15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (3970)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég mun ekki lengja mikið umr. um þetta mál á þessu stigi. Það verður efalaust athugað í n. og við 2. umr.

Mér skilst, að það sé ekki mikill ágreiningur um það, að þeirri rannsóknarstofnun, sem gert er ráð fyrir í báðum frv., sé svipað fyrir komið í þeim báðum. Henni er skipt í jafnmargar deildir og það eru jafnmargir menn, sem eiga að starfa við hana eftir báðum frv. Það, sem ágreiningurinn virðist vera um, er það, hvort jafnframt því, að þessir menn, sem eiga að hafa á hendi vísindalega starfsemi, eigi að vera kennarar við háskólann eða ekki. Ég verð að segja, að mér finnst sú mikla andstaða, sem hv. þm. Hafnf. kom fram með gegn frv., sem einmitt byggðist á þessu atriði, vera undarleg, þegar hann í öðru orðinu segir, að það sé knýjandi nauðsyn að efla háskólann sem mest og gera hann svo fjölþættan, að þeir stúdentar, sem nú leita út fyrir landsteinana, þurfi þess ekki. Ég skil ekki, ef efni þessara tveggja frv. er að þessu leyti til shlj. og ef hv. þm. jafnframt álítur, að það beri að efla háskólann, hvers vegna hv. þm. vill ekki ganga einhverja miðlunarleið á móti okkur, sem flytjum þetta frv. til þess einmitt að geta fullnægt þessu atriði.

Hv. þm. hefir sagt það í öllum ræðum, sem hann hefir flutt í þessu máli, að hann vilji ekki láta kennsluna vera neitt kák. Nú hefir þessi hv. þm. alls ekki sannfært mig um það, að þeir menn, sem gert er ráð fyrir, að starfi í atvinnudeildinni og hafi hinar aðrar undirdeildir, séu ekki svo faglærðir, að þeir geti tekið að sér þessa kennslu á vísindalegan hátt. Ég vil benda á, að samkv. okkar frv. eiga að starfa þarna auk prófessors í búnaðarvísindum, annars í fiskifræði og þriðja í efnafræði, aukakennarar, ekki fleiri en 6 samkv. nánari ákveðum regluverðar, eða 9 kennarar alls.

Nú fæ ég ekki séð annað en að þessir þrír prófessorar og hinir aðrir 6 menn, sem gert er ráð fyrir, að kenni í þessari deild, séu færir um að kenna undirstöðuatriðin, sem hv. þm. Hafnf. var að tala um, auk þess að alltaf mætti auka við starfskrafta. Ég er því viss um, að hv. þm. er ekki á móti þessu frv. vegna þess, að það sé óframkvæmanlegt, heldur miklu fremur vegna hins, að það virðist vera „princip“ hjá sósíalistum, að það „pródúkt“, sem kemur frá þeirri rauðu nefnd, sem hv. þm. á sæti í, sé svo gott, að ekki megi þynna það út með till. sjálfstæðismanna. Þessu til sönnunar skal ég ennfremur benda á, að í 14. gr. frv. meiri hl. allshn. er gert ráð fyrir því, að þeir menn, sem samkv. báðum frv. eiga að starfa við rannsóknarstofnunina skuli vera kennarar í þessari kennsludeild háskólans. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp 14. gr. frv.:

„Þegar því verður við komið, að dómi rannsóknarstofnunarinnar og atvinnumálaráðherra, að tekin verði upp kennsla við Háskóla Íslands í þeim fræðigreinum, sem rannsóknarstofnunin einkum fjallar um, skulu starfsmenn stofnunarinnar annast kennsluna. Kennarar rannsóknarstofnunarinnar mynda þá sérstaka kennsludeild í háskólanum, og lýtur hún sömu almennum fyrirmælum um skipulag sem aðrar kennsludeildir háskólans.“

