08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3855)

48. mál, fyrning verslunarskulda

Flm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Það er gamall kunningi, sem hér kemur aftur fram. Á undanfarandi þingum hefir þetta frumv. legið frammi að nokkru leyti í sama formi, og er nú aðeins aukið af nokkrum breyt., eftir till. þeirra manna, sem um fjármál vilja fjalla. Breyt. þessar eru ekki meiri en nauðsynlega þarf, ef hægt á að vera að stemma stigu fyrir áframhaldandi söfnun verzlunarskulda, og ég veit ekki betur en allir hafi þótzt vera sammála um nauðsyn þess. En svo undarlega hefir við brugðið, að ef til alvöru hefir komið, þá hafa þeir ekki viljað vera með. Þetta er þó ekki sagt til allra jafnhliða. Fulltrúar einnar stéttar hafa sýnt, að þeir vildu alvöru í þessu máli og að Alþingi setti lög um þessi mál. Þessi stétt er bændastéttin.

Það má segja, að Alþingi hafi hlynnt að bændastéttinni, og svo lítur út, sem það hafi þótzt gera nóg, þó það svo lofi þeim, sem höfðu safnað skuldum, að leika lausum hala og safna skuldum á ný. En þetta er ekki rétt umhyggja fyrir bændum. Það er ekki nóg að hjálpa til að létta því af um stund, sem þegar er skollið á. Það er ekki síður áríðandi að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í, og girða fyrir þau óhöpp og það fár, sem dunið hefir yfir þessa stétt, sumpart af mannavöldum og sumpart á annan hátt.

Það er vitanlegt og hefir sýnt sig, að söfnun verzlunarskulda getur verið bæði sjálfráð og ósjálfráð, og getur þar margt komið til greina, en sjálfsagt, að því er í manna völdum stendur, að girða fyrir, að það geti borið til, að Alþ. og ríki þurfi að bjarga nokkurri stétt á sama hátt og með annari eins áþján og kreppulánin eru. Hv. þdm. vita þetta, þó að þeir hafi ekki á undanfarandi þingum kynnt sér þessi mál og skellt við þeim skollaeyrunum. - Hér er ekki farið fram á neina byltingu - ekki farið fram á, að þær skuldir, sem eru orðnar fjögra ára, fyrnist þegar í stað, heldur aðeins hert á ákvæðunum og farið fram á, að helmingi styttri tími nægi til fyrningar.

Enginn maður, með þekkingu á þessum málum, mun hafa á móti því, að ef menn vilja ekki, að haldið sé áfram á skuldasöfnunarleiðinni, þá sé meira en nóg að láta liða tvö ár til fyrningar; en hér geta það verið meira en tvö ár, því fyrning verkar frá 1. janúar eftir að skuldin er stofnuð, og sé skuldin stofnuð á miðju ári, getur hún þannig orðið tveggja og hálfs árs. Þeir, sem vilja fara inn á þá braut, að stemma stigu fyrir áframhaldandi skuldasöfnun, ættu að fylgja þessum ákvæðum, ef þeir ætla ekki að gefast upp. Og það mætti í alvöru spyrja að því, hvort þeir menn vilji í raun og veru bjarga, og á hvern hátt þeir vilji bjarga, sem ekki vilja fara þessa leið. Og á hvern hátt hafa hinar ýmsu stofnanir viljað bjarga? Þeim stofnunum, sem almenningur hefir leitað til, hefir mjög fatazt um átök í þessum efnum, hvort sem það hafa verið bankar, S. Í. S. eða verzlunarráð Íslands. Þessar virðulegu stofnanir gáfu álit til allshn. og töldu óráðlegt að lögleiða þetta. Ástæðurnar voru nokkuð mismunandi, en hjá verzlunarráði Íslands, sem viðurkenndi frv., var ástæðan sú, að það taldi ekki rétt að lögleiða þetta, ef ekki væri um leið og jafnhliða séð fyrir því, að greiðara yrði um innheimtu skulda en verið hefði og fljótvirkari aðferðir teknar upp í þeim atriðum. Um þetta mál hefði mátt hafa samvinnu, ef menn hefðu viljað [eyða í hndr.] sem sé ákvæði þau, sem felast í 4. gr. frv. um dóma í þessum efnum, þar sem auk vissra undir venjulegum kringumstæðum uppfylltra frumskilyrða, þ. e. þeirra, að til skuldanna hafi verið stofnað, er ákveðið, að skuld megi ekki vera hærri en 500 kr., og ég tel það rétt að fara ekki inn á þá braut að hafa upphæðina háa eða að hafa háar skuldir einstaklinga, þar sem það væri mjög óeðlilegt og óheilbrigt að gefa einstaklingnum tækifæri til að stofna til stórskuldar í einn vetfangi. Þessi upphæð - 500 kr. - er tiltekin af því eðlilegt þótti og sjálfsagt að miða við þá upphæð, er sáttanefndir höfðu áður heimild til að fyrna eða gefa eftir, og hefir hún þó hvorki hæfni né tök á þessum hlutum eins og dómari til úr skurðar. Þótti eftir atvikum rétt að mæta þessari kröfu um, að upphæðin væri bundin við 500 kr. Tel ég þar með fullnægt þeirri kröfu, sem færð var gegn máli þessu og var á nokkrum rökum byggð.

