15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3963)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Emil Jónsson:

Það er í raun og veru leiðinlegt, að ekki eru fleiri hv. þdm. hér til þess að hlusta á þessa mjög ýtarlegu sögu háskólans, sem hv. þm. Snæf. hafði nú hér yfir. Hún var í senn fróðleg og um leið ánægjuleg, þar sem hún sýndi það, hversu djúp ítök háskólinn hefir átt í hugum ýmsra góðra manna hérlendis, og sýndi einnig, að hann hefir sitt stutta starfstímabil haft á hendi afarþýðingarmikið starf. En mér finnst, að þetta út af fyrir sig komi ekki svo mjög við þessu máli, sem hér liggur fyrir. Það er ákaflega gott, og það er gaman að geta rifjað upp fyrir sér þessa staðreynd, en það vísar manni ekki þær réttu leiðir í þessu efni. Það segir okkur ekki, hversu velja skuli á milli þessa frv. um stofnun atvinnudeildar við háskólann og þess frv., sem hér var til umr. í gær um rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Þessi frv. eru í raun og veru sama málið, eða kannske heldur sömu tvö málin. Ég kemst því ekki hjá því að bera þessi tvö mál nokkuð saman, enda þótt ekki eigi að fara mjög út í einstök ákvæði við þessa umr.

Það, sem hér er um að ræða, er tvennt. Í fyrsta lagi er það rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna, sem hugsað er að tengja við háskólann, og í öðru lagi er það aukin stúdentafræðsla í ýmsum greinum, og hvernig eigi að leggja þar inn á nýjar brautir meira en verið hefir. Um þetta er frv., og það er þetta, sem fyrst og fremst ber að ræða í þessu sambandi.

Þessi tvö mál eiga sér líka sína sögu. Sögu rannsóknarstofnunar fyrir atvinnuvegina má rekja, en ég kann ekki að rekja hana lengra en (6-8 ár aftur í tímann. Fyrsta sjálfsagða sporið í löggjöf landsins í þessu var auðvitað það, þegar samþ. voru árið 1929 lög um rannsóknarstofu í þarfir atvinnuveganna.

Hitt atriðið, að beina stúdentafræðslunni inn á nýjar brautir, er ekki nýtt. Um það var borin fram þál. á þinginu 1931, sem einhverra hluta vegna dagaði uppi. Í sambandi við þá till. var leitað álits tveggja félaga um málið, vísindafélagsins og verkfræðingafélags Íslands. Hvort mál þetta var rætt í vísindafélaginu, veit ég ekki, því að ég er ekki kunnugur þar, en í verkfræðingafélaginu var það tekið upp og rætt, og skal ég í fáum orðum lýsa undirtektum þess undir málið. Það var gengið út frá því, að það útskrifuðust 30-40 stúdentar á ári, og að 1/2 þeirra til 3/4 stunduðu nám hér heima. Hinir færu utan til náms. Væri þetta tekið frá fjárhagslegu sjónarmiði, myndi vitanlega borga sig fyrir þjóðfélagið, peningalega séð í svipinn, að offra miklu fé til þess að halda þeim stúdentum heima, sem utan fara. Líka væri það til hóta fyrir háskólann, að sem flestir stúdentarnir stunduðu nám hér, og vitanlega væri æskilegt, að sem mest af vísindastarfsemi landsmanna færi fram í sambandi við háskólann. En þá er bara spurningin, á hvern hátt hægt er að gera þetta.

