01.03.1935
Neðri deild: 17. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (3826)

29. mál, sandgræðsla

Flm. (Sigurður Einarsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að gera dálitla breyt. á yfirstjórn sandgræðslumálanna. Sú milliganga, sem Búnaðarfél. Íslands hefir haft, hverfur, ef þetta frv. verður að lögum. Ég er þeirrar skoðunar og margir aðrir, að hennar sé ekki þörf og að betra sé, að sandgræðslustjóri standi beint undir landsstjórninni. Ennfremur má benda á það, að eðlilegt virðist í framtíðinni að sameina embætti sandgræðslustjóra og skógræktarstjóra, þar sem báðir þurfa oft að vera á ferðalögum, og má oft haga því svo, að bæði skógrækt og sandgræðslu komi sama för að fullum notum án aukins tilkostnaðar. Hér er því möguleiki til þess að spara fé og koma á hagkvæmari skipun þessara mála.

Að öðru leyti get ég farið sömu orðum um þetta og málið næst á undan (frv. um námskeið fyrir atvinnulausa unglinga), að ég vænti þess, að hv. d. lofi því að ganga til 2. umr. og landbn., svo að það geti fengið frekari athugun þar.