08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (3867)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Jónas Guðmundsson:

Mér finnst það mjög óþarft af hv. þm. V.-Sk. að vera hér á hverju þingi að telja upp, hvaða sveitarfélög það séu, sem eiga ógreitt berklavarnagjald í ríkissjóð. Nú veit þessi hv. þm. það sjálfsagt vel, að það eru öll sveitarfélög, sem skulda meira og minna einhversstaðar, og því ræður hending ein, hvort skuldin liggur þarna eða annarsstaðar. Þau, sem skulda ríkissjóði berklavarnagjald, hafa bara greitt aðrar skuldir annarsstaðar, en þau, sem ekki eru í þessari skuld við ríkissjóð, skulda einhversstaðar í staðinn. Sennilega er þetta eins í því sýslufélagi, sem hv. þm. V.-Sk. veitir forstöðu. Og þessi upptalning hv. þm. er óviðkunnanleg og í alla staði óviðeigandi.

En um það, að Neskaupstaður eigi eftir að greiða berklavarnagjald fyrir mörg ár, er það að segja, að kaupstaðurinn hefir ekki lokið greiðslum, en hann hefir ávísað upp í greiðslurnar innieign hjá ríkissjóði fyrir það fátækraframfæri, sem hann hefir lagt út fyrir aðrar sveitir á undanförnum árum og ekki fengið endurgreitt.

Annars vil ég segja það um frv. þetta, að það mun bráðlega koma fram frv., sem landlæknir hefir samið, og verða lagt fram í sambandi við önnur tryggingarmál; fjallar þar um greiðslu á berklakostnaði og öðrum kostnaði af langvarandi sjúkdómum. Frá mínu sjónarmiði skiptir þetta frv., sem hér liggur fyrir, litlu máli, og virðist mér það lítt til bóta horfa. Nú eiga sýslufélögin að greiða 2 kr. á íbúa, en eftir frv. eina kr. Fyrir sýslufélagið, sem hv. 1. flm. veitir forstöðu, mun þetta aðeins nema einu þús. kr., að ég hygg, og sjá þá allir, hvort slík löggjöf getur hjálpað sýslufélögum svo að nokkru nemi.