25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (3807)

16. mál, fasteignaskattur

Flm. Magnús Torfason):

Frv. þetta var flutt á síðasta Alþ., svo að mönnum ætti að vera það í fersku minni. Fyrir sparnaðarsakir höfum við ekki látið prenta grg. frá í fyrra. Ég vissi þá ekki, að ekki er lokið prentun á skjalaparti Alþt. frá síðasta þingi. En þar sem svo er, að prentun hans er ekki lokið, þá tel ég mér skylt að rifja nokkuð upp það, sem í grg. frv. stóð þá.

Það mál er kunnugra en frá þurfi að segja, að fjárhagsafkoma sveitarfélaga er afleit, svo að fullkomin vandræði eru af orðin. Hinsvegar eru gjaldaálögurnar víðast svo þungar, að enginn vegur er til þess að bæta við þær svo að neinu nemi, a. m. k. ekki með almennum l. Það má heita, að útsvör séu nú orðin það þung yfirleitt, að menn séu píndir undir drep. Og jafnvel þó að farið hafi verið eins langt og unnt er í því að þyngja á mönnum með sköttum, þá hefir þetta ekki nægt. Sveitarfélögin hafa samt lent í vanskilum, og það miklum vanskilum, svo að útlit er fyrir, að sum sveitarfélög komist alls ekki frá þeim. Vottur um það eru m. a. lög þau, sem sett voru um fjárþröng sveitarfélaga, og lengra þarf eiginlega ekki að vitna. Þegar svo er komið, að sveitarfélög verða gerð að þrotsmönnum, þá er vitanlegt, að einhverju þarf að breyta og laga til. En það er nú einu sinni ekki svo vel, að það nægi að létta skuldum af sveitarfélögum um sinn. Það er enginn vafi á því, að jafnvel þó að sumum sveitarfélögum væru gefnar upp allar skuldir, þá nægði það ekki. Tekjustofnar sumra sveitarfélaga nægja ekki á móti þeim útgjöldum, sem þau þurfa að inna af höndum og á þeim hvíla. Það er enginn vafi á því, um sum þeirra a. m. k., sem eru gerð upp, að að því mundi reka fyrr eða siðar, að þau yrðu að leita samninga við lánardrottna sína aftur. Hinsvegar er enginn vegur til þess að standast byrðarnar, nema því aðeins, að sveitarfélögin fái nýja tekjustofna. Það má jafna byrðunum á milli sveitarfélaga, svo að betur fari nú í því efni. En lengra verður ekki komizt, nema þau fái nýja tekjustofna, meiri tekjur. Þetta hefir löggjafinn líka séð og sýnt það með því, að það hefir verið veittur nokkur styrkur til þurfamannaframfæris af ríkisfé, þar sem það er þyngst. En nú er svo komið, að sá styrkur hefir ekki líkt því hrokkið til. Það verður þess vegna ekki komizt hjá því að auka tekjustofna sveitarfélaganna, enda er það beinasta leiðin og sú leið, sem ætíð hefir verið farin í allri skattsögu þessarar þjóðar, og yfirleitt annara þjóða. Annað ráð en þetta til umbóta í þessu efni er ekki til. En þetta hefir nú ekki verið gert hvað sveitirnar snertir. Hinsvegar hafa kaupstaðirnir fengið beina tekjustofna, og jafnvel óbeina tekjustofna líka. Hvergi mun þó vera meiri þörf á slíkum tekjuauka en einmitt í sveitunum, eins og eðlilegt er, því að afkoma er þar langlökust, enda viðurkennt af öllum, að sveitirnar eigi, nú sem stendur, við örðugastan hag að búa, auk þeirrar brýnu og sjálfsögðu þarfar, sem þar er til staðar, er þetta, að auka tekjustofna sveitanna, líka mjög rétthá sanngirniskrafa, að eitthvað komi af tekjum til sveitarfélaganna á móti verzlunararðinum, sem kaupstaðirnir njóta svo að segja eingöngu. Sveitirnar fara því nær alveg á mis við allan verzlunararðinn, og afleiðingin hefir komið mjög svo skýrt í ljós, þar sem verzlanir hafa lagzt niður í sveitum, því að þær sveitir hafa komizt í hið mesta fjármálaöngþveiti. Einmitt slík sveitarfélög hafa orðið að neyta laganna um fjárþröng sveitarfélaga, vegna þess að þau hafa orðið gjaldþrota.

