12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (3920)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það ræður af líkum, að þar sem nál., sem gerir grein fyrir undirbúningi þessara mála allra, sem ekki eru minna en 9 frv. fram komin frá launamálanefnd, var ekki útbýtt fyrr en í gær, að ekki hefir gefizt mikill tími til að lesa þetta mál niður í kjölinn, svo sem vitanlega þarf til þess að grafa fyrir og finna til fulls, kynna sér og kanna þær ástæður, sem fram eru færðar. Það er því ekki hægt að fara neitt ýtarlega út í þetta mál fyrr en tími hefir gefizt til þess að athuga nál. og þá undirstöðu þessara mála, sem þar er gerð grein fyrir. Ég ætla því einungis með þeim fáu orðum, er ég segi nú, að benda á það, að mér finnst slælega hafa verið gengið fram í því að ná tilgangi þeirrar þáltill., sem þessi rannsókn er byggð á. Því það, sem lögð var aðaláherzlan á í þessari þáltill., var það, að rannsaka möguleikana á því að létta af ríkissjóði þeim geysilega kostnaði, sem hlaðizt hefir á hann hröðum skrefum hin síðari ár við aukið starfsmannahald. Það var svo komið, að fjölda manna stóð stuggur af og sá ekki, hvernig ríkissjóður átti að risa undir svo miklum og sívaxandi starfsmannakostnaði, og var ekki sjáanlegt, að sá flaumur mundi neitt stöðvast. Horfði málið því þannig við, að út af fjárlögum mundi verða byggt öllum fjárframlögum til verklegra framkvæmda í landinu með sama áframhaldi. M. ö. o., að ekki yrði hægt að ná inn í ríkissjóðinn meiri tekjum heldur en sem færi til þess að bera uppi þetta síaukna starfsmannahald og allan kostnaðinn, sem af því leiðir, að ógleymdum þeim síauknu byrðum, sem hvíla á ríkissjóði vegna hinna miklu skulda, sem hann verður að standa straum af. Ég sakna því mjög, að í þessum till. skuli ekki vera gengið lengra en gert er í því að reyna að framkvæma aðaltilgang þáltill., draga úr útgjöldum ríkissjóðs við starfsmannahald, bæði með því að lækka launagreiðslur og ekki síður með því að leita að möguleikum til þess að fækka starfsmönnum. En það var einmitt þetta, sem lögð var aðaláherzlan á í 1. lið þáltill. Ég sé að vísu, að n. gerir till. um að draga nokkuð úr starfsmannahaldi ríkisins. En það ber svo einkennilega við, að starfsmannafækkunin á eingöngu að koma fram í sveitum landsins. Það er fækkun presta - ég er ekkert á móti því, sem í þessum till. felst, það má ekki skilja orð mín svo -, það er fækkun sýslumanna, og það er fækkun barnakennara - ekki barnakennara í kaupstöðum, heldur barnakennara í sveitum að langsamlega mestu leyti. Hinsvegar hefir verið yfirlýst af flm. þessa máls og form. n., að n. hafi algerlega hliðrað sér hjá því, m. a. fyrir tímaskort, að gera nokkrar sjálfstæðar till. um að draga úr starfsmannahaldi t. d. hér í Reykjavík. Að því miða till. n. ekki, að því er mér skilst, að öðru leyti en því, að færa á saman nokkuð stjórn einkasölufyrirtækja ríkisins, sem vitanlega er út af fyrir sig góðra gjalda vert og felur sjálfsagt í sér einhvern sparnað. Mér finnst því hvað þetta snertir gengið framhjá stórmikilsverðu atriði, sem einmitt var lögð mikil áherzla á við undirbúning og samþykkt þáltill., og það er að benda á möguleika til og gera till. um að draga úr starfsmannahaldi við stofnanir ríkisins í kaupstöðunum, sem þá aðallega er um að ræða hér í Reykjavík. Í tilefni af því, sem hv. flm. sagði um það, að til þess að fá grundvöll undir slíkar till. hefði n. þurft að starfa missiri lengur. vil ég segja það, að ég held, að það hefði verið ávinningur fyrir þetta mál, að n. hefið setið einu missiri lengur, ef hún hefði með því getað komizt eitthvað lengra á þessari braut.

