15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3962)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Flm. (Thor Thors):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að koma hið fyrsta á stofn sérstakri nýrri deild við Háskóla Íslands, er nefnist atvinnudeild og hefir það verkefni með höndum að kenna hin hagnýtu fræði, er geta komið að notum í atvinnulífi voru. Í sambandi við þessa atvinnudeild skal starfrækja rannsóknar- og tilraunstofnun í þágu atvinnuveganna, og skal þessi rannsóknarstofnun starfa í þremur deildum, er nefnast landbúnaðardeild, fiskideild og iðnaðardeild. Skal hver þessara deilda hafa með höndum rannsóknir í þágu þeirra atvinnuvega, sem nöfn þeirra eru tengd við. Þetta frumv. byggist á frumv. um stofnun atvinnudeildar, sem lagt var fyrir síðasta Alþingi, en það er fyllra og víðtækara en frumv. frá því í fyrra, þar sem bætt er inn í það ákvæðum um fullkomna rannsóknarstofnun í sambandi við atvinnudeildina. Ég vil ennfremur geta þess, að frumv. á rót sína að rekja til tillagna ýmsra háskólakennara. Það mál, sem hér var til umræðu á undan, sem sé frumv. skipulagsnefndar atvinnumála um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna, tekur að nokkru leyti til sama efnis, en er að dómi okkar flm. þessa frumv. ófullnægjandi að ýmsu leyti.

Það, sem fyrst og fremst ber hér á milli, er það samband, sem þessari rannsóknarstofnun er ætlað að hafa við Háskóla Íslands, svo og það veigamikla atriði, hvort hefja skuli sem fyrst kennslu í hinum hagnýtu fræðum við háskólann og gera á þann hátt íslenzkum stúdentum það kleift að ganga í þjónustu atvinnulífsins og njóta til þess æðri menntunar.

Fyrir okkur flm. vakir það, að efla hinn unga og fáþætta háskóla vorn, að gróðursetja þar nýjan stofn, sem við höfum trú á, að með tíð og tíma geti orðið sterkur og tengt greinar hinnar æðri menntunar inn í hið fáskrúðuga og fallvalta atvinnulíf vort.

Við lítum því svo á þetta mál, að aðstaðan til þess byggist fyrst og fremst á því, hvern hug menn bera til háskólans, hvert hlutverk menn vilja ætla honum í menningarlífi þjóðarinnar og hvert hlutskipti þeir þar af leiðandi vilja skammta honum. Tel ég því rétt í þessu svo veigamikla atriði í framtíðarlífi háskólans að minnast nokkrum orðum á sögu hans með þjóðinni og lýsa því, hverjar vonir ýmsir af forvígismönnum þjóðarinnar hafa frá upphafi þessa máls tengt við þessa æðstu menntastofnun hér á landi.

Það er greinileg táknmynd þýðingar hinnar æðstu menntastofnunar fyrir sjálfstæði lands vors og menningarlíf þjóðarinnar, að þetta mál skyldi vera eitt hinna allra fyrstu, er borin voru fram á hinn fyrsta þingi hins endurreista Alþingis árið 1845. Og vissulega eykur það réttmæti og nauðsyn þessa máls, að sá maður, sem þetta bar fram, skyldi einmitt vera hinn glæsilegasti forvígismaður þjóðarinnar, Jón Sigurðsson, sá er allir Íslendingar nú telja, að verið hafi sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Krafa Jóns Sigurðssonar og félaga hans laut að stofnun allsherjar æðri menntastofnunar, og vildu þeir nefna skóla þennan þjóðskóla. Þeir vildu rökstyðja þetta nafn með því, að þar eigi fyrst og fremst að kenna þjóðleg fræði, íslenzka tungu og norræna bókvísi. Ennfremur skyldi þar kenna forspjallsvísindi, guðfræði, læknisfræði og lögfræði. Einnig segir svo í bænarskrá þeirri, er Alþingi var send, „að hið bráðasta verði stofnuð kennsla í skólanum handa þeim, sem girnast menntunar, en ætla þó ekki að verða embættismenn.“ Til skilgreiningar þessu fór Jón Sigurðsson um það þessum orðum: „Þá er því næst að nefna menntun þeirra, sem ekki ætla að verða embættismenn. Þessir eru einkum sem segir fyrr í bænarskránni, sjómannaefni. kaupmannaefni og iðnaðarmenn. Það er ljósara en frá þurfi að skýra, hversu mjög slíkir menn þurfa menntunar við, enda er mér og kunnugt, að það er almenn ósk, að kostur mætti gefast á kennslu handa þeim, og þjóðin mundi fúslega styrkja, að slíku mætti verða framgengt.“

