25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (3816)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Það var einkennileg rökfærsla hæstv. forsrh. nú síðast. Hann telur, að það liggi ekki svo mikið á því að lækka vextina, slíkt sé aukaatriði, það þurfi að gera annað landbúnaðinum til bjargar, og það muni stj. áreiðanlega gera. Það sé óþarfi af mér og mínum flokki að hafa afskipti af því. En hvað hefir stj. gert til þess að bæta úr erfiðleikum atvinnuveganna til lands og sjávar? Það bólar ekki á neinu í því efni.

Hæstv. ráðh. heldur fast við þá fullyrðingu sína, að við höfum ekkert gert til þess að styðja það, að lækkun á vöxtum landbúnaðarlána væri framkvæmanleg, með því að benda á tekjur til slíkrar ráðstöfunar. En jafnframt bendir hann þó á það, að við flm. frv. höfum vísað á leiðir til útgjaldalækkunar á fjárl. Hinsvegar er það ekkert undarlegt, þegar stj. lítur ekki á nokkra till. eða mál, sem kemur frá minni hl., þó að hann sé tregur til að gangast fyrir nýjum tekjuálögum. En á síðasta þingi var stj. gersneydd vilja eða viðleitni til þess að virða viðlits eitt einasta atriði frá okkur. Hún gat fyllilega vænzt þess, að við hefðum sýnt, hvaða útgjöld mætti spara, ef nokkuð hefði verið tekið til greina af þeim málum og till., sem við bárum fram. Ég er sannfærður um, að það hefði að skaðlausu mátt lækka útgjöld fjárl., en þó það hefði ekki virzt tækilegt, þá mátti stj. fullkomlega vænta stuðnings frá okkar hálfu til þess að fullnægja með auknum tekjum þeim þörfum, sem þetta frv. fór fram á. Hæstv. ráðh. þarf ekki sífellt að hamra á því, að þetta séu aðeins bráðabirgðaráðstafanir, sem eigi að gilda þangað til landbúnaðurinn reynist fær um að svara fyllri vöxtum. Þetta er ekki annað en það, sem við flm. frv. höfum sjálfir sagt. Við höfum haldið því fram, að þetta væri sjálfsögð bráðabirgðaráðstöfun, þangað til betur blæs fyrir landbúnaðinum.

Hæstv. ráðh. skal sannarlega fá að verða var við það, að við flm. þessa frv. erum reiðubúnir til þess að fylgja því fast eftir, að afkoma landbúnaðarins verði bætt, og það skal ekki standa á stuðningi okkar í þeim efnum. Við höfum hingað til farið á undan stj. í þeim greinum, en hún hefir ekki séð sér fært að fylgja okkur.

Ég skal svo ekki þreyta hæstv: forseta á því að svara ræðu hæstv. ráðh. lið fyrir lið. Enda var nú svo komið fyrir honum í síðustu ræðu hans, að hann svaraði sér sjálfur með öðru orðinu því, sem hann sagði í hinu.