Allar verzlanir þykjast vilja stemma stigu fyrir skulda- eða lánsverzlun, og fjöldi manna, sem hefir kynnt sér þetta frv., er því fylgjandi. Ég er kunnugur ýmsum úti á landi, sem fást við verzlun, bæði einstaklingum og kaupfélagsstj., og þeir hafa ótvírætt látið í ljós við mig, að þeim þætti þarft frv., m. a. til þess þó ekki væri annað en skjóta á þennan hátt slagbrandi fyrir skuldasöfnun, svo ekki væri gengið lengra á þann sama óhappaveg og að undanförnu, sem sé veg skuldaverzlunar. En það lítur ekki út fyrir, að fulltrúar þessara stofnana á Alþingi og hér í Rvík veiti þessari rödd fulla áheyrn. T. d. kaupfél., þau hafa ekki fengið áheyrn hjá S. Í. S., sem hefir lagt á móti þessu frv. Það álit getur ekki talizt heilbrigð hugsun, nema það sé lagt til grundvallar, að nauðsynlegt sé, að bændur skuldi, eða sú stofnun vilji láta bændur skulda. Nú hafa margir bændur losnað við mikið af skuldum sínum á þann hátt að koma þeim í kreppulán. Þá er það spurningin, hvort þessir aðilar vilja láta þá byrja aftur að safna skuldum. Ef svo er ekki, þá er óheilbrigt, að þm. skuli ekki hlusta á þetta mál, og það má ekki henda, að bændur séu með lánsverzlun látnir byrja aftur samskonar skuldasöfnun. Það hefir ekki tekizt að nota heimild eða koma fram lögum um fyrningu verzlunarskulda frá 1930 hvað snertir sveitabændur, það hefir ekki tekizt, og er það sumpart að kenna slóðaskap landsstjórnanna og sumpart stjórn Búnaðarbankans, því hann hafði heimild til að leggja fram fé í þessu skyni. Á því er enginn vafi, að ýmsir sparisjóðir og aðrar lánsstofnanir mundu fúsar á að hjálpa, og það verður áreiðanlega að gera eitthvað í þessu skyni. Það er óhjákvæmileg nauðsyn, eins og ég hefi margbent á, að koma verzlunarmálunum í gott lag, sem ekki verður með öðrum ráðstöfunum frekar gert en að fyrirbyggja lánssöfnun frá ári til árs, svo ekki lendi allt í sukki eins og verið hefir. Bankarnir halda því fram, að þeim geti stafað hætta af frv. þessu vegna lánabreytinga og ásókna um lánveitingar, en það er alls ekki meiri hætta að veita lán nú en var meðan fyrningartíminn var 4 ár, sem sagt er, að sé ekki ræktur í framkvæmdinni, og ef svo fer um þennan fyrningartíma, þá ætti ekki nein hætta að stafa frá honum. Það eru ekki heldur tekin ráðin af bankastjórunum um að veita lánin. Þeir geta neitað lánum, ef þeim sýnist svo, eftir sem áður. Þessi lán bændanna eru ekki heldur orðin svo mörg eða margbrotin, helzt einstaka víxill, og töp þeirra hafa sízt verið vegna verzlunarskulda. Og það hefir ekki verið svo, að bönkunum hafi verið íþyngt með lánbeiðnir frá almúganum í sveitum landsins. En þeim virðist koma ókunnuglega fyrir sjónir að menn skuli vilja stemma stigu fyrir öðrum skuldasöfnunum en í bönkum. Þeim ætti beint að vera hagur að því að menn greiði skuldir sínar, en safni þeim ekki, því það styður að því, að viðskiptin séu á heilbrigðum grundvelli og komist í gott lag, sem er öllum til góðs, og allir ættu að styðja að því, að viðskiptin í landinu verði heilbrigð.