Þessi orð og þessar óskir eru greinilegur vottur um hina miklu framsýni þessa forvígismanns þjóðarinnar. Það er ennfremur athyglisvert í sambandi við þann ágreining, sem nú kann fram að koma á þingi um meðferð þessa máls, að Jón Sigurðsson lagði ríka áherzlu á það, að þjóðskóli þessi gæti veitt svo mikla menntun sérhverri stétt, sem nægði þörf þjóðarinnar, og ennfremur tók hann það skýrt fram, að þetta yrði allt einn skóli, því að með því móti yrðu og einnig bezt notaðir allir þeir kraftar, sem varið verður til kennslu. Mér hefir þótt hlýða að rekja þetta mál hér, enda þótt það félli niður að þessu sinni og hugir manna hneigðust í þess stað að því að koma hér á fót skóla fyrir embættismenn landsins. Raunin varð líka sú, að þessi skóli komst upp, fyrst með prestaskólanum árið 1847, síðan hófst innlend læknakennsla árið 1862, og með lögum frá 1876 var stofnaður sérstakur læknaskóli. Síðan kom svo lagaskólinn, sem tók til starfa 1. okt. 1908.

En sjálf háskólahugmyndin lifði þó ætíð í hugum ýmsra beztu manna þjóðarinnar, og þykir þar fyrst hlýða að minnast afskipta Benedikts Sveinssonar, er bar fram á Alþingi 1881 frumv. um stofnun háskóla og barðist ötullega fyrir því máli af hinni þjóðkunnu mælsku sinni. Mér þykir rétt að tilgreina hér nokkur ummæli hans til rökstuðnings háskólahugmynd hans: „Eins og vísindi, framför og frelsi hafa jafnan verið samfara hjá þjóðunum yfir höfuð, þannig hefir innlend menntun, framför og frelsi jafnan verið þrjár skilgetnar himinbornar systur, sem hafa haldizt í hendur og leitt hverja einstaka þjóð að því takmarki, sem forsjónin hefir sett henni. Lítið á sögu sjálfra vor. Oss hefir aldrei leiðzt að renna augum vorum til hinnar fögru og frægu fornaldar vorrar. Má ég spyrja: Voru það ekki þær hinar sömu þrjár himinbornu systur, sem héldust í hendur einnig hjá oss? Og fór það ekki svo, að þegar þær hurfu, þá var allri vorri frægð, öllum vorum frama lokið? Það var þannig ekki úr lausu lofti gripið, er hið fyrsta endurreista Alþingi 1845 bar hina innlendu þjóðmenntun fram mála fyrst. Eins og orðið „mamma“ er hið fyrsta orð, sem vér heyrum af vörum barnsins, þannig var orðið „þjóðskóli“ hið fyrsta orð af vörum Alþingis 1845, fram borið í nafni og umboði þjóðarinnar af þeim manni, þeirri frelsishetju, sem nú er að vísu látinn, en hin andlega og líkamlega ímynd hans mænir yfir oss hér í salnum, og ég vildi óska, að hún æ og æfinlega hefði sem mest og bezt áhrif á oss innan þessara helgu vébanda.“ - Ennfremur sagði hann: „Að vér erum bæði fátæk og fámenn þjóð, er einmitt hin sterkasta ástæða með frumvarpi mínu, því þess meiri háski er oss og þjóðerni voru búinn, að vér hverfum sem dropi í hafinu inn í önnur sterkari og aflmeiri þjóðerni á móti tilætlun forsjónarinnar, sem gaf oss sérstakt þjóðerni, og því meira verðum vér að leggja í sölurnar til þess að svo verði ekki.“

