08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3870)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Bergur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk., aðalflm. þessa frv., sagði, að það mundi vera daufari tilfinningin hjá mér fyrir þessu máli vegna þess, að þau sýslufélög, sem ég veiti forstöðu, séu meðal vanskilamanna. Ég held, að þetta sé rangt hugsað og að ég hafi meiri ástæðu til að hafa sterkari tilfinningu vegna þess, að nefnd sýslufélög hafa ekki megnað að standa í skilum. Og þar sem ástæðan til þess liggur í því, að hreppar gátu ekki staðið í skilum við sýslufélögin, þá geta þau ekki náð inn nema með því að ganga þeim mun lengra í álögum á þá hreppa, sem enn berjast við að standa í skilum. Það er bæði röng og erfið leið, og hlýtur þess vegna oddviti slíks sýslufélags að vilja ganga inn á, að reynt sé í framtíðinni að létta gjöldunum að einhverju leyti af sýslufélögunum. Um það er ég honum sammála og býst við, að flestir séu.

En það er önnur hlið á þessu máli, sem verður deiluatriði. Hún er sú, hvort eigi að íþyngja ríkissjóði eða ekki í sambandi við þetta. Þess vegna bar ég fram þá till., að málinu yrði vísað til fjhn., en ekki allshn. Berklavarnagjaldið er, eins og kunnugt er, ekkert annað en nefskattur, 2 kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu, að meðtöldum gamalmennum og ungbörnum. Þess vegna er það verkefni fyrir fjhn., en ekki allshn., að fást við það, hvort tiltækilegt sé fyrir ríkissjóð að gefa eftir þetta gjald eða ekki. Ég vona, vegna þeirra sýslufélaga, sem ég veiti forstöðu, að ríkissjóði sé þetta fært. Hinsvegar vil ég ekki taka á mig þá ábyrgð að skella ennþá ranglátara gjaldi á þjóðina í staðinn. En við því megum við búast á þeim erfiðleikatímum, sem nú standa yfir.

Hv. þm. sagði, að ríkið hefði tök á því að ná þessu gjaldi hjá sýslu- og bæjarfélögum. Ég mótmæli því, að ríkissjóður geti á nokkurn hátt tekið undir sínar hendur fé til þessarar greiðslu meðan sýslufélögin standa ekki í skilum. Ég veit ekki af neinum greiðslum til sýslufélaga og bæjarfélaga, sem ríkinu sé leyfilegt að halda til baka. T. d. alls ekki ellistyrksframlagið, því að það fer í sérstakan sjóð. Og það þarf hv. þm. ekki að halda, að nokkurt bæjar- eða sýslufélag leiki sér að því að greiða ekki gjald eins og þetta í ríkissjóð. Nei, það er blátt áfram af því, að gjaldstofna vantar.