25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í C-deild Alþingistíðinda. (3813)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það er tilgangslaust að eyða miklum tíma í að svara miklu af þessu skrafi hv. þm. V.-Húnv. Þó þykir mér rétt að leiðrétta allra helztu missagnir í síðustu ræðu hans. Hvað áhuga hv. þm. í þessum efnum snertir, vil ég aðeins taka það fram, að æskilegt hefði verið, að hann hefði komið fram fyrr, meðan hv. þm. hafði einhver tök á lausn þessa máls. Nú segir hv. þm., að það þurfi að taka föstum tökum á þessu máli, það þýði ekki að hafa pappírsgögn viðvíkjandi lausn málsins. Það, sem skorti einmitt á um lausn málsins áður, var sérstaklega það, að sú lausn var tóm pappírslausn. Það hefir alltaf sýnt sig viðvíkjandi lausn þessa máls, að það hefir ekki verið séð fyrir peningum til þess að gera þetta eða hitt, eins og greinilega kom fram, þegar gerðir voru upp reikningarnir fyrir 1934. Það, sem við óskum sérstaklega eftir, þegar um samvinnu við þennan hv. þm. er að ræða, er, að hann hjálpi til þess að benda á einhverja möguleika til þess að afla fjár til að gera þetta og hitt með. Það þýðir ekki að samþ. þá hlið málsins, að vextir landbúnaðarins skuli vera 3-4%, heldur hitt, hvar á að taka fé til framkvæmdanna. Það er það, sem vantar. Það hefir vantað viðvíkjandi lausn þessa máls hingað til, og vantar enn. Hv. þm. minntist á það með sínum venjulegu tilraunum til líkinga, sem oftast misheppnast, að hann gæti ekki vitað, hvað stj. ætlaði sér að gera í þessu máli. Vitanlega veit hv. þm. þetta, þar sem því var beinlínis lýst yfir á síðasta þingi af form. Alþfl. (HannJ: Segir hann stjórninni fyrir verkum?). Þetta er enn léleg tilraun til útúrsnúnings, því að Framsfl. hafði flutt málið, og Jón Baldvinsson hafði lýst yfir því, að hann og hans flokksmenn myndu styðja málið, en þann stuðning þurfti, þar sem ekki var kunnugt, hvort stuðningur annara fengist.

Þá spurðist hv. þm. fyrir um það, hvort stj. ætlaði að bæta 5 millj. kr. lántöku ofan á 12 millj. kr. lánið. Þetta segir hv. þm. einungis til þess að láta skína í gegn órökstuddan grun, eins og blað það, sem kennt er við flokksleifar þær, sem þm. tilheyrir, er látið gera, m. ö. o., að með þessu nýja láni sé verið að safna enn nýjum ríkisskuldum erlendis. Samt er honum að sjálfsögðu kunnugt um, að verið var að breyta eldri lánum í ný og hagkvæmari lán. Viðvíkjandi lántökunni er það að segja, að ég býst ekki við, að 5 millj. kr. lántökuheimildin verði í þessu frv., en verði ekki ráðið fram úr vaxtalækkunarvandamálinu á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., þá verður þetta að lenda á ríkissjóði, og verður þá að afla teknanna til þess með einhverju öðru móti. Ég er hv. þm. vitanlega þakklátur, ef hann vill veita stuðning til þess að afla tekna til þess að framkvæma það, sem hér um ræðir. Vitanlega er vandalítið að framkvæma vaxtalækkun, ef unnt er að afla tekna til þeirrar framkvæmdar. Hingað til hefir framkvæmd þessa máls strandað á því, að fé til framkvæmdarinnar hefir ekki verið fyrir hendi. Það hefir verið ómögulegt að fá það, nema með því móti að taka það af öðrum atvinnugreinum landsmanna. Á þessu skeri strandaði málið í Danmörku. Ég veit, að hv. þm. er ljóst, að það er það, sem allt veltur á í þessu máli.