En þrátt fyrir þennan ágæta rökstuðning Benedikts Sveinssonar náði þetta mál eigi fram að ganga á þessu þingi, en á næsta þingi, 1883, bar hann þetta mál fram að nýju, og náði það þá samþykki Alþingis, en lögunum var synjað staðfestingar frá konungi. Þrátt fyrir það var málinu hreyft á næstu þingum og það samþ. enn á ný á Alþingi 1893, en því var sem fyrr synjað staðfestingar. Síðan lá málið í þagnargildi um hríð, en samþ. var þál. í neðri deild Alþingis 1907 þess efnis að skora á landsstjórnina að semja frv. um stofnun háskóla, er skyldi lagt fyrir Alþingi 1909. Þáv. ráðh., Hannes Hafstein, tók þá málið í sínar hendur og fól forstöðumönnum hinna æðri menntastofnana að semja frumv. til laga um stofnun háskóla. Sömdu þeir frumv. að mestu eftir nýjum norskum háskólalögum, og var þetta frumv. samþ. á þinginu 1909. Er Hannes Hafstein lagði það fyrir þingið, kvaðst hann fela það velvild þingmanna sem eitt af helztu velferðarmálum þjóðarinnar, sem ætti að geta orðið ein af lyftistöngunum til þess að hefja menningar- og framtíðarþroska þjóðarinnar og auka henni gengi og álit í augum annara þjóða. Loks rak svo Alþingi 1911 smiðshöggið á þetta mál, þar sem það veitti fé til þess að Háskóli Íslands gæti tekið til starfa 17. júní 1911, á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, sem eins og að framan greinir má telja fyrsta forvígismann þessa máls hér á landi, sem og fleiri menningar- og nytjamála þjóðarinnar. Í hinni fyrstu setningarræðu háskólans fór rektor dr. Björn M. Ólsen þeim orðum um markmið háskólans, er mér þykir rétt að tilgreina í sambandi við það mál, sem hér er til umræðu. Hann komst svo að orði:

„Markmið háskóla er fyrst og fremst þetta tvennt:

1) að leita sannleikans í hverri fræðigrein fyrir sig, - og

2) að leiðbeina þeim, sem eru í sannleiksleit, hvernig þeir eigi að leita sannleikans í hverri grein fyrir sig.

Með öðrum orðum: háskólinn er vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun.

Í þessu sambandi get ég ekki bundizt þess að drepa á afstöðu háskólanna við landsstjórnina eða stjórnarvöldin í hverju landi fyrir sig. Reynslan hefir sýnt, að fullkomið rannsóknarfrelsi og fullkomið kennslufrelsi er nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að starf háskóla geti blessazt. Á miðöldunum voru oft háskólar settir á stofn við biskupsstóla eða klaustur, og gefur að skilja, að klerkavaldið, sem réð slíkum stofnunum, var þröskuldur í vegi fyrir frjálsum vísindaiðkunum. Síðar, einkum eftir reformationina, settu konungar eða aðrir stórhöfðingjar oft háskóla á stofn og lögðu fé til þeirra. Þóttust þeir því hafa rétt til að leggja höft á rannsóknarfrelsi og kennslufrelsi háskólanna, og hafði það hvarvetna hinar verstu afleiðingar. Frjáls rannsókn og frjáls kennsla er eins nauðsynleg fyrir háskólana og andardrátturinn er fyrir einstaklinginn. Landsstjórnin á því að láta sér nægja að hafa eftirlit með því, að háskóla skorti ekki fé til nauðsynlegra útgjalda og að þeir fylgi þeim lögum, sem þeim eru sett, en láta þá að öðru leyti hafa sem frjálsastar hendur um starf þeirra og málefni.“

Þess var þá einnig vandlega gætt, að leyfa háskólanum það sjálfsforræði, er allar aðrar menningarþjóðir hafa talið lífsnauðsyn sinna æðstu menningarstofnana. Það voru margar glæstar vonir, sem í upphafi voru tengdar við stofnun Háskóla Íslands, og þegar litið er yfir starf háskólans þann tæpa aldarfjórðung, sem hann nú hefir starfað, þá hygg ég, að allir góðir Íslendingar hljóti að viðurkenna, einkum er þeir hafa nokkurt tillit til fámennis og fátæktar þjóðarinnar, að stofnun háskólans markar stórt spor í menningar- og sjálfstæðissögu þjóðarinnar.