Frv. þetta er borið fram sem krafa frá miklum hluta landsmanna um, að eitthvað sé gert í þessum efnum, hvað sem hér kann að verða sagt eða gert. Það kemur fram sem krafa frá þeim, sem vita bezt, hvar skórinn kreppir að, frá stórum hluta bændastéttarinnar, sem hefir skorað á Alþ. samþ. frv. þetta eins og það er nú orðið. Vil ég taka það hér fram vegna þeirra, sem ekki vilja ræða málið, en telja sig fulltrúa bænda, að í fyrra var á landsfundi bænda gerð samþykkt um áskorun á Alþ. samþ. frv. þetta með brtt., sem nú eru teknar til greina. Nú í ár hefir komið samskonar krafa frá búnaðarþinginu, sem enginn mun neita, að er skipað fulltrúum bænda, þó að kosning þeirra sé ekki eftir beinum reglum, - þessir fulltrúar hafa hugsað málið og athugað og vita, hvað þeir vilja, enda verður að segja, að málið hefir verið tekið til athugunar annarsstaðar frekar en hér á Alþ., þar sem minnst hefir verið um það hugsað og því verst tekið. Búnaðarþingið hefir skorað á Alþ. samþ. frv. þetta, og við flm. þess teljum ekki ná neinni átt að láta undir höfuð leggjast að samþ. það nú, þó ekki vinnist tími til að afgr. það nú áður en þingstörfum verður frestað, eins og lýst hefir verið yfir af stjórnarblöðunum að eigi að gera, en þó koma saman aftur og halda áfram störfum. Vona ég þá, að hv. þm. hafi væntanlega tíma til að athuga málið með sjálfum sér og heima í héraði, því flestir eiga einhversstaðar kjördæmi, annaðhvort til sjávar eða sveita; en sérstaklega snertir þetta mál sveitirnar, sem margir hv. þm. hrósa sér af að vera fulltrúar fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. vænti ég þess, að hv. þm. hafi lesið frv. og séð, að það er ekki auðvelt að taka þetta mál nánar en í því er gert, eða finna aðrar leiðir, sem eru líklegri út úr ógöngunum, því hér er tekið fullt tillit til þeirra stofnana, sem njóta þessara laga eða reka nú viðskipti á einhvern hátt.

Ég skal taka það fram, sem ljóst er, að auk fyrningar skulda er tekið hér inn í frv. ákvæði um að banna að reikna vexti af verzlunarskuldum. Ég þarf ekki að rökstyðja það, sem öllum er ljóst, að það hefir valdið einna mestri óheilbrigði og glundroða í viðskiptalífinu, að verzlanirnar hafa komizt upp með að taka okurvexti ofan á alla álagningu.

Býst ég við, að hvar sem borið er niður í sveit, geti hv. þm. sannfært sig um, hversu vinsæl þessi okurvaxtataka er þar meðal almennings. - Leyfi ég mér svo að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.