21.12.1935
Sameinað þing: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

137. mál, fjáraukalög 1933

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hér eru ekki margir áheyrendur og nokkuð áliðið nætur, svo að ég ætla ekki að tala hér langt mál. En ég get ekki látið vera að segja hér nokkur orð út af ræðu hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Snæf., sem hér hefir talað sérstaklega um 9. nóv. 1932 og þá samlíkingu, sem hann hefir gert við viðburðina í dag. 9. nóv. 1932 er dagur, sem er merkur í sögu verkalýðsins hér. Og það er líka dagur, sem merkari er í sögu Sjálfstfl. en á nokkurn annan hátt.

Þá um haustið hafði undirbúningur verið gerður af atvinnurekendum hér í bænum til þess að lækka stórkostlega kaup verkalýðsins hér á öllum sviðum; ekki aðeins óbreyttri verkamanna, heldur sjómanna, verkakvenna og iðnaðarmanna, og sendu bréf til ýmissa félaga í þessu skyni. Nokkru áður en búizt var við aðalhríðinni, sem átti að vera um áramótin, þú skeður það undur, að bæjarstj. Reykjavíkur, sem á að stjórna bænum til hagsmuna fyrir alla menn, sem í honum lifa — ekki sérstaklega fyrir atvinnurekendur eða þá, sem mest hafa fé undir höndum —, þá skeður það undur, að hún tekur svo algerlega taum atvinnurekenda, að með ásettu ráði gerir hún það, sem í hennar valdi stendur, til þess að hjálpa áfram þeirri kauplækkun, sem ákveðin var af atvinnurekendum í bænum. Hún ræðst á garðinn Þar, sem hann er lægstur, fátækustu verkamennina í bænum, sem verða að nota atvinnubótavinnu sér til lífsframdráttar. Hún neitaði að fjölga í vinnunni og krafðist, að þeir lækkuðu kaupið. Það var auðvitað, að slíkt svívirðilegt tilræði gagnvart fátækasta fólkinu í Reykjavíkurbæ myndi hljóta að vekja mikla reiði. Og það er satt að segja undursamlegt, að það skipulag var á verklýðsfélagsskapnum hér í bæ, að ekki varð meira úr óeirðum út af þessu máli. Það er haldinn skipulegur fundur og farin kröfuganga til bæjarstj. og ríkisstj. um að fjölga í atvinnubótavinnunni og halda kaupinu óbreyttu. En þegar það fæst ekki, þegar ákveðið er, að kaupið lækki og samþ. á bæjarstjórnarfundi, þá er hér um það sama að ræða og í hverri annari vinnudeilu, því að þarna er bærinn ekkert annað en stærsti atvinnurekandinn. Þá er líka gert verkfall af mönnum í atvinnubótavinnunni til þess fyrst og fremst að hlusta á, hvernig þessir fulltrúar bæjarmanna í bæjarstj. standa sig í máli þeirra, hvort það væri virkilega satt, að fulltrúar Sjálfstfl. væru að ráðast á fátækasta fólkið í bænum með því valdi, sem þeim er gefið í bæjarstj. til þess að hjálpa öllum bæjarmönnum, en ekki til þess að liggja á því lúalagi að reyta allt af þeim, sem fátækastir eru. Það, sem skeður á þessum fundi, er það, að haldnar eru margar æsingaræður af hálfu sjálfstæðismanna, sem heyrast í gjallarhornum til manngrúans fyrir utan. Vil ég fyrst og fremst nefna hv. 3. þm. Reykv. og þær svívirðingar, sem hann lét dynja á verkamönnum og þeim, sem tóku þeirra málstað. Þetta verður til þess, að sá hluti af þessum áheyrendum, sem voru æstastir, sem auðvitað voru kommúnistar, ráðast inn fyrir grindurnar og gera ómögulegan bæjarstjórnarfundinn. Það var vitað, að Alþýðuflokkurinn hugsaði sér ekki að hleypa upp fundinum á nokkurn hátt, og Alþýðuflokksmenn stóðu ekki fyrir þessu.

Við það að bæjarstjórnarfundinum var hleypt upp var enginn meiddur. Bæjarfulltrúarnir komust undan um bakdyr, án þess að þeir meiddust á neinn hátt. T. d. hv. 3. þm. Reykv., sem þá var einna mest hataður maður í bænum af hinum fátækari hluta borgaranna, komst burt ómeiddur. Eftir eru þá Alþýðuflokksþm. og núv. borgarstjóri; man ég ekki, hvort það voru fleiri fulltrúar Sjálfstfl. Þau áflog og ryskingar, sem síðan verða, eru eingöngu vegna þess, að lögreglan reyndi að ryðja salinn. (JakM: Hver stjórnaði því?). Það getur þm. sagt sér. Og eftir að salurinn er ruddur og fjöldi verkamanna er blóðugur og barinn og komið er út fyrir, er það, að lögreglan ræðst aftur á manngrúann. Þá er tekið á móti. Ég verð að segja fyrir mitt leyti — og ég hefi borið það fyrir rétti og mun standa við það hvar sem er —, að ég sé ekki, að fjöldi af verkamönnum verði fyrir árás að saklausu, af hálfu lögregluliðsins, án þess að ég álíti það rétt, að þeir verji sig, þó að það sé gegn lögreglunni. Hver, sem verður fyrir óréttmætri árás, hann hefir rétt til þess að verja sig með samskonar vopnum og í árásinni er beitt. (GÞ: Og stólfótum!). Já, með stólfótum líka.

Eftir bardagann, sem þarna átti sér stað, þar sem margir meiddust, bæði verkamenn og lögregluþjónar, hvar sest þá, að uppreisn sé í aðsigi? Allt var rólegt. Og eftir að sjálfstæðismenn höfðu gegnið inn á að halda kaupinu óbreyttu, fer hver maður til sinnar vinnu og engin deila er lengur. Þegar vinnudeilan er búin, þá taka sjálfstæðisherrarnir, sem stóðu fyrir kauplækkunartilrauninni, eins og hv. þm. G.-K. (ÓTh), að bjóða út liði. Og til hvers annars en að nota tækifærið seinna til þess að ná því takmarki, sem ekki náðist í fyrra skiptið? Hverskonar lið var það? Ég mun geta sannað það fyrir utan þinghúsið, að fjöldi þeirra manna voru áður dæmdir af lögreglunni fyrir þjófnað eða vínsölu eða annað þvílíkt. Þó að auðvitað væru skikkanlegir menn innan um, þá var það mikið af úrþvættum þessa bæjar, sem sjálfstæðismenn tóku í sitt málalið. Og það merkilega við þetta er nú það, að einmitt í þeirri deilu, sem nú er að koma upp og ekki er kaupdeila, en snýst beinlínis gegn þinginu og ríkisstj., þá er uppistaðan í því liði menn úr varalögreglunni sælu, sem hv. þm. G.-K. kom upp og hv. 1. þm. Skagf. hélt áfram með. Er enginn vafi á því, að á bak við þessa hreyfingu þeirra standa sömu menn, sem komu upp þessu liði á sínum tíma. Það er því Sjálfstfl., sem ber ábyrgð á þessum mótþróa, og enginn annar.

Ég veit, að hv. þm. eru ekki svo einfaldir að halda, að það séu bílstjórarnir, sem eiga sína eigin bíla og geta sett sína taxta víða sjálfir, án þess að nokkur reyni að hindra þá. Og annarsstaðar þar, sem um mótstöðu er að ræða, geta þeir haft sterkan félagsskap og haft sterkustu samtökin í landinu, Alþýðusamband Íslands, á bak við sig. Ég veit, að þessir menn halda ekki, að þeir muni bera tapið sjálfir, þó að benzínið hækki. Sérstaklega þegar þessi skattur nemur aðeins á milli 3 og 5% af þeirra taxta. Hvort halda þeir, að það muni ekki vera hægt að koma þeirri hækkun fram án mótstöðu frá notendum, sem vita, hvernig stendur á þessari hækkun? Nei, ástæðan er eingöngu sú, að ráðandi menn í Sjálfstfl., sem hafa völdin í bænum, hafa komið þessu af stað í pólitískum tilgangi og til þess að koma upp óeirðum. Og ég er viss um, að verkalýðsfélögin mæta þessu með jafnmikilli festu eins og þau mættu liðinu í annari mynd á sínum tíma, þegar ríkislögreglan var sett á stað.