05.03.1935
Neðri deild: 20. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (3836)

34. mál, ættaróðal og óðalsréttur

Flm. (Jón Sigurðsson):

Ég skal ekki þreyta hv. d. með mjög langri ræðu, því þótt ekki hafi verið fyrr mælt með frv. þessu á Alþingi, er það orðið nokkuð kunnugt frá því er það var lagt fram á síðasta þingi, og því fylgdi þá ýtarleg grg. Þó get ég ekki látið hjá líða að drepa nokkuð á höfuðdrætti frv. og stefnu þess jafnframt og ég mun víkja að máli þessu almennt.

Sú skoðun mun vera orðin nokkuð almenn, að jarðeignamálið sé eitt af helztu málum þjóðarinnar og eitt af því, sem landbúnaðarins vegna þurfi nauðsynlega að taka til yfirvegunar og úrlausnar sem allra fyrst.

Í máli þessu hefir aðallega orðið vart þriggja stefna:

1) að hætta að selja þjóð- og kirkjujarðir, en kaupa smátt og smátt allar jarðir, með það fyrir augum að gera þær að ríkiseign, og að allir bændur verði leiguliðar ríkisins.

2) að láta sitja við það, sem nú er, eða gera a. m. k. sem allra minnstar breytingar.

3) að efla sjálfsábúð á ýmsa vegu, en jafnframt gera umbætur á sjálfseignarskipulaginu. Ég skal ekki fara mörgum orðum um hverja þessa stefnu eða skoðun fyrir sig, en ég skal byrja á því, sem ég nefndi fyrst, þ. e. a. s. þeirri stefnu, að ríkið kaupi smátt og smátt allar jarðeignir í landinu. Þeirri stefnu fylgja fyrst og fremst kaupstaðabúar, og þá sérstaklega þeir, sem teljast til flokks kommúnista og sósíalista. Er það eðlilegt og í samræmi við alla stefnu þeirra. En þó er því ekki að neita, að jafnvel meðal sveitamanna verður þessarar skoðunar vart á síðustu árum. Verður að líta á í því sambandi, hve mikla erfiðleika sveitirnar eiga nú við að stríða, og mun fylgið við þessa stefnu af þeim rótum runnið. Þeim sveitamönnum, sem stefnu þessa hafa aðhyllzt, hefir reynzt baráttan of örðug. Þeir eru búnir að missa trúna á framtíð sína og sinna, trúna á það, að geta haldið jörðinni sinni, og kjósa, úr því svo er komið, að reyna að bjarga því, sem bjargað verður, og gera sér fremur vonir um að fá að vera áfram á jörðinni með því móti, að ríkið kaupi, en ef hún er látin fara undir hamarinn. Það er því, ég vil segja, nálega ósæmilegt af hinu opinbera að nota sér þannig neyð bænda til þess að klófesta jarðir þeirra, í stað þess að hjálpa þeim til að halda þeim, svo þeir geti orðið sjálfstæðir bændur. Því að það er mín sannfæring, sprottin af reynslu, að þegar hagur bænda breytist til batnaðar, muni þeir ekki vilja selja jarðeignir sínar. Hvaða bóndi hefði viljað afhenda ríkinu jörðina sína fyrir jarðamatsverð á árunum 1929-1930?

Um stefnu þessa yfirleitt er það að segja, að hún felur í sér heimild til að tekið verði fram fyrir hendur einstaklingsins. Bóndinn er ekki lengur frjáls og óháður konungur í sínu ríki, en verður háður ríkisvaldinu. Ríkisvaldið getur sett honum reglur og fyrirmæli, sem á margvíslegan hátt geta svipt hann og hans nánustu mikilsverðum réttindum. Á þetta er sérstaklega lítandi fyrir bændur, auk þess, sem reynslan hefir sýnt það raunverulega fyrr og síðar, og kom þó berlegast í ljós eftir að kirkju- og þjóðjarðasalan hófst, að bændur, sem ekkert höfðu gert til umbóta á jörðum sínum meðan þeir voru leiguliðar ríkisins, hófu stórfelldar framkvæmdir og umbætur bæði í jarðabótum og húsaskipun, svo stórfelldar, að eigi hafði áður þekkzt neitt svipað. Og enn er það svo, að þekkja má úr þær jarðir, sem eru í eign hins opinbera, á því, hve miklu verr þær eru setnar en nágrannajarðirnar, sem eru í sjálfsábúð, þótt ytri skilyrði séu hin sömu eða mjög svipuð. Frá fjárhagslegu sjónarmiði ætti þetta að nægja til þess að Alþingi hugsaði sig tvisvar um áður en það gengi inn á breytingar í þessa átt.

