01.03.1935
Neðri deild: 17. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3830)

29. mál, sandgræðsla

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi nú raunverulega ekki miklu að svara hv. þm. V.-Húnv. Þó vil ég ekki alveg leiða hjá mér orð, sem hann lét falla í sambandi við Búnaðarfél. Ísl., sem voru að vísu lítið annað en endurtekning á ræðum hv. þm. frá síðasta þingi. Hv. þm. sagði, að það væri auðsjáanlega stefna stjfl. að eyðileggja Búnaðarfél. Ísl. með því að slíta smátt og smátt sundur þau bönd, sem tengir það við bændastétt landsins. En ég get nú bætt því við þau rök, sem ég færði fram gegn þeim rógburði á síðasta þingi, að það eru engar líkur til, að þær ákvarðanir, sem þá voru teknar, verði til þess að auka ófrið í Búnaðarfél. Þvert á móti eru góðar vonir um, að það verði til þess að koma á þeim starfsháttum, sem búnaðarþing hefir óskað eftir um mörg ár, en ekki tekizt að koma í framkvæmd.

Ég vildi taka þetta fram nú, að ég býst ákveðið við því, að þær umr., sem fram hafa farið milli stj. og fulltrúa Búnaðarfél., verði til þess að koma málum félagsins á heilbrigðan grundvöll og kveða niður aðdróttanir og hrakspár hv. þm. V.-Húnv. og annara, er tekið hafa í sama streng.