„Þegar því verður við komið“, segir í 14. gr. frv., skulu starfsmenn stofnunarinnar annast kennsluna. Það er ekki annað, sem við förum fram á. En ef þetta er ekki nægilegt samkv. okkar frv., hvernig getur það þá verið það samkv. frv. meiri hl. allshn.? Og ef það er ekki, hvers vegna hefir þessi hv. þm. þá ekki sett ákvæði um það, hverjir skuli kenna þessi undirstöðuatriði, stærðfræði og efnafræði? (EmJ: Það stendur ekki, að þeir eigi að vera einir). Má þá ekki líka bæta við samkv. okkar frv.? (EmJ: Það stendur í frv. hv. þm., að þeir megi ekki vera fleiri en 9). Já, við rannsóknarstofnunina, það er rétt. En ef þetta atriði þarf að leysa, hvers vegna getur hv. þm. þá ekki sagt hreint út, að það sé ekki nóg, að þeir séu 9? Við fastbindum okkur ekki við þessa tölu. Það er ekkert aðalatriði. En það stendur í 14. gr. frv. meiri hl. allshn., hverjir það eru, sem eiga að annast þessa kennslu, og ég vil benda á það, að í frv. því um Háskóla Íslands, sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir, að deildir háskólans séu 5, guðfræðideild, læknadeild, lagadeild, heimspekideild og atvinnudeild. Menntmn. flytur þetta frv. óskipt og gerir ráð fyrir því, að atvinnudeildin sé ein af deildum háskólans. Þetta væri léleg deild innan háskólans, ef engin kennsla gæti farið þar fram. Ég hygg, að hv. þm. vilji ekki halda því fram í alvöru, að ekki sé nauðsynlegt, að þessir menn, sem þarna vinna í þágu vísindanna, ekki færri en 9, og kostnaðaráætlun stofnunarinnar um 100 þús. kr., hafi á hendi kennslu við háskólann. því má ekki setja ákvæði um það í reglugerð, að fara skuli fram kennsla í þessum greinum við háskólann, jafnvel þótt hún yrði ekki svo fullkomin, að hægt væri að leysa stúdenta út með prófi, sem jafnaðist á við próf í þessum fræðum erlendis? Væri nokkuð á móti því, að þessir starfsmenn rannsóknarstofnunarinnar héldu samt uppi kennslu? Ég fæ ekki séð það. Við verðum að bíta í það súra epli að lúta að því bezta fáanlega, og þeir menn myndu verða fegnir, sem á annað borð vildu setja sig inn í þessi fræði, að njóta þeirrar fræðslu, sem hinir 9 menn myndu geta veitt. Hvers vegna ekki að leita allra bragða til þess að veita stúdentastraumnum inn á aðrar brautir en hingað til hafa verið farnar hér? Öllum er vitanlegt, að þekking í þessum efnum, sem hér um ræðir, þótt ekki væri alfullkomin, gæti hjálpað stúdentunum á ýmsan hátt til að afla sér atvinnu.

Hv. þm. sagði, að rektor háskólans hefði þegar gengið inn á frv. og lýst yfir því, á fundi, að hann væri því samþykkur. Með allri virðingu fyrir rektor háskólans, þá vil ég segja það, að hann hefir ekki talað þarna í umboði háskólaráðsins, því að það var klofið í málinu, og meiri hl. kennara háskólans var á móti frv. n., þótt meiri hl. háskólaráðs væri e. t. v. með því. Þetta veit hv. þm. Hafnf., þótt hann vilji dylja það fyrir d., og ef hann og hv. 9. landsk. vilja fá rétta umsögn um málið, þá skora ég þá að beita sér fyrir því, að flokksbróðir þeirra, sósíalistinn Héðinn Valdimarsson, 2. þm. Reykv., form. allshn., sendi háskólaráði og hinum einstöku deildum háskólans frv. til umsagnar. Það ætti að vera þeim ljúft, ef þeir eru eins vissir um fylgi þessara aðilja og þeir láta.