Þá liggur fyrir að athuga þann grundvöll, sem við höfum staðið á til þessa, og hvort eigi er hægt að byggja á sjálfseignarskipulaginu framvegis sem hingað til. Ég gat um það áðan, að til væru nokkrir menn, sem ekki æsktu breytinga frá því, sem nú er í þessum málum. Þetta tel ég vera ranga stefnu, og þykist ég styðjast í því efni við reynsluna.

Með því skipulagi, sem nú er, hefir það orðið svo, sérstaklega um og eftir stríðið, að á mörgum jörðum í sjálfsábúð hafa verið gerðar stórumbætur. Eigendurnir hafa lagt í þær mikið fé, bæði erfðafé, gróðafé og lánsfé. Afleiðingin hefir orðið sú, að jarðirnar hafa stórhækkað í verði, og það svo mikið, að þegar börnin hafa átt að taka við af foreldrunum, þá hefir þeim í mörgum tilfellum reynzt það ókleift, og jörðina, sem búið var að bæta og prýða, hefir orðið að láta af hendi til vandalausra, en börnin hrökklazt burtu. Hinn nýi kaupandi hefir komizt í stórmiklar skuldir við jarðakaupin, sem hann hefir búið að alla æfi.

Þannig gengur þetta nú kynslóð eftir kynslóð, að bóndinn eða börn hans selja jörðina; nýr ábúandi kaupir og stofnar til stórmikilla skulda, sem hann oft er mikinn hluta æfi sinnar að greiða. En á sama tíma fara þeir aðilar, sem við söluna hafa orðið staðfestulausir, til kaupstaðanna með fjárhlut sinn. - Jarðeignamálið grípur stórmikið inn í það atriði, sem nú er eitt hið hættulegasta fyrir sveitirnar, nfl. flutning fjármagnsins úr sveitunum til kaupstaðanna. Fyrir og um aldamót var það svo, að nálega allt það fjármagn, sem í sveitunum myndaðist, stöðvaðist þar. Það safnaðist fyrir og varð til þess, að í hverri sveit, að segja mátti, myndaðist talsvert mikill auður, mikilsvert bakhjarl þegar hrun og óáran dundi yfir. - Þetta hefir allmjög breytzt á síðustu tímum, og á þann veg, að þetta fjármagn, sem áður var í sveitunum, hefir fjarað burt, og það fé, sem myndast, þar sem um gróða er að ræða, flyzt úr sveitunum jafnóðum. Afleiðingin er sú, að ekki er annað sýnna en að mörgum sveitarfélögum muni blæða til ólífis fjárhagslega. - Í annan stað hefir það reynzt svo, að hægt hefir verið að veðsetja jarðirnar nær ótakmarkað. Af því hefir leitt, að á ýmsar jarðir hafa hlaðizt svo miklar skuldir, að nálega er óbúandi á þeim. Hafa þá bankar eða aðrar lánsstofnanir orðið að yfirtaka þær, eða þá að þær hafa lent í braski og farið í niðurníðslu, til tjóns fyrir sveitarfélagið og landbúnaðinn í heild. - En sem betur fer, liggur mér við að segja, er víðar pottar brotinn en hjá okkur Íslendingum í þessu efni. Nágrannaþjóðir okkar eiga við svipaða örðugleika að stríða að ýmsu leyti. Það er þess vegna nokkur ástæða til að skyggnast um og athuga, hvað nágrannaþjóðirnar gera og hafa gert til þess að bæta úr þessum vandkvæðum hjá sér.