Ég geri ráð fyrir, að hv. andstæðingum mínum hér þyki lítils um vert, því ég freistist til þess frá eigin brjósti að lýsa afrekum og aðgerðum háskóla vors á farinni braut. Ég mun því leiða það hjá mér að öðru en því, að minnast með þakklæti á ágæta kennslu háskólans og góða umhyggju prófessora hans fyrir velferð nemendanna, jafnframt því sem rétt er að benda á þau félagslegu bönd, sem háskólinn hefir tengt meðal menntamanna þjóðarinnar. En ég vil taka upp ummæli, sem einn af mætustu mönnum háskólans hefir viðhaft um starfsemi hans. Það eru ummæli prófessors Ólafs Lárussonar við setningu háskólans haustið 1931, er háskólinn hafði starfað í 20 ár. Hann komst svo að orði:

„En þrátt fyrir allt, sem nú hefi ég lýst, þá hefir háskólinn samt unnið sitt verk í þessi 20 ár. Honum var og er ætlað að sjá embættismannaefnum þjóðarinnar fyrir nauðsynlegri sérmenntun, guðfræðingum, læknum og lagamönnum. Á þessum 20 árum hafa, að því er mér telst til, 270 manns lokið prófi á háskólanum í þessum fræðum. Nú er svo komið, að meiri hluti af þjónandi prestum landsins og meiri hluti af starfandi lögfræðingum og læknum landsins eru menn, sem fengið hafa sérmenntun sína hér við háskólann. Þessir menn hafa reynzt fyllilega hlutgengir, þeir hafa reynzt standa fyllilega hinum eldri mönnum á sporði, er menntun höfðu hlotið annarsstaðar. Í þessum hópi er fjöldi manna, sem eru mjög vel að sér í sínum fræðum, fjöldi manna, sem þegar hafa sýnt sig að vera hinir mestu nytjamenn, þó þeir séu enn ungir. Þessir menn eru háskólanum vitni, lifandi vitni og gott vitni þess, að starf hans hefir þrátt fyrir alla örðugleika ekki verið unnið fyrir gíg. Á þessum 20 árum hefir einnig vísindaleg starfsemi, í ritum og rannsóknum, verið miklu meiri hér á landi en nokkru sinni fyrr, og mest af því starfi má rekja til háskólans með einhverjum hætti. Einnig á því sviði hefir háskólinn því unnið töluvert verk, þó miklu sé það minna en vera hefði átt. Og vér höfum séð þess fagran vott, að háskólinn á nokkur tök í hugum fólksins, er menn af ýmsum stéttum hafa talið hann verðastan þess að njóta eigna sinna eftir sinn dag, eða treyst honum bezt til þess að verja þeim samkvæmt því, er þeir vildu helzt“.

En prófessor Ólafur Lárusson kvartar undan einu, er háir mjög vexti háskólans, og það er ræktarleysi það, er ýmsir eldri nemenda háskólans sýni honum, er þeir eru horfnir þaðan. Það mun nú ef til vill koma fram við afgreiðslu þessa máls, hversu mikil er tryggð ýmsra hinna eldri nemenda háskólans í garð þessarar stofnunar, er veitti þeim þá hina æðri menntun, er leitt hefir þá til vegs og valda í þjóðfélaginu. En prófessorinn telur það eitt af mestu þrifamálum háskólans, ef bak við hann standi ávallt góðir hugir nemenda hans, eldri sem yngri, ef hann væri í hugum þeirra í raun og sannleika þeirra alma mater, sem þeir litu jafnan til með ást og þakklæti. Og það færi betur, ef slík ræktarsemi hinna eldri nemenda mætti framvegis koma áþreifanlegar í ljós en hingað til.

Enda þótt benda megi á mörg afrek og marga kosti háskólans, þá verður því samt eigi neitað, að nokkur hætta vofir yfir framtíð hans, og hún er sú, hversu fáar hafa verið deildir hans og því fábreytt úrræði stúdentanna til framhaldsnáms. Um þetta atriði farast prófessor Ólafi Lárussyni orð á þessa leið:

„Þó hefir önnur breyting til hins verra orðið á högum stúdenta síðan 1911, og hún miklu alvarlegri, svo ískyggileg, að hún má teljast fullkomið áhyggjuefni; það er sú breyting, sem orðin er á framtíðarhorfum þeirra, hversu nú er miklu tvísýnna en áður, að sérnám þeirra geti komið þeim að gagni í lífsbaráttu þeirra síðar meir. Stúdentaviðkoman hefir margfaldazt síðan 1911 og stúdentatalan hér við háskólann meira en þrefaldazt. Fjölgunin hefir orðið langmest í tveim af deildunum, læknadeild og lagadeild, og enn er ekki farið að draga úr aðstreyminu að þeim. Nú þegar er svo komið, að kandídatar frá þessum deildum eru orðnir svo margir, að í þeim stéttum er orðið yfirfullt, og það er full vissa fyrir því, að mjög margir af þeim mönnum, sem útskrifuðust úr þessum tveimur deildum, nokkuð mörg næstu árin, eiga þess engan kost að fá lögfræði- eða læknisstörf, sem þeir geta lifað við. Þeir verða að leita fyrir sér við önnur störf, eftir að hafa kastað nokkrum beztu árum æfi sinnar á glæ, í nám, sem verður þeim að litlu liði, og eftir að hafa safnað skuldum við það nám, sem verður þeim hlekkur um fót. Þetta er svo komið fyrir handvömm og sinnuleysi þeirra, sem hér eiga hlut að máli, því koma mátti í veg fyrir þetta með ýmsum ráðum. Það mátti með nokkrum fjárkostnaði opna stúdentum nýjar leiðir til framhaldsnáms, sem tryggði þeim betur afkomu síðar meir en þetta embættisnám“.

Frá því að þessi orð voru töluð hefir ástandið vissulega ekki batnað í þessu efni. Þetta ár (1931) voru í læknadeild 64 nemendur, síðan hafa þeir aukizt um 13 að meðaltali á ári; hinsvegar hafa útskrifazt um 10 að meðaltali árlega, svo að nú í ár eru í læknadeild 68 nemendur. Í lagadeild voru þetta ár 42 nemendur, síðan hafa þeir aukizt um 12 á ári, en útskrifazt um 7 árlega. Nú í haust voru í lagadeild um 53 nemendur. Síðastl. ár útskrifuðust í Rvík 37 stúdentar, en á Akureyri 17, eða samtals 54, og af þeim fóru um 30 í lagadeild og læknadeild. Þegar nú er litið á þann fjölda kandídata, sem útskrifazt hafa úr þessum deildum síðastl. ár, og athugaður er hinn mikli fjöldi stúdenta, sem nú eru í þessum deildum, má það öllum ljóst vera. hversu ískyggilegar horfur eru framundan fyrir þessa ungu menntamenn. Þetta bendir því vissulega til þess, hversu rík nauðsyn er nú fyrir hendi vegna stúdentanna sjálfra að skapa þeim hið allra bráðasta ný skilyrði fyrir framhaldsmenntun. Það verður að dreifa stúdentastraumnum. Það er einnig hið mesta heillaráð vegna atvinnuvega landsmanna, að leitast við að fá sem flesta af hinum ungu menntamönnum þjóðarinnar til þess að taka virkan þátt í atvinnulífi hennar.

Allir virðast sammála um nauðsyn þess, að vísindaleg rannsókn sé viðhöfð í þágu atvinnuveganna, en þær staðreyndir, sem að framan greinir um fjölda stúdentanna og þarfir atvinnuveganna fyrir starfskrafta þeirra, ættu að benda til þess, hversu æskilegt sé, að samkomulag náist einnig um stofnun atvinnudeildar við háskólann hið allra fyrsta. Ég þykist hafa bent á það, hvernig kunnugir menn hér á landi hafa litið á nauðsyn sjálfsstjórnar háskólans og hversu aðrar menningarþjóðir láta sér annt um þennan hyrningarstein hinna æðstu menntastofnana þeirra. Þegar háskólalögin voru samin árið 1909, var í rauninni aðeins um að ræða sameiningu hinna þriggja embættiskóla, auk stofnunar nýrrar heimspekideildar. Þá var allur þingheimur sammála um tvo aðaldrætti þessa máls, sem voru sameining og sjálfsstjórn. Það væri betur, að sama viðsýnis gæti nú á Alþingi þjóðarinnar.

Ég vil svo að lokum vísa til þeirrar grg., er fylgir þessu frv., er fyllilega skýrir, hver munur er á því og hinn frv., sem meiri hl. allshn. flytur. Það mun gefast tækifæri til þess við síðari umr. þessa mál að rekja þann mun enn greinilegar, og ég læt því staðar numið að sinni og vil loks mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn., í þeirri von, að takast megi að fá samkomulag þar um málið.