25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (3810)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Frv. shlj. þessu var flutt af okkur flm. tímanlega á síðasta þingi, en lá meiri hluta þingtímans hjá landbn. Verður því að gera ráð fyrir, að málið hafi fengið rækilega athugun hjá nefndinni. Að vísu lagði n. til, að frv. okkar yrði ekki sinnt, en flutti sjálf annað frv., sem miða átti að því að bæta nokkuð fasteignalánskjör landbúnaðarins. Má því vænta þess, að n. þyki enn sem fyrr sinn fugl fagur og vilji ekki sinna okkar frv. nú fremur en áður. En þess er þó að gæta, að í frv. n. síðan í haust eru ákvæði, sem litlar líkur eru til, að komi til álita nú, svo sem ákvæði 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir 5 millj. kr. lántöku. Ég veit að vísu ekki, hvað stj. telur sér fært í þessu efni, en trúað gæti ég þó, að nú væri farið að þrengjast allmjög fyrir dyrum um nýjar lántökur, ekki tryggari afkoma atvinnuveganna en nú virðist vera fram undan. Þá virðist og annar möguleiki, sem frv. gerði ráð fyrir til að framkvæma vaxtalækkun, vera horfinn úr sögunni, en hann var sá, að lengja lánstíma ræktunarsjóðs með því að lengja inndráttartíma bréfanna. Í Ed. var sýnt fram á, að þetta væri ekki hægt, eins og raunar var bent á hér í d. líka.

Þegar á þetta hvorttveggja er litið, má segja, að aðalástæðurnar til að samþ. frv. landbn. séu úr sögunni, en því meiri ástæða til þess að samþ. frv. okkar nú. Það var skoðun sumra í landbn., að svo þyrfti að koma þessu máli fyrir, að af því leiddi engin útgjöld fyrir ríkissjóð, en seinna var þó bætt inn í frv. landbn. III. kafla þess, sem gengur í sömu átt og frv. okkar. N. fellst á, að vextir af fasteignaveðslánum séu of háir og vill lækka þá, en að vísu ekki eins mikið og við, og telur, að þeir megi vera 5%. Þó hreyfir n. ekki við vöxtum af veðdeildarlánum Landsbankans. Í III. kafla frv. er gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði til að greiða þann hluta af fasteignaveðslánavöxtum, sem er fram yfir 5%. Ennfremur vill hún bæta úr lánskjörunum með því að lengja lánstímann. Um þetta atriði vildi ég eiga samvinnu við þá í landbn., sem vilja taka þetta mál föstum tökum. Ég játa, að þessi breyt. sé til bóta, því að með henni er dregið úr hinum árlegu greiðslum, en þetta verður ekki framkvæmt nema ríkissjóður hlaupi undir bagga, því að inndráttur ræktunarsjóðsbréfa má ekki dragast lengur en lánin gefa tilefni til.

Það hefir verið sagt, að ekki mætti gera ráðstafanir sem þessar án þess að gera ríkissjóði kleift að afla sér nýrra tekna til að standast kostnaðinn af framlögum sínum í þessu skyni. Þó hefir n. lagt til, að vextir lækki um 1% á ræktunarsjóðsbréfum í opinberri eign. Þetta er auðvitað beint framlag úr ríkissjóði, án þess að nokkuð komi í staðinn.

Alþingi hafa borizt áskoranir um lækkun á vöxtum á fasteignaveðslánum, sem eru alveg í samræmi við frv. okkar, og búnaðarþing hefir samþ. með 11 shlj. atkv. af 14, að þessir vextir skyldu færðir niður í 4%. Á bak við þessar kröfur stendur því eindreginn vilji bænda, enda hefir landbn. fallizt á þá skoðun okkar, að þar sem bændur greiða nú ekki nema 4% af lausaskuldum sínum, þá sé ekki nokkur meining í því, að fasteignaveðslánavextir séu svo háir sem nú. Þvert á móti ættu þau lán að vera vaxtalægst, þar sem þau eru jafnan tryggustu lánin. Af réttlætisástæðum hljóta því allir að vera sammála um það að færa vextina til samræmis. Og auk þess er það öllum kunnugt, að landbúnaðurinn getur ekki lengur risið undir hinum árlegu greiðslum af fasteignalánunum með þeim vaxtakjörum, sem nú eru.

Eftir þeirri yfirlýsingu, sem fulltrúi Alþfl. í landbn. Ed. hefir gefið, hefði mátt búast við því, að stj. flytti frv. í þá átt að koma meira réttlæti á í þessu efni. En á slíku frv. hefi ég ekki séð bóla ennþá og verð því að vænta þess, að landbn. taki þetta mál til ýtarlegrar meðferðar, því að það þolir enga bið. Til ársloka 1934 höfum við flotið á þeirri heimild, að ríkissjóður mætti greiða 11/2% af vöxtunum eftir tillögum stjórnar kreppulánasjóðs. Þetta hefir verið mjög notað, en nú eru þessi ákvæði fallin úr gildi frá áramótum. Ég vænti því þess, að landbn. taki málið strax fyrir á grundvelli frv. okkar. En þó mun ég ekki gera það að kappsmáli, að frv. okkar verði lagt til grundvallar, því að fyrir okkur vakir það eitt, að fá sæmilega lausn á málinu á einhvern hátt.

Fyrir þinginu í fyrra lá frv., sem skoðanir voru allmjög skiptar um. Það var frv. um vaxtaskatt. Ég gæti fallizt á lítilsháttar vaxtaskatt til að standa undir þeim útgjöldum, sem af þessu leiðir, til bráðabirgða, meðan örðugleikar landbúnaðarins eru sem mestir. Þennan skatt ætti þá að leggja í sérstakan sjóð, sem skatturinn yrði í áfram, þótt ekki þyrfti að nota hann allan til greiðslu á fasteignaveðslánum landbúnaðarins, heldur væri notaður til að létta undir með öðrum atvinnuvegum.

Menn verða fyrst og fremst að gera sér það ljóst, að ekki dugir það eitt, að krækja í tekjur handa ríkissjóði með einhverju móti, heldur verður jafnframt að efla atvinnuvegina, því ef þeir standa ekki undir sjálfum sér, er fjárhag ríkissjóðs hætta búin, hversu harðvítugur atvmrh. sem fer með völd. Og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt einn liðurinn í eflingu atvinnuveganna.