01.03.1935
Neðri deild: 17. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (3827)

29. mál, sandgræðsla

Jón Sigurðsson:

Ég vil aðeins geta þess út af því, sem stendur í grg. frv., að mér er ekki kunnugt um, að Búnaðarfél. hafi fengið þessar 700 kr. frá sandgræðslunni, og hefi ég þó haft aðstöðu til þess að fara yfir reikninga félagsins. Ég veit, að þær eru að minnsta kosti ekki færðar sem tekjur hjá Búnaðarfél.

Ég hygg, að málið liggi þannig fyrir, að sandgræðslan hafi borgað þeim manni, sem hefir haft yfirstjórn sandgræðslunnar, ferðakostnað, þegar hann hefir verið á ferð í þarfir sandgræðslunnar. Ég held ekki, að þetta sé sérstaklega bundið við nafn Sigurðar Sigurðssonar fyrrv. búnaðarmálastjóra. Ég veit ekki betur en þetta hafi alltaf heyrt undir Búnaðarfél., án tillits til þess, hver sé búnaðarmálastjóri.