Stúdentar þeir, sem fara utan til náms, eru aðallega þeir, sem lesa teknisk fræði. Þau hefir ekki verið hægt að læra hér heima. Það, sem nefnt hefir verið fræðigreinar í þágu atvinnuveganna, er að meira og minna leyti angar af hinu tekniska námi. Þeir stúdentar, sem ætla að nema hin teknisku fræði og náttúrufræði, verða fyrst að hafa lært vissan forða af stærðfræði. Reynslan hefir því verið sú, að þeir, sem nema þessi fræði, geta verið saman við nám 2-3 fyrstu árin. Álit verkfræðingafélagsins var því á þá leið, að helzt myndi tiltækilegt að stofna hér við háskólann kennarastól, þar sem hægt væri að veita stúdentum kennslu í hinu sameiginlega námi í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði, sem er grundvöllurinn undir hinni eiginlegu sérmenntun í þessum fræðigreinum. Þyrftu stúdentar þá ekki að sækja út annað en sérfræðinámið eitt. Ég skal geta þess hér, að verkfræðingafélagið lagði til, að stofnuð yrðu þrjú prófessorsembætti í þessu skyni. Í samræmi við þetta höfum við í skipulagsnefnd byggt upp frv. okkar, og um það er þar enginn ágreiningur. Á þessu stigi málsins töldum við ekki fært að slá því föstu, hverskonar prófessorsembætti skyldi stofna, hvort þau skyldu vera í stærðfræði, eðlisfræði eða efnafræði. En það er víst, að enginn, sem um þessi mál hugsar af alvöru, leggur til, að byrjað verði á því að setja á stofn prófessorsembætti í náttúrufræði.

Eins og sjá má á frv. okkar, þá gerir það ráð fyrir tveimur meginatriðum þessa máls, fyrst rannsóknarstofnun við háskólann, og í öðru lagi heldur það opnum möguleikanum fyrir því að auka stúdentafræðsluna. Að halda opinni fræðslu við háskólann án þess að prófskylda sé, eins og frv. þeirra tvímenninganna gerir ráð fyrir, held ég að sé misráðið. Þeir stúdentar, sem slíka fræðslu fengju, myndu tæplega standa þeim á sporði, sem læsu ytra og tækju þar próf.

þá talaði hv. þm. Snæf. um ræktarsemi við háskólann, hversu hún væri nauðsynleg o. s. frv. Þetta er vitanlega gott og sjálfsagt, og ég skal segja það fyrir mig, að enda þótt ég hafi ekki stundað nám í háskóla okkar, þá ann ég honum alls hins bezta, en ég held, að þessi hv. þm. og meðflm. hans hefðu farið öðruvísi að í þessu máli en þeir hafa gert, ef þeir væru heilir í því. Þeir hefðu reynt að fá breyt. inn í frv. í allshn., í stað þess að bera fram nýtt frv., sem alls ekki er tímabært, því að þetta mál verður að byggja upp neðan frá, en ekki ofan frá. Ég segi ekki, að fyrir þessum hv. þm. hafi vakað pólitískur ávinningur með þessu, sérstaklega ekki eftir að hafa heyrt hv. þm. Snæf. segja það í gær, að það væri illa gert að fara að draga þetta mál inn í pólitískar deilur. En ég fæ bara ekki séð, hvað þeim hefir gengið til með því að fara að flytja þetta sérstaka frv., með þeim einum breyt. frá frv. okkar, sem áreiðanlega eru til ills eins.

Í frv. skipulagsnefndar er gert ráð fyrir að auka kennslu í þessum fræðum við háskólann strax og rannsóknarstofan telur það tímabært, og ég vænti, að það verði eins heillavænlegt eins og að ákveða nú þegar 3 prófessorsembætti í þessum fræðum við háskólann, svo að segja alveg út í loftið, eins og frv. hv. minni hl. gerir ráð fyrir.

Það munu allir á einu máli um, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða. Er því illa farið, ef hv. minni hl. allshn. tekst að draga það á langinn um skör fram. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert því til fyrirstöðu að greiða atkv. á móti frv. þeirra tvímenninganna nú þegar. En fyrir kurteisissakir mun ég þó ekki verða því til fyrirstöðu, að það fái að ganga til n. og athugast þar eins og önnur frv. Geri ég það í trausti þess, að slíkt verði ekki látið tefja þetta sameiginlega áhugamál okkar allra, að komið verði upp rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við háskóla Íslands. því að samkomulag hefir tekizt við happdrættisráðið um það, að hafizt verði handa um að hefja byggingu á húsi fyrir stofnunina eins fljótt og unnt er, ekki síðar en að hausti komanda.