Um Norðmenn er það alkunna, að þeir hafa æfagamlan óðalsrétt, frá því um eða fyrir landnámstíð, sem þeir svo hafa varðveitt fram á þennan dag. Þennan óðalsrétt hafa Norðmenn metið svo mikils, að þegar þeir fyrst settu hjá sér stjórnarskrá, var eitt atriðið í henni það, að óðalsrétt mætti aldrei nema úr l. Norska bændastéttin leit svo á, að þetta væri hyrningarsteinninn undir velferð landbúnaðarins, og þar af leiðandi bæri að taka þetta ákvæði upp í sjálfa stjórnarskrána. Einmitt af því að óðalsréttur Norðmanna er svo æfagamall, hefir hann ekki verið í samræmi við kröfur nútímans að öllu leyti og vantað ýms ákvæði, sem nú verða að teljast nauðsynleg, og hefir það komið Norðmönnum sjálfum í koll. Má t. d. í því sambandi benda á ákvæðið um, að heimilt væri að veðsetja jarðirnar ótakmarkað, að heita mátti. Afleiðingin varð sú, að við sjálft lá, að fjöldi norskra óðalsbænda yrði að flæmast frá jörðum sínum, og árið 1933 varð Stórþingið að grípa inn í og samþ. sérstök lög óðalsbændum til bjargar.

Þjóðverjar hafa nýlega sett hjá sér óðalsrétt, sem að ýmsu leyti er merkilegur, þótt hann sé miðaður við aðra staðháttu og ólíkt stjórnarfar.

Þetta ætti að vera mönnum bending um það, að aðrar þjóðir viðurkenna nauðsyn óðalsréttarfyrirkomulagsins til þess að tryggja tilveru og framtíð bænda sinna og til að efla tryggð þeirra við jarðir sínar, í því rótleysi og hringiðu, sem er ríkjandi víðast hvar í heiminum.

Það, sem við í þessu frv. leggjum sérstaklega áherzlu á, og höfum þó ekki gengið lengra í en það, að ekki er um skyldu, heldur heimild að ræða, án allrar þvingunar, er það, að þær jarðir, sem nú eru í sjálfsábúð, haldi áfram að vera það, og jafnframt að skapa möguleika fyrir því, að jarðir, sem nú eru í eign hins opinbera, geti orðið eign einstaklinga og gerðar að óðalsjörðum, sem haldist í sjálfsábúð um aldur og æfi.

Ennfremur er það tilætlun okkar að koma í veg fyrir, að óbærilegar veðskuldir safnist á jarðirnar, þannig að ekki beri sig búrekstur á þeim. Á þessu eru nokkrir örðugleikar, því að land vort er snautt að rekstrarfé, en oft þarf að leggja fram talsvert fé til umbóta og endurbóta á jörðum. Hinu má þó ekki gleyma, að það er annað en björgulegt landbúnaðinum, að bændur hlaðist svo skuldum, að þeir verði að flæmast af búum sínum og njóti ekki verka sinna.

Þá er það tilgangur okkur að takmarka fjárstrauminn úr sveitunum með því að tryggja, að sem mest af aflafé bænda varðveitist sem skuldlaus arfur ættarinnar. Viljum við í þessum tilgangi sporna við því, að sjálfseignarbændur þurfi að kaupa ábýlisjarðir sínar af meðerfingjum sínum, þannig, að hver ættliður stofni sér með því í skuldir, sem hann er alla æfi að vinna sig úr. Eins viljum við heimila bændum að gefa peninga eða önnur verðmæti til ævarandi eignar þeirri jörð, þar sem þeir eru bornir og barnfæddir, eða jörð, sem þeir hafa tekið ástfóstri við. Þannig gæti ýmsum jörðum safnazt allmikið fé, sem komið gæti síðari ábúendum að miklum notum.

Nú er það altítt, að bændur verði að byrja með tvær hendur tómar, verða þeir þá að kaupa mikið af þeim bústofni, sem þeir þurfa, og búa við skuldafé frá upphafi. Þetta setur sitt mark á búreksturinn og veldur því, að efnilegir og dugandi menn kveinka sér oft við því að leggja út í búrekstur og treysta sér ekki til að berjast við skuldabaslið. Því myndi það verða mikil hvöt dugandi mönnum til að halda kyrru fyrir í sveitunum, ef hægt væri að koma á slíku fyrirkomulagi, að bændur tækju ekki aðeins við snauðum jörðunum, heldur myndaðist með þeim smám saman nokkurt fylgifé, sem ekkert hvíldi á.

