25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (3811)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Út af því, að hv. flm. sagði, að ekki væri farið enn að brydda á frv. um lækkun fasteignalánsvaxta frá stj., vil ég taka það fram, að frá þessu máli var gengið með yfirlýsingu hv. 4. landsk., þar sem hann sagði, að frá þessu máli yrði gengið á þessu þingi á svipuðum grundvelli og það var borið fram af landbn. síðast. Og þetta verður gert, þótt málið verði ekki borið fram sem stjfrv. fremur nú en þá. Hv. flm. er þetta vel kunnugt.

Hitt er ljóst, að þetta mál hlýtur að verða vandleyst. Landbúnaðurinn hefir meiri þörf fyrir vaxtalækkun en nokkru sinni fyrr. En jafnhliða fara örðugleikarnir vaxandi fyrir aðra framleiðslu, sem verður að taka af það fé, sem ætlað er til vaxtalækkunar fyrir landbúnaðinn. En eins og kunnugt er, eru horfur um fisksöluna nú mjög ískyggilegar.

Árið 1933-4 hefir verið greitt 11/2% af vöxtunum af ríkisfé. En svar við þeirri spurningu, hvað vextirnir megi vera háir, hlýtur að fara eftir því, hvað aðrir atvinnuvegir þola að bera mikið af þeim. Lausnin á þessu máli er því miklum vandkvæðum bundin hér, þar sem peninga vantar til alls vegna mikilla framkvæmda undanfarin ár. Lausn þessara mála hefir t. d. strandað á því í Danmörku, að bankar og sparisjóðir hafa neitað að lækka vextina. Sú neitun stafar auðvitað af vandræðum þeirra atvinnugreina, sem eiga að standa undir lækkun á vöxtum fasteignalánanna.

Ég hefi viljað geta þessa, þótt stj. hafi á engan hátt horfið frá því að leysa þetta mál. Frv. verður flutt næstu daga, og áherzla verður lögð á að koma því í gegn fyrir þingfrestun vegna vaxtagreiðslnanna að hausti.