15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3964)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Flm. (Thor Thors):

Hv. þm. Hafnf. reyndi að tala af nokkurri sanngirni um þetta mál, eins og hans er venja yfirleitt. En ég tel hann ekki óhlutdrægt vitni í þessu máli, þar sem hann á sæti í skipulagsnefnd, en hún hefir eins og kunnugt er samið frv. það, sem hann berst fyrir. Það eru þó ýms atriði í ræðu hv. þm., sem ég þarf að svara. Hann byrjaði á því að segja, að það hefði verið ánægjulegt að heyra sögu háskólans sagða hér á Alþingi, enda þótt hún skipti ekki máli í þessu sambandi. En ég verð nú að segja þessum hv. þm. það, að saga háskólans, og skoðanir forgöngumanna hans og stofnenda á því, hvernig þeir höfðu hugsað sér að byggja háskólann upp og gera hann að veglegri stofnun, skiptir einmitt miklu máli í þessu sambandi. Hvað er kannske meira vert, þegar ræða á um slíkt mál sem þetta, en að kynna sér, hvernig þeir menn, sem mest hafa borið hagsmuni háskólans fyrir brjósti, hafa hugsað sér að láta hann eflast, þar til hann hefði fullkomið sjálfsforræði yfir sínum málum og yrði megnugur þess að vera það, sem hann á að vera, æðsta og göfugasta menntastofnun þjóðarinnar.

Ræða hv. þm. var að mestu leyti fræðilegur fyrirlestur, sem ég get alls ekki fallizt á, að öllu leyti að minnsta kosti, enda þótt ég geti ekki borið mína teknisku þekkingu saman við hans. Hann viðhafði sömu vígorðin og rangfærslurnar og samflokksmenn hans í gær, að fyrir okkur flm. þessa frv. vekti aðeins það eitt að fá komið nokkrum nýjum prófessorum að háskólanum. Ég vil nú benda honum á, að hér ber ekki svo mikið á milli frv. Í frv. því, sem hv. þm. styður, er ætlazt til, að 3 vísindamenn vinni að rannsóknum. Það er það sama og við viljum. Munurinn aðeins sá, að við leggjum til, að þeir verði kallaðir prófessorar, og við viljum þjóðnýta þá meira en jafnaðarmennirnir vilja, þar sem við viljum láta þá annast vísindalega kennslu við háskólann samhliða rannsóknarstarfinu. Þessir menn, sem við ætlumst til, að nefndir yrðu prófessorar, myndu verða lærðir menn í fiskifræði, efnafræði og búvísindum. Ég býst því við, að þeir gætu kennt hinum ungu stúdentum nægilega mikið í þessum fræðigreinum, að það gæti orðið þeim að miklu gagni í þágu atvinnulífsins.

Þá gat hann þess, að það væri ekki ætlazt til, að þeir menn, sem nám stunduðu við þessa deild, þyrftu að taka próf. Út af þessu vil ég benda honum á, að 1911, þegar háskólinn var stofnaður, var ekki ætlazt til, að frá heimspekideildinni væri hægt að taka próf. Hér er því ætlazt til hins sama fyrirkomulags fyrst um sinn. Annars býst ég ekki við, að þessi hv. þm. neiti því, að t. d. stúdent, sem vill snúa sér að búskap, hafi ekki gott af því að sækja fyrirlestra til prófessors, sem er sérfræðingur í búvísindum. Eða þá að stúdent, sem ætlar að leggja fyrir sig útgerð, hafi ekki gott af því að hlýða á fyrirlestra í fiskifræði. Þá gæti það og komið til mála, að stúdentar leituðu til erlendra háskóla eftir 2-3 ára nám hér, og tækju þar fullnaðarpróf í þeim fræðigreinum, sem þeir hefðu lagt stund á hér. Á þann hátt gæti atvinnudeildin því orðið til þess að spara mikinn kostnað, sem annars yrði að greiða út úr landinu.

Þá sagði hv. þm., að við byrjuðum á öfugum enda í þessu máli. Ég get hreint og beint ekki skilið, hvað hann á við með þessu. Við byrjum á sama enda og hann og meðnm. hans. Við viljum láta rannsóknarstarfsemina byrja þegar í stað, en við leggjum aðeins til, að þeir, sem hana verða látnir annast, verði jafnframt látnir annast kennslu. Við förum á þann hátt lengra í því að vilja hagnýta starfsorku þeirra manna, sem hér eiga að starfa fyrir ríkið.

Hann talaði og um það, hv. þm., að það væri vafasamt, hversu við flm. frv. þessa værum heilir í þessu máli, úr því að við hefðum farið að koma fram með sérstakt frv., þar sem við ættum sæti í allshn. og ættum því kost á að koma að breyt. við frv. meiri hl. Ég gat í gær vinnubragðanna í nefndinni, að frv. hefði t. d. verið lesið upp á ca. 1/4 klst. og sagt, að það væri komið frá skipulagsnefnd, og því gætum við ekki fengið að koma að breytingum. Var því ekki annað fyrir okkur að gera en flytja þetta frv. Það, sem við förum fram á, er að tryggja háskólanum hina ágætu starfskrafta, sem koma til með að vinna að rannsóknarstarfseminni. Þetta hljóta allir skynbærir menn að sjá, að er heilbrigt, og ég er f. d. viss um, að jafngreindur maður og hv. þm. Hafnf. er sér þetta líka, og hefir strax séð í skipulagsnefnd, en hann hefir bara orðið að láta þar í minni pokann og gera annað en skynsemin bauð honum.

Annars þykir mér undarleg andstaða hv. þm. Hafnf. gegn frv. okkar, því að í fyrra, þegar frv. um svipað efni lá fyrir þinginu, sendi menntmn. Ed. skipulagsn. atvinnumála, sem þessi hv. þm. á sæti i, frv. þetta til umsagnar, og í bréfi til þessarar n. frá skipulagsnefnd var það tekið fram, að n. teldi mikilsvert, að stofnað yrði til fjölbreyttrar rannsóknarstarfsemi við háskóla Íslands í þágu atvinnuveganna, og ennfremur það, að nauðsynlegt væri, að stúdentum væri gefinn kostur á fjölbreyttara námi en verið hefir við háskólann. En þetta er einmitt það tvennt, sem við erum að berjast fyrir og næst með frv. okkar hv. 8. landsk.

Hv. þm. Hafnf. má gera okkur hvaða getsakir sem hann vill í þessu máli, en fyrir okkur vakir ekki annað en að tryggja þessi tvö höfuðatriði, sem tekin eru fram í áðurnefndu bréfi skipulagsnefndar. Og hvað því viðvíkur, að flýtt sé afgreiðslu þessa máls, þá viljum við fúslegu styðja að því, en við viljum vernda frjálsræði háskólans og tryggja möguleika hans sem menntastofnunar meðan kostur er á.