaupa bréf, þá er það af því, að þeim þykir munurinn á vöxtum þeirra og sparisjóðsvöxtum hæfilega mikill, og þegar sá mismunur breytist ekki, þá hefir það engin áhrif á sölu bréfanna, þó innlánsvextir séu lækkaðir á sparifé.

Hann segir, að á síðasta þingi hafi verið samþ. l. um að lækka vexti söfnunarsjóðs. Mér er ekki kunnugt um það, en það kom fram frv., þar sem lagt var til, að innlánsvextir söfnunarsjóðs yrðu lækkaðir, en það dagaði uppi. Það var ekki um 1/2% lækkun, eins og hann sagði, heldur um 1% lækkun. En til þess að fyrirbyggja, að slíkt frv. kæmi fram í annað sinn, neyddist söfnunarsjóður til að reyna að semja við skuldunauta sína um 1/2% vaxtalækkun. Frv. verkaði því strax, þó að það yrði ekki að l. Og það er nokkuð hart af hv. þm. að vita ekki, hvaða lög voru samþ. á síðasta þingi. Það er ekki svo langt síðan því sleit. En vera má, að hv. þm. sé sérlega gleyminn, og því skal þetta fyrirgefið.

Mér skilst, að hv. 8. landsk. álíti, að það þurfi að lækka þá vexti, sem atvinnuvegirnir standa nú undir. En fyrst hann er mér sammála um það, þá vona ég, að við getum orðið sammála um að reyna að finna einhverjar leiðir til þess. En þær leiðir held ég, að hann finni ekki með því að gera sparifé skattlaust, heldur með því að skapa þá aðstöðu, að menn sjái sér ekki hag í því að taka sparifé sitt út úr bönkum og sparisjóðum. Þess vegna er ekki hægt að komast framhjá því, ef við viljum lækka vexti í sparisjóðum, að lækka líka vexti á verðbréfum.