25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (3819)

18. mál, nýbýli

Flm. (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er shlj. samnefndu frv., sem flutt var á síðasta þingi, en fékk þá enga afgreiðslu. Og má segja, að það hafi m. a. stafað af því, að allmikið var liðið á þingtímann, þegar það kom fram, svo að það var ekki beinlínis hægt að búast við afgreiðslu þess þá. Nú hefi ég von um, að hv. þdm. hafi kynnt sér frv. svo vel, að það hafi greiða göngu í gegnum þingið.

Ég hefi látið endurprenta þá merkilegu grg., sem fylgdi frv. á síðasta þingi, og þeir þdm., sem hafa kynnt sér hana, ættu að vera orðnir málinu það kunnugir, að ekki mun þörf á langri framsögu. Þó skal ég með örfáum orðum drepa á meginstefnu frv. Eins og hv. þdm. sjá á skýrslum þeim, sem fylgja grg. frv., þá hefir fólkinu alltaf verið að fækka í sveitunum á síðustu árum, en jafnframt hefir því fjölgað því örar í kaupstöðum og kauptúnum. Samkv. manntalsskýrslum 1920 og 1930 hefir á síðasta áratug fækkað fólki í sveitunum um 4768, en fjölgað í bæjunum um 9907. Hér er því um að ræða bersýnilegt ósamræmi í vexti kaupstaða og sveita, sem hlýtur að leiða til stórvandræða fyrir þjóðarbúskapinn í heild, ef þessu heldur áfram.

Ýmsir munu nú ef til vill segja, að það sé ekki álitlegt að fjölga býlum í sveitunum, þar sem svo örðugt gengur um sölu á afurðum landbúnaðarins. En því er nú eins háttað um sölu þeirra afurða, sem framleiddar eru af íbúum kaupstaðanna - sjávarafurða -, svo að það er enn jafnmikil ástæða til þess og verið hefir að auka lífsskilyrðin fyrir fólkið í sveitunum. Enda horfir það nú til mestra vandræða fyrir kaupstaðina, að fólkið streymir þangað úr sveitunum, þar sem mikið vantar á, að það fólk, sem þar er fyrir, geti fengið nægilega atvinnu. Fólksstraumurinn, sem við bætist, eykur á atvinnuleysið, og afleiðingin verður sú, að kröfurnar til ríkissjóðs verða æ háværari og háværari um aukin framlög til atvinnubóta í kaupstöðunum, til þess að unnt sé að framfleyta þar því fólki, sem þangað flyzt úr sveitunum, til viðbótar þeim atvinnuleysingjum, sem þar eru fyrir.

Við flm. þessa frv. teljum heppilegast að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann, og stöðva fólksstrauminn til kaupstaðanna, sem tekur atvinnuna af íbúum þeirra. Sú nauðsyn hefir aldrei verið brýnni en nú.

Í þessu frv. leggjum við aðaláherzlu á það, að reist verði sérstæð nýbýli fyrir hvern einstakling. En á ýmsum stöðum á landinu ætlumst við þó til, að lagt verði út á þá braut að stofna nýbýlahverfi með samvinnusniði, þar sem nýbýlamennirnir hafi samvinnu um ræktun landsins og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir fyrir býlin. Ég vil taka það fram, að í þessu efni ber að fara varlega á stað, til að byrja með, um stofnun þessara býlahverfa, og láta reynsluna leiða það í ljós, hvaða kostir fylgja þessu fyrirkomulagi. Ég vil aðeins benda á, að þessi hverfi ætti sérstaklega að hafa í nágrenni við kaupstaðina, og þá einkum hér á Suðurlandsundirlendinu, þar sem auðveldast er að framleiða mjólkurafurðir til sölu á innlendum markaði. Einnig virðist það vera mjög álitlegt, að þessi nýbýlahverfi hafi kornrækt með höndum, sem nú er í uppsiglingu hér á landi, og eru líkur til að hún veiti nokkurn stuðning við búskapinn á ýmsum stöðum í landinu.

Til framkvæmda í þessum atriðum leggjum við til: Í fyrsta lagi, að einstaklingum verði veittur styrkur til þess að reisa sjálfstæð nýbýli. Í öðru lagi, að samvinnufélög fái opinberan styrk til þess að stofna sambýlahverfi í sveitum, og í þriðja lagi, að reist verði svokölluð ríkisnýbýli og nýbýlahverfi, sem stofnuð eru á kostnað ríkissjóðs, en ríkið leigir eða selur einstaklingum. Við leggjum höfuðáherzluna á það tvennt, að einstaklingar verði styrktir til að reisa nýbýli, og að stofnuð verði samvinnubýlahverfi, þar sem hvorttveggja á að grundvallast á framtaki einstaklingsins. Ríkisnýbýli geta bæði verið einstök býli og sambýli. En ég vil taka það fram, að um stofnun ríkisnýbýla ætlumst við til, að farið verði hægt á stað. En hinsvegar er það rétt, að ríkið ríði á vaðið og finni sem fullkomnust form fyrir stofnun þessara býla, bæði einstakra býla og býlahverfa. Vitanlega er ætlazt til þess, að ríkisbýlin geti orðið eign þeirra einstaklinga, sem á þeim búa hvort sem það eru einstök býli eða býlahverfi.

Vitanlega þarf á talsvert miklu fé að halda til þess að hrinda þessum till. í framkvæmd, en ég álít, að það sé betur farið, að verja fénu til þess að halda fólkinu við störfin í sveitunum, heldur en að margfalda fjárframlögin úr ríkissjóði síðar, eða frá ári til árs, til þess að forða fólkinu frá hungri í kaupstöðunum, þegar það er þangað komið og getur enga atvinnu fengið þar.

Við leggjum til, að ríkisnýbýli verði reist fyrir nokkurn hluta af því fé, sem árlega er varið úr ríkissjóði til atvinnubóta. Með því vinnst tvennt: Atvinnulausa fólkið í kaupstöðunum getur fengið vinnu við að reisa býlin, og fólkið, sem vantar bústaði í sveitunum, fær skilyrði til þess að stofna þar heimili.

Ég hygg, að á þennan hátt geti þetta frv. komið að góðum notum bæði fyrir þá, sem búa í kaupstöðum og sveitum. Það væri að vísu ástæða til að ræða þetta mál ýtarlegar, en ég læt þetta duga með það fyrir augum, að hv. þdm. hafi kynnt sér grg. frv. Þar er bent á margt, sem nauðsynlegt er fyrir þá að kynna sér, áður en þeir taka afstöðu til málsins.