En svo maður sleppi nú þessu, þá vil ég benda á, að í þessum till. er beinlínis farið fram á stórhækkun á sumum liðum embættis- og starfsmannahalds ríkísins. T. d. er gert ráð fyrir, að launagreiðslur vegna heilbrigðismála hækki um 37 þús. kr., að því er mér virðist, launagreiðslur vegna kennslumála um 103 þús., laun póst- og símastarfsfólks um 10 þús. kr., og á fleiri liðum kann að vera hækkun, því mér hefir ekki gefizt tími til að lesa frv. nema lauslega. Mér finnst þáltill. ekki hafa getið n. tilefni til þess að fara að koma með slíkar till. um aukin útgjöld. Þar sem talað var um samræmingu launakjara, var vitanlega átt við, að samræmingin færi þannig fram, að hærri laun væru lækkuð til samræmis við þau lægri, og þannig sparað fyrir ríkið. Ég vil ennfremur benda á það í þessu sambandi, sem vitanlega er virðingarvert, að n. hefir gert sér far um að kynna sér, hverjar væru hinar raunverulegu tekjur þeirra manna, sem nú vinna að framleiðslu í þessu landi, bæði til sjávar og sveita. Og eftir beztu föngum hefir n. komizt að niðurstöðu, sem sjálfsagt er nærri lagi. Við þessa athugun kemur í ljós ákaflega mikið ósamræmi milli launagreiðslnanna, sem n. gerir ráð fyrir, og teknanna, sem þeir menn hafa, sem vinna að framleiðslunni. Þetta, hvað tekjur þeirra, sem að framleiðslunni vinna, eru nauða litlar, sýnir, hvað framleiðslan ber sig ákaflega illa. Og að framleiðslan berst þannig í bökkum, er vitanlega bending um það, að atvinnuvegirnir, sem auðvitað standa undir öllum fjárhagslegum byrðum í landinu, eru nú í því ástandi, að þeir þola ekki þann mikla mun á tekjum þeirra manna, sem taka laun úr ríkissjóði, og hinna, sem að framleiðslunni vinna, er n. gerir ráð fyrir. Ég held, að ef haldið er áfram eins og nú horfir, þá reki beinlínis í strand og fullkomið úrræðaleysi að standa við slíkt.

N. hefir miðað till. sínar um launagreiðslur við árið 1933. Nú er vitað, að síðan 1933 hefir ástandið í þessu landi farið versnandi og horfurnar hafa versnað aldeilis gífurlega. Árið 1934 var útlitið orðið svo ægilegt, að það mátti vera n. fullkomin bending um það, að leggja ekki árið 1933 allt of mikið til grundvallar fyrir sínum till.

Í till. sínum gerir n. ráð fyrir, að breytingin, sem hún leggur til, að gerð verði, leiði til nokkurs sparnaðar fyrir ríkið. Mér skilst, að hann muni eiga að nema um 1/2 millj. kr. Alls er sparnaðurinn talinn nokkru meiri, en sumt af honum kemur fram hjá stofnunum, sem ekki heyra undir ríkið í þeim skilningi, að ríkið beri uppi þann kostnað, sem rekstur þeirra hefir í för með sér. Það er því um 1/2 millj., sem gert er ráð fyrir, að ríkið spari á beinum greiðslum til sinna starfsmanna. En sá hængur er hér á, sem mjög verður að athuga í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að þessi sparnaður er allur nokkuð langt frammi í framtíðinni, þannig að mér skilst, að með því að samþ. þessi frv. aukist útgjöld ríkisins í bili a. m. k. Hitt felur framtíðin í skauti sínu, og það fer náttúrlega nokkuð eftir atvikum, hvenær fram kemur ávinningurinn af þeim breytingum, sem n. leggur til, að gerðar verði. Það tekur vitanlega langan tíma að koma þeim í kring, því ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum ráðstöfunum til þess að koma þessum breyt. á, heldur eru þær miðaðar við það, að þeir, sem hlut eiga að máli, láti af sínum embættum af eðlilegum ástæðum. Hér er um fasta starfsmenn að ræða, en hefði hinsvegar verið hægt að koma á sparnaði við stofnanir ríkisins hér í Rvík og annarsstaðar, þá hefði sá sparnaður komið strax, því fólkið, sem við þær vinnur, er að langsamlega mestu leyti ráðið með 3-6 mánaða uppsagnarfresti. Það er stóri munurinn á því að geta fækkað starfsfólki hér og að fækka embættisstörfum úti um sveitir landsins, að sá sparnaður kemur strax, en hinn ekki fyrr en seint og síðar meir.

Ég er ekki í neinum vafa um það - og vil ég þó taka fram, að það markar ekki á neinn þátt sína afstöðu til málsins -, að t. d. fækkun presta og sýslumanna mun mæta mikilli mótspyrnu; ég skal engu spá um, hvort sú mótstaða verður það sterk, að ekki nái fram að ganga sá sparnaður, sem á þennan hátt á að nást, en ég held, að hann verði ærið mikill vonarpeningur fyrir ríkissjóð.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Það er vitanlega sjálfsagt að taka þessu máli sem fullkomnu alvörumáli. Það hlýtur að verða einn liður í þeim ráðstöfunum, sem þetta þing verður að gera til að létta gjöldum af ríkissjóði, að koma nokkuð gagngerðum breytingum á í þessu efni. Því eins og viðhorfið er nú, virðist mér það svo alvarlegt, að ekki þurfi að gera ráð fyrir að geta reytt inn í ríkissjóðinn 15-17 millj. kr. á þessu ári, eins og gert hefir verið að undanförnu. Því ég býst við, að svo sé ástatt um allmikinn hluta landsmanna, ef eigi rætist úr, að það megi gott teljast að geta haft til hnífs og skeiðar, eins og það er kallað á algengu alþýðumáli.