12.03.1935
Neðri deild: 26. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3921)

66. mál, starfsmenn ríkisins og laun þeirra

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég treysti mér ekki til þess að leggja neinn dóm á starf þessarar n. að svo komnu máli, því eins og margir ræðumenn hafa tekið fram, er svo stutt síðan frv. var útbýtt, og enn styttra síðan hin langa og ýtarlega grg. n. kom þm. fyrir sjónir, að ekki er með neinni sanngirni hægt að fara fram á, að þm. taki þegar afstöðu til þeirra till., sem fyrir liggja, né heldur að þeir telji sig við því búna að leggja dóm á starf þeirra manna, sem hér hafa verið að verki.

En þó ég ætli ekki að ræða málið almennt nú, né heldur gera að umtalsefni þá gagnrýni, sem fram hefir komið á starf n. frá einstökum hv. þm., þá vil ég ekki láta ómótmælt orðum, sem féllu í upphafi ræðu hv. þm. V.-Sk., þar sem hann kvað svo að orði, að enginn tæki þessa n. alvarlega og að frá upphafi hefði við engu verið af henni búizt, og það hefði m. a. mátt ráða af skipun hennar. Hann færði ekkert annað fram til stuðnings þessum ummælum en það, að í n. hefði enginn lögfræðingur verið. Það skal nú ekki verða mitt hlutskipti hér að halla á lögfræðingana; þeir eru 7 eða átta í Sjálfstfl., og þar sem það er almennt viðurkennt, að sá flokkur sé vel skipaður, þá hljóta þeir að vera einhvers virði. En hér er fremur að ræða um sjálft lífið heldur en um lögfræðilegar kennisetningar.

Þegar búið er að kynna sér hagi og háttu þjóðarinnar og komast að einhverri niðurstöðu í grundvallaratriðum, er minni vandi að klæða hana í lögfræðilegan búning. Til hjálpar í þeim efnum eru vafalaust lögfræðingar hv. d. fúsir, og mundi hv. þm. V.-Sk. varla skjótast yfir í því, eins og mér finnst honum hafa skotizt yfir í því, að telja verk launanefndar dauðadæmd af því enginn lögfræðingur hafi verið í henni. Hitt er ádeila á lögfræðingana sjálfa, ef engir þeirra hafa fengizt til að taka þátt í n. En mér vitanlega var enginn þeirra um það beðinn, a. m. k. ekki af Sjálfstfl. verkefni n. var aðkallandi fyrir þjóðina, og þegar þannig stendur á, er það vansi hverjum manni að vilja ekki leggja fram krafta sína. Ádeilu hv. þm. á okkur, sem stóðum að því að velja menn í n., og þá sjálfa, vil ég svara því, að við, sem völdum umboðsmenn Sjálfstfl., höfum undan engu að kvarta að því er snertir hvernig valið tókst, og ég býst við, að hinir flokkarnir séu ánægðir með sína menn í n. líka.

Þegar á það er litið, hve miklum ágreiningi þetta mál veldur innan allra flokka, og hvað örðugt er að finna lausn á því, þá hefði verið hyggilegra að skipa n. frá öndverðu svo, að hver flokkur hefði haft sína sterkustu menn þar, ekki til þess að senda umsagnir til Péturs og Páls, eins og hv. þm. V.-Sk. talaði um, heldur til þess að fá nokkra lausn á þessu örðuga viðfangsefni.

Þetta var ekki gert, en það er sök þeirra, sem völdu n., en ekki nefndarmannanna sjálfra.

Ég hefi hlýtt hér á allharða gagnrýni á n. og ræðumenn hafa drepið á eitt og eitt atriði í frv., sem illa hefir þótt takast. En ég finn ekki þörf að dæma hart nefndarmennina, þó að mistakist um einstök atriði, þar eð heildarviðfangsefnið er óvenjulega örðugt.

Sennilega er það þrennt, sem bar að miða að í þessu efni:

1. að spara útgjöld ríkissjóðs.

2. að samræma betur kjör þeirra manna, sem taka laun sín úr ríkissjóði.

3. að bæta kjör margra þeirra manna, sem svo ógæfusamir hafa verið að ljá ríkinu starfskrafta sína gegn sultarlaunum.

Ég hefi ekki fengið aðstöðu til að mynda mér skoðanir um, hvernig þetta hefir tekizt. Þó hygg ég, að með frv. hafi nokkur sparnaður fengizt og einnig nokkur samræming á launakjörum, og ég tel ekki um að fást, þó að nokkuð sé bætt um hag þeirra manna, sem borið hafa skarðan hlut frá borði.

Ég held að öðru leyti ekki, fremur en hv. þm. V.-Sk., að auðvelt sé að komast að niðurstöðu í þessu máli. Þetta er því erfiðara, eins og nú ber undir, að þm. eru allir utangátta og annars hugar, þeir sem eitthvað hugsa alvarlega, það að nú sýnast vera fram undan fyrir þjóðir örlagaríkari tímar og vandameiri viðfangsefni, en áður hafa verið, a. m. k. svo langt sem elztu menn muna.

Þegar menn standa á öndverðum meiði um lausn hinna allra örðugustu viðfangsefna, þegar slík mál sem þessi ber að garði á þessum tímum, þá er, eins og hv. þm. V.-Sk. sagði, ekki hægt að gera sér miklar vonir um lausn þessa máls.

En ég vil samt taka undir með hv. þm. Borgf., er hann bað alþ. að taka með alvöru á þessu máli. Vil ég biðja hv. þm. að kynna sér vel frv. og grg. þess, svo að komast mætti að sem skjótastri lausn þessa máls.

Þessa örstuttu aths. vildi ég láta hér falla að gefnu tilefni. Ég gat því miður ekki heyrt ræðu hv. flm., og veit ég því ekki, hvort hann hefir gert þá till., að málinu væri vísað til sérstakrar nefndar. (JörB: Það var till. mín). Annars vildi ég einmitt gera það að minni till., að málinu væri vísað til sérstakrar n.

Ég endurtek, að þótt ég við skjótan yfirlestur hafi komið auga á ýmislegt, sem ég tel, að betur megi fara, þá vil ég ekki leggja dóm á n. að svo komnu máli. Ég vænti þess að lokum, að þm. athugi þetta mál vel, ekki síður en önnur, sem fyrir Alþ. liggja.