Þá er tilgangur okkar að sporna við því, að bændur geti með ónytjungshætti sóað því og eytt, sem þeir taka við. Eru þess þó nokkur dæmi, að slíkir taki við af athafnamönnum og leggi allt í rústir, hlaði svo upp skuldum, að börn þeirra, þótt mannvænleg kunni að vera, verði að flæmast frá öllu saman. Ef tryggja á það, að fjármagnið haldist í sveitunum, er sjálfsagt að stuðla að því, að ekki geti fyrir komið, að einn maður eyðileggi strit og starf margra kynslóða.

Þá er síðasta atriðið, sem ekki er minnst um vert, að vinna á móti rótleysi því, sem gripið hefir fólk í sveitum, að glæða og þroska heilbrigðan ættarmetnað og tryggð bænda við föðurleifð sína. Þetta er þýðingarmikið, þegar þess er gætt, að landbúnaðurinn gefur hvorki eins skjótar tekjur né góða vexti af höfuðstól þeim, sem í hann er lagður, og ýmsar aðrar atvinnugreinar. Að vísu líta margir svo á, að ef batna tekur um afurðasölu bænda og allan hag þeirra, þá muni hverfa útstreymið úr sveitunum, og skal það játað, að þetta er mikilvægt atriði. Það hefir átt eðlilegan þátt í útfiri fólks úr sveitunum, hve afkoma hefir verið þar erfið á síðari tímum. En þótt hagur manna batnaði þar eitthvað á næstunni, þá yrði það ekki einhlítt til að taka fyrir þennan straum. Bændur þurfa að leggja á sig meiri vinnu og erfiðari en margir þeir, er önnur störf vinna. Má því búast við, að ýmsir kjósi sér léttari sýslanir, og þá ekki sízt áhugasamasta fólkið, sem þykir of seintekinn gróði af því að stunda búskap. Hagsmunavonin ein er því ekki nógu sterk taug til að halda í sveitunum því fólki, sem þær sízt mega missa. Til þess þarf önnur öfl, og þau ber okkur að treysta. Því er svo farið, að mörgum góðum manni og konu í sveitum landsins búa í brjósti þættir úr betra efni en gróðahyggjan er. Það er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til, eins og skáldið segir. Þennan streng verður að styrkja og taka í þjónustu landbúnaðarins. Honum veitir ekki af, að í hans þjónustu séu tekin öll góð öfl, ef vel á að fara. Bóndi, sem býr á jörð forfeðra sinna, stendur fastari fótum í sveit sinni en hinn, sem flytur af einni jörð á aðra og hvergi festir rætur. Hann ber í brjósti aðrar tilfinningar til sveitarinnar og er líklegri til að haggast ekki, þótt erfiðlega blási.

Ég hefi þá gert grein fyrir aðalstefnu okkar flm. En ég vil geta þess hér, að það er ekki hugsun okkar að færa landbúnaðinn í nokkrar viðjar. Frv. gerir ráð fyrir fullkomlega nýjum þroskunarmögul., svo sem skiptingu jarða og því, að bændum geti fjölgað á eðlilegan hátt, jafnframt því sem jarðirnar eru bættar. En varnagli er sleginn við því, að jarðirnar séu bútaðar sundur, svo að ekki sé á þeim búandi, eins og orðið hefir sumstaðar erlendis. En því munum við ekki þurfa að kvíða fyrst um sinn, því að hér er landrými nægilegt.

Frv. þetta var lagt fyrir búnaðarþing, og allshn. þess hefir haft það til meðferðar. Búnaðarþingið og allshn. þess mæltu með frv. í einu hljóði.

Þetta frv. er frumsmíð, og eins og allar slíkar stendur það auðvitað til bóta. Munum við því taka til greina hverja góða og velviljaða bendingu. Vil ég svo fela frv. velviljaðri athugun Alþingis, og legg ég til, að frv. verði vísað til landbn.