Nú er það víst og satt, að það er erfitt um álagningu nýrra gjalda, og sérstaklega til sveitanna, og því er með þessu frv. fyrst og fremst reynt að breyta til þannig, að leiðréttur sé gamall óréttur. Á þingmálafundum um og eftir aldamótin síðustu voru víða á landinu samþ. harðar kröfur um, að ábúðarskattinum yrði létt af. Þetta var tekið til athugunar á Alþ. og þessu breytt nokkuð. Sjálfur ábúðarskatturinn var afnuminn, en í staðinn kom fasteignaskattur. Þegar svo til framkvæmdanna kom, sáu menn ekki fært að breyta frá gamla laginu og létu fasteignaskattinn koma fram sem hreinan og beinan ábúðarskatt, svo að þetta sótti allt í gamla horfið. Eini munurinn, sem á varð, var, að slíkur skattur kom betur niður á kaupstaði og kauptún. Þar höfðu menn áður orðið að gjalda húsaskatt, sem þannig var, að menn urðu að gjalda skatt af því í húseignum, sem ekki var veðsett. Þessi breyt. verkaði því þannig, að ríkið fékk meiri tekjur, en engu var létt af sveitunum. Nú kemur þessi ábúðarskattur þannig niður, að því fleiri jarðir sem utansveitarmenn eiga í einhverri sveit, því meira borga bændurnir í sveitinni í ábúðarskatt fyrir jarðeigendur. Þess vegna er það ekki nema réttlátt, að þessi skattur einmitt verði fyrst og fremst notaður til þess að létta undir með sveitarfélögum, þannig að hann fari þó ekki út úr héruðunum.

Ég held, að mér sé óhætt að segja, að ekki hafi heyrzt nein rödd, sem í sjálfu sér sé á móti þessu sanngirnismáli. Ég held, sannast að segja, að eina ástæðan til þess, að þessu frv. hefir ekki verið sinnt eins og átt hefði að vera, sé bara blátt áfram það, að ríkissjóður þykist nú sem stendur ekki geta séð af neinum eyri.

Ég skal upplýsa það, að samtals nemur fasteignaskatturinn í sveitasýslum, sem þetta frv. á aðallega að ná til, alls um 150 þús. kr., svo að hér er ekki um stóra upphæð að ræða, heldur ber þetta að skoða sem nokkurskonar byrjun á tekjuaukum, og þá sérstaklega sem lagfæringu á gömlum órétti.

En frv. innibindur í sér, að þennan skatt má auka í sveitum með frekari álögum. Hver sýsla getur hjá sér aukið þennan skatt allt að helmingi. ef henni sýnist, svo að það liggur meira í þessu frv. heldur en að taka tekjur beint frá ríkissjóði. Í frv. liggur því það, að sveitirnar geta reynt á þennan hátt að hjálpa sér sjálfar.

Ég hafði búizt við því, að menn mundu sýna þessu máli þann sóma að láta eitthvað heyra til sín um það úr n., og sérstaklega hafði ég búizt við því af því, að stéttarbræður mínir áttu sæti í þeirri n., sem málið var í. Þetta varð samt ekki. Skal ég ekki um það sakast. því að vera má, að mikil störf í n. hafi hamlað því þá. En nú, þegar frv. kemur til umr. svona snemma á þingi og ekki er meira fyrir n. að starfa en nú er, svona rétt í meðallagi, þá vænti ég þess fastlega, að nm. láti sjá, hvaða hug þeir bera til frv. þessa og þessa máls í heild sinni. Og ef nm. komast að þeirri niðurstöðu, að þennan tekjuauka megi fá á annan hátt, vona ég einnig, að þeir láti til sín heyra um það, því að mér er það út af fyrir sig ekkert sérstakt kappsmál, að sveitirnar fái endilega aukna tekjustofna fyrir þetta vissa frv., heldur að þær fái þá á einhvern hátt.

Ég skal svo ekki fleiri orð um þetta hafa nú, en ég óska, að málinu verði vísað til allshn. Þetta mál snertir fyrst og fremst sveitarfélög og þeirra skipulag, og öllum slíkum málum hefir ætíð verið vísað til allshn. Hinsvegar verður því ekki neitað, að það er fjárhagsatriði í þessu máli, sem heyrir undir fjhn. í raun og veru. En ef leita þyrfti álits fjhn. um þetta, þá virðist mér það liggja hendi næst, sem oft hefir verið gert hér á Alþ.,allshn. bæri þetta mál undir systurnefnd sína, fjhn.