05.03.1935
Neðri deild: 20. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (3839)

38. mál, bygging og ábúð jarða, sem eru almannaeign

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi, og tel ég ekki ástæðu til að fara um það mörgum orðum, enda sýndi hv. 7. landsk. í framsöguræðu sinni um frv. til l. um ættaróðal fram á galla þá, sem nú eru á fyrirkomulaginu um ábúð jarða. Nú er ekki nema liðlega helmingur jarða á landinu í sjálfsábúð. hinar eru í leiguábúð. Og til þess eru engar líkur, að allar jarðir landsins komist í sjálfsábúð í náinni framtíð.

Þetta frv. er tilraun til að finna leið til þess, að hinar 754 jarðir ríkis og kirkju, og e. t. v. nokkrar jarðir opinberra sjóða, komist í þá ábúð, að þeir, sem á þeim búa, njóti þeirra hlunninda, sem hv. 7. landsk. vill afla með frv. sínu um óðalsrétt.

Eftir að 10. gr., sem var eini ásteytingarsteinn frv. á síðasta þingi, er niður felld, ættu menn að geta orðið sammála um að leyfa málinu að fara í n. Ég legg til, að því sé vísað til landbn.