12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (3918)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Jón Pálmason:

Mér þykir það að vísu hálfóviðfelldið að taka til máls um þetta stóra og merkilega mál án þess að nokkur sé hér viðstaddur í þd. úr stj., ekki einu sinni hæstv. fjmrh. En með því að það er ekki á mínu færi að hafa áhrif á það, að hæstv. stj. mæti hér á þd. fundum og geri skyldu sína, þá sé ég ekki ástæðu til að falla frá orðinu fyrir það, þó svona standi. Ég kvaddi mér hljóðs m. a. af því, að ég var einn af flm. þeirrar þáltill. á aukaþinginu 1933, sem þetta frv. á rót sína að rekja til, en þó fyrst og fremst af hinu, að ég tel þetta eitt af stærstu málum þingsins, og þykir mér því eigi rétt, að það fari umræðulaust til nefndar. Enda mun vera þannig í pottinn búið, að það er alls ekki víst, að þetta frv. komi aftur frá n. áður en þinginu verður frestað, svo sem ráðgert mun vera.

Það er nú svo, að frá því launamálan. var skipuð mun vera liðið nokkuð á annað ár. Og við, sem vorum flm. þáltill. í fyrra, gerðum þá ráð fyrir, að einhverjir þættir þessara launamála mundu verða lagðir fyrir næsta reglulegt Alþingi þar á eftir. En það varð ekki, og nú er þetta þing búið að sitja fast að einum mánuði, áður en þetta stórmál er fram borið, og látið í veðri vaka, að það eigi að senda okkur þm. heim næstu daga. Af þessu öllu má draga þá ályktun, að það sé ekki ætlun hæstv. stj. að láta þetta þýðingarmikla mál fá afgreiðslu á þessu þingi. Þetta er afleitt og mjög athugavert, og mun ég síðar víkja nánar að orsökum þess. Ég gerði ekki ráð fyrir því í fyrra, sem einn af flm. þáltill., að það gæti orðið almennt samkomulag um launamálatillögurnar, og ég bjóst ekki heldur við, að svo yrði í n., en ég gerði mér vonir um, að hún mundi safna ýmsum gögnum og upplýsingum í málinu, svo að það gæti legið nokkuð ljóst fyrir Alþingi. Þessi gögn liggja nú hér fyrir frá milliþingan. í ýtarlegu nál. og nokkrum frv., svo að frá því sjónarmiði virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að þetta mál fái afgreiðslu í þeirri mynd, sem meiri hluti Alþingis vill vera láta.

Það er kunnugt, að einn og sami stjórnmálaflokkur er búinn að ráða fjármálum ríkisins í undanfarin 8 ár nálega; sá flokkur, sem núv. hæstv. fjmrh. telst til. Og á þessu tímabili hafa setið að störfum a. m. k. 4 fjmrh. frá þeim flokki. Og hluturinn er sá, að enginn þessara ráðh. hefir sýnt alvarlega viðleitni í þá átt að koma launamálunum í viðunandi horf. - Launamönnunum hefir stórum fjölgað með hverju ári á þessu tímabili, svo að engin sambærileg dæmi eru fyrir því áður í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Og launahæð til opinberra starfsmanna hefir líka stigið mun hærra en áður þekktist, svo að ekki er sambærilegt við eldri launalög. Eftir minni þekkingu á þessum efnum og fjárhagsástæðum þjóðarinnar yfirleitt má segja, að launahæð opinberra starfsmanna, samanborið við fjárhagsástæður almennings, hafi verið nokkurn veginn viðunandi til 1930. En frá þeim tíma til þessa dags, eftir að verðföll og viðskiptakreppur fóru að þjaka þjóðinni, hefir ástandið verið gersamlega óþolandi í þessum efnum. Og þetta launafyrirkomulag hefir valdið ógurlegu misræmi og straumhvörfum í þjóðlífinu yfirleitt, og verður ekki í fljótu bragði gerð grein fyrir þeim.

Eins og kunnugt er, hefir mönnum vitanlega orðið tíðræddast um dýrtíðaruppbótina á laun opinberra starfsmanna, og hefir hún jafnan valdið mestum ágreiningi á þessum síðustu árum. Enda er það ekkert undarlegt, þó að alþýðumenn, sem stunda framleiðslu og eiga afkomu sína undir gengi atvinnuveganna, verði óánægðir út af dýrtíðaruppbótinni, þegar framleiðslan er stöðugt rekin með halla og verðið á landbúnaðarafurðum er komið niður fyrir það, sem það var fyrir stríðið, eins og átti sér stað árið 1932. Það er ekkert undarlegt, þó að alþýðumönnum og framleiðendum hafi þótt það furðu sæta, að launastéttirnar skuli þrátt fyrir þetta hafa haldið sínum launum, og meira að segja dýrtíðaruppbót að auki. Þetta hefir líka. meira en nokkuð annað, aukið eftirspurnina í þjóðfélaginu eftir launuðum störfum og embættum, því meir sem afleiðingar kreppunnar hafa sorfið að atvinnuvegunum. Og á hinn bóginn hefir áhugi almennings dofnað mjög fyrir því að reka atvinnu og stunda framleiðslu á eigin ábyrgð.

Nú þegar launamálan. skilar hinu ýtarlega áliti sínu, þá er svo komið, að bein útborguð starfsmannalaun úr ríkissjóði eru hátt á 6. millj. kr., og þar við bætast kaupgreiðslur til fjölda verkamanna við ríkisstofnanir og opinbera starfsemi í landinu, sem hv. frsm. áætlaði á 2. millj. kr. Þetta nemur samtals um 7 millj. kr. fyrir ríkissjóð einan.

Það er kunnugt öllum þeim, sem fylgzt hafa með gangi þjóðmálanna á síðustu árum, að ríkisvaldið hefir eitt ráðið öllu um launahæð og kaupgjald í landinu, og þar með ráðið hlutfallinu á skiptingu lífsgæðanna milli framleiðendanna annarsvegar og hinsvegar allra þeirra, sem þiggja laun eða kaup fyrir störf sin hjá öðrum. Ríkisvaldið hefir þannig borið fulla ábyrgð á því, hvernig straumarnir falla nú í atvinnulífi þjóðarinnar. - Jafnframt ætti það nú að vera öllum hugsandi mönnum ljóst, að ef nokkur alvara fylgir kröfunum um það, að launin verði lækkuð í landinu, þá er tækifæri til þess nú í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, bæði að fækka embættum og færa niður laun opinberra starfsmanna. En nú kemur það í ljós, sem ég undrast mest í áliti launamálan., þar sem hún leggur til, að laun verði hækkuð um ca. 350 þús. kr. frá því, sem nú er, en hinsvegar eiga launalækkanir, sem samtals nema rúml. 1 millj. kr., ekki að koma til framkvæmda strax, nema að nokkru leyti. Þetta tel ég athugaverðast, að launahækkunartillögurnar koma strax til framkvæmda, en lækkunartill. aftur á móti að miklu leyti ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum, af því að þær eru bundnar við fækkun embætta, sem fram á að fara smátt og smátt á margra ára fresti.

Ef þessi launamál verða tekin þeim tökum og afgr. eftir því, sem n. leggur til, þá er ekki eins mikið upp úr því að hafa fyrir ríkissjóð og ætla mætti. Frá mínu sjónarmiði er því aðeins um tvennt að velja í þessu máli, annaðhvort að slaka til á þessum gjöldum og lækka starfsmannalaunin til muna, eða bíða eftir því, að ríkissjóður lendi algerlega í strandi og atvinnureksturinn í landinu, því það er auðséð, að það getur ekki gengið til lengdar, að atvinnuvegirnir séu reknir með tapi, og rekstrarhalli þeirra og árlegur tekjuhalli ríkissjóðs jafnaður með lántökum frá útlöndum. Rekstrarhalli atvinnuveganna safnast saman í skuldabyrðar á framleiðendunum og er að sliga þá algerlega.

Hv. frsm. leit svo á, að ekki væri fært að lækka laun opinberra starfsmanna yfirleitt. Þó er þar um örfáar undantekningar að ræða hjá n. að því er snertir hæstlaunuðu starfsmennina. Um þetta atriði eru skoðanir okkar mjög skiptar. Ég tel ekki unnt að hækka laun hjá nokkrum starfsmanni þess opinbera. Hitt er annað mál, að það verður að samræma laun opinberra starfsmanna eftir þeim lögum, sem nú eru í gildi, og þannig, að þeir, sem taka laun utan launalaga, fái jöfn laun við sambærilega starfsmenn, sem eru í launalögum. Ég get játað, að í mörgum af þessum till. launamálan. eru ýmisleg nýmæli, sem ég tel, að horfi til allmikilla bóta frá því, sem nú er. En ég fer ekki langt út í það að sinni.

Hv. frsm. lýsti því yfir, að n. hefði ekki treyst sér til að bera fram till. um, að starfsmönnum yrði fækkað í skrifstofum ríkisins eða við bankana, enda hefði mþn. ekki unnizt nægilegur tími til að rannsaka það atriði. Vera má, að þessi afsökun sé nægileg rök frá sjónarmiði n., en almenningur hér á landi trúir því ekki, að kostnaðurinn við þessar stofnanir ríkisins og bankana þurfi að vera eins mikill og hann er nú, og starfsmannafjöldinn svo geysilegur. Eftir till. n. á starfsmannafækkunin að ganga út yfir fjölmennustu stéttirnar, kennara, presta og sýslumenn. Ég fer ekki út í þessi atriði nú, en þó verð ég að telja það athugaverða ráðstöfun, að fækka barnakennurum a. m. k. um 150 stöður, en hækka þó laun kennarastéttarinnar jafnframt um 90 þús. kr., þrátt fyrir fækkunina. viðvíkjandi fækkun sýslumanna virðist mér það athugavert, að n. telur það því aðeins fært, að störf hreppstjóra verði aukin til muna frá því, sem nú er. Og þóknun sú, sem þeim er ætluð fyrir störf sín, er ekki í neinu samræmi við laun annara opinberra starfsmanna, sem n. vill vera láta. Þetta álít ég rangláta tilhögun.

Ég ætla ekki að ræða till. n. um fækkun presta. Það er auðséð, að þær geta ekki komið til framkvæmda fyrr en núv. prestar falla frá, sem þau prestaköll heyra undir, er eftir till. n. eiga að sameinast öðrum prestaköllum.

Hv. frsm. gat þess, sem rétt er, að það ætti að ráða mestu um gerðir ríkisvaldsins í þessum efnum, að hlutast til um, að lífskjörin séu jöfnuð fyrir hinar ýmsu stéttir í landinu, þannig að sumar þeirra geti ekki lifað við betri skilyrði á kostnað hinna. En þessi regla hefir verið mjög brotin á undanförnum árum með framkvæmd launamálanna hér á landi, og það svo herfilega, að framleiðendurnir hafa verið gersamlega beygðir og ofurliði bornir. En þó eru atvinnuvegirnir og framleiðslan sá grundvöllur, sem fjármálalíf allrar þjóðarinnar veltur á. Dýrtíðaruppbótin á laun opinberra starfsmanna undanfarin ár hefir, að heita má, verið miðuð við allar lífsþarfir þeirra, á sama tíma og öll framleiðsla í landinu hefir verið rekin með tapi.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um ágreining innan mþn. um það, hvort framvegis ætti að fylgja þeirri reglu að hafa mismunandi launahæð eftir árferði í framleiðslu og verzlunarefnum, þá er það frá mínu sjónarmiði ljóst, að höfuðágreiningurinn hlýtur að vera um það, hvort dýrtíðaruppbót á að miðast eins og að undanförnu hefir verið við verðvísitölu allra helztu nauðsynjavara, erlendra sem innlendra, eða aðeins við verðlag innlendra vara. Af því að dýrtíðaruppbótin hefir verið miðuð við verðlag á öllum helztu kostnaðarliðum, sem launamennirnir þurftu að reikna með til framfærslu sér og sínu fólki, þá hefir þetta gífurlega misræmi komið fram á lífskjörum þeirra, er fengið hafa ákveðin laun eða kaupgreiðslur, og framleiðendanna hinsvegar. Þetta má ekki lengur eiga sér stað. Ef starfsmannalaunin eiga að veru dálítið mismunandi eftir árferði, þá á eingöngu að miða þann mismun við verð þeirra vara, sem framleiddar eru í landinu. Launin eiga að færast upp eða niður eftir verðvísitölu þeirra. Ég er því að þessu leyti algerlega á sama máli og sá maður í mþn., sem hélt þar fram þessari skoðun. Það er þetta, sem fyrst og fremst á að taka til greina og er grundvallaratriði launamálanna í landinu.

Það er eðlilegt, að talsverður ágreiningur verði um þetta mál. En því meiri ástæða er til þess, að þetta mál hljóti sem fyrst viðunanlega afgreiðslu, en haldi ekki áfram að vera í þeirri óreiðu, sem undanfarið hefir viðgengizt. Þingmenn og þingflokkar verða að þora að taka ákveðna afstöðu til þessa erfiða verkefnis í fullu samræmi við það ástand, sem nú ríkir í landinu, og þær horfur, sem framundan eru í atvinnulífinu. Afgreiðslan á þessu máli er m. a. prófsteinn á það, hverjar skoðanir þingmenn hafa á því, hvort hin hóflausa eyðsla á að halda áfram í landinu, hvort það á að fjölga embættum og launuðum starfsgreinum sí og æ, þó að áberandi og sívaxandi rekstrarhalli sé á aðalframleiðslugreinum þjóðarinnar til lands og sjávar, og þó að vonirnar um, að þær geti borið sig, fari stórum þverrandi með hverjum degi, sem líður. - Mér er það ljóst, að núv. ástand getur ekki haldizt lengur; það verður að greiða úr því á skynsamlegan hátt, þannig að fjármálalíf þjóðarinnar geti náð aftur eðlilegum þrifum. Á því veltur það, hvort þjóðfélagsstarfsemi okkar hrynur í rústir, eða að við höldum áfram að lifa sem frjáls og sjálfstæð menningarþjóð. En til þess að svo megi verða, þurfum við að sýna alvöru og einbeitni í þessu máli. Og afgreiðsla þingsins á þessu máli hefir meiri áhrif á það en nokkurt annað mál, sem liggur fyrir þessu þingi. Hér er verkefni, sem hægt er að leysa, ef þróttur og vilji eru til staðar, á þann hátt, að heill alþjóðar sé látin ráða, og annað ekki. - Ef þetta mál kemur aftur til umr. í þd., áður en þingi verður frestað, sem litlar líkur eru til, þá gefst mér aftur tækífæri til að ræða nánar